Sigurður Oddsson
Sigurður Oddsson
Eftir Sigurð Oddsson: "Virðisauki framleiðslunnar verður á meginlandinu og ekki hjá okkur. Í staðinn munum við áfram fá mengandi stóriðju, sem fá lönd vilja fá til sín."

Umræðan um þriðja orkupakkann minnir á Steingrím, sem samdi við Jóhönnu og Samfylkinguna um inngöngu í ESB. Já, og það þrátt fyrir öll loforðin um að VG myndi aldrei samþykkja inngöngu í ESB.

Út á loforðið fékk VG góða kosningu og Steingrímur ráðherrastól. Hann vissi vel að þjóðin vildi ekki í ESB. Loforðið var því það sem á vondu máli hefur verið kallað „popúlismi“. Betra mál er lýðskrumari, sem hæfir vel þeim, sem nú situr í stól forseta Alþingis.

Stjórnarskráin stóð í vegi fyrir því að þau Jóhanna gætu gengið beint til verks og innlimað þjóðina í ESB. Það hefði verið greinilegt stjórnarskrárbrot, en þau sáu leið framhjá þeirri hindrun og hófu „endurbætur“ á stjórnarskránni. Fjölda fólks var skipt í minni hópa, sem unnu langan vinnudag í Laugardalshöllinni að semja nýja stjórnarskrá. Reglulega bárust fréttir af gangi mála, þar til landsmönnum var send útprentuð niðurstaðan. Eins konar krossapróf og fólk beðið að merkja við hverju það væri sammála.

Ég merkti við eignarhald á sjávarauðlindinni, sem ég held að meirihluti þjóðarinnar hafi verið sammála um. Nokkru seinna bárust þær fregnir frá stjórn Jóhönnu að ný stjórnarskrá hefði verið samþykkt með yfirgnæfandi meirihluta – og ég sem hélt að ég hefði verið að taka þátt í skoðanakönnun. Ég veit að svo var um marga aðra. Eftir því sem ég komst næst var já við eitt atriði nægilegt sem samþykki. Þar með eyðilögðu þau að á Íslandi væri framúrskarandi lýðræði.

Ég hefi oft hugsað: Hvers vegna var ekki spurt: Viltu ganga í ESB, já eða nei? Það hefði alla vega verið miklu ódýrara og svo hefði verið hægt að taka einstaka liði stjórnarskrárinnar til endurskoðunar. Lið fyrir lið óháð ESB.

Þeir sem hafna þriðja orkupakkanum eru þeirrar skoðunar að með samþykki hans afsölum við okkur yfirráðum á orkuauðlindinni án þess að fá nokkuð í staðinn. Í dag getum við t.d. óskað eftir tilboðum í græna orku gegn því að kaupandi reisi verksmiðjuna hér á landi og sett sem skilyrði að taka hvaða tilboði sem er og að 1) umhverfisvernd og 2) verðið fyrir orkuna hafi mest vægi. Við getum óskað eftir tilboði hvaðan sem er í heiminum og ekki bara frá ESB-löndum, eins og verður með samþykki pakkans.

Samþykkjum við þriðja pakkann fer orkan úr landi til uppbyggingar fyrirtækja sem við vildum gjarnan fá til okkar. Virðisauki framleiðslunnar verður á meginlandinu og ekki hjá okkur. Í staðinn munum við áfram fá mengandi stóriðju, sem fá lönd vilja fá til sín. Landsvirkjun mun geta selt umframorku og fengið hærra verð þegar stóriðjusamningarnir renna út. Á móti kemur að orkuverð til heimila og fyrirtækja mun hækka mikið.

Þeir sem vilja samþykkja þriðja orkupakkann segja hann ekki skipta neinu máli. Hvorki fyrir okkur né EES. Hvers vegna er þá verið að samþykkja hann? Hvað fengum við með fyrsta og öðrum orkupakkanum annað en aukinn kostnað um leið og grunnur var lagður að sölu um sæstreng?

Þeir segja líka enga hættu á að sæstrengur verði lagður. Það stangast á við smávirkjanaæðið og kaup erlendra aðila á hlutabréfum í orkuvirkjunum. Þessir aðilar myndu ekki fjárfesta svona ef þeir væru ekki vissir um að sæstrengur yrði lagður. Aukinn þrýstingur mun koma frá þeim um leið og þriðji orkupakkinn verður samþykktur. Svo koma fjórði og fimmti orkupakkinn með kröfu um að rífa niður þjóðareignina Landsvirkjun.

Forsætisráðherra tekur undir að í þriðja orkupakkanum felist engin áhætta á lagningu sæstrengs, því að í samningnum sé fyrirvari um samþykki Alþingis. Er forsvaranlegt að taka sénsinn á að leika sér með fjöregg þjóðarinnar í trausti þess að Alþingi verji fullveldið?

Traust til Alþingis hefur aldrei verið jafn lítið og nú. Á þingi sitja þingmenn með þá hugsjón að koma landinu í ESB, hvað sem það kostar. Þeirra heimssýn nær ekki út fyrir ESB og skiptir þá engu máli að í ESB megum við ekki gera viðskiptasamninga við önnur ríki án samþykkis ESB. Þannig fórna þeir frjálsum viðskiptum fyrir aðgang að markaði sem er brotabrot af heimsmarkaði.

Verst er að ESB-lög verða æðri íslenskum lögum og stjórnarskrá. Við höfum þegar fengið forsmekkinn að því hvernig það gæti endað með nýlegum dómi mannréttindadómstóls Evrópu.

Höfundur er eldri borgari.