Ragna Matthíasdóttir fæddist á Breiðabólsstað á Síðu 24. september 1962. Hún lést á heimili sínu, Öldugötu 52 í Reykjavík, 4. maí 2019.

Foreldrar Rögnu voru Matthías Ólafsson f. 12.3. 1915, d. 8.3. 2012, og Elín Magnea Einarsdóttir, f. 14.12. 1923, d. 18.10. 1980. Systkini Rögnu voru Erna Þrúður, f. 25.12. 1945, d. 3.8. 2013, Sigríður Ólöf, f. 5.12. 1947, Bjarni Jón, f. 1.4. 1953, Sigurjóna, f. 13.12. 1955.
Ragna ólst upp hjá foreldrum sínum á Breiðabólsstað. Sem unglingur vann hún ýmis tilfallandi störf heima í héraði auk hefðbundinna sveitastarfa á búi foreldra sinna. Að loknum grunnskóla fór Ragna til náms í Verslunarskóla Íslands og lauk þaðan stúdentsprófi 1983. Haustið 1988 lauk Ragna tveggja ára námi í vöðvanuddi frá Heilsubrunninum. Ári síðar útskrifaðist hún með meistararéttindi í almennu líkamsnuddi frá Félagi íslenskra nuddara. Nuddstarfið stundaði Ragna aðallega í ígripum og nutu ættingjar og vinir jafnan góðs af þeirri kunnáttu hennar. Ragna var virkur meðlimur í Keilufélagi Reykjavíkur frá stofnun þess. Hún sat allmörg ár í stjórn félagsins og vann til fjölmargra Íslandsmeistaratitla með landsliði KFR. Árið 1991 hóf Ragna störf hjá Ístaki, fyrst við móttöku, símsvörun og tilfallandi verkefni og frá árinu 1993 sem ritari framkvæmdastjóra ásamt ýmsum öðrum ábyrgðarstörfum innan fyrirtækisins. Því starfi gegndi hún allt til æviloka.
Eiginmaður Rögnu var Bjarni Sveinbjörnsson, f. 29.8. 1947, d. 10.1. 2016.
Útför Rögnu fer fram frá Digraneskirkju í dag, 15. maí 2019, og hefst athöfnin kl. 13.

Ekkert er sárara en þögnin

svefnvana nátthlustun

þegar við bíðum hins eina svars

- svarsins sem aldrei kemur.

(Þ.V.)
Í dag kveðjum við kæra mágkonu mína, Rögnu Matthíasdóttur, hinstu kveðju. Ragna var langyngst í röð systkinanna frá Breiðabólsstað á Síðu, þar sem Bjarni minn var eini strákurinn meðal fjögurra systra, mágkvennanna sem ég eignaðist þegar ég kom inn í fjölskylduna fyrir rúmlega 20 árum. Móðirin, Elín Magnea, var þá löngu látin, en faðir þeirra, Matthías, lést 2012, 97 ára gamall. Framan af hittumst við Ragna sjaldan, helst ef hún kom austur á Síðu. Bjarni hennar var sjómaður, langdvölum í burtu og tækifærin fá til að hitta þau tvö saman. Hún deildi einkalífi sínu lítt með fjölskyldunni, en seinna sagði hún mér að þau Bjarni hennar hefðu unað sér best ein, í húsinu og garðinum sínum, á rjúpnaveiðum til fjalla eða með félögum sínum í keilunni. Eftir að við Bjarni minn fórum að leggja leið okkar á Öldugötuna jukust samskiptin smám saman og við Ragna kynntumst betur. Það fór ekki á milli mála að þarna var kona sem lét sér afskaplega annt um sitt fólk, sérstaklega föðurinn sem bjó á Síðunni til hinstu stundar. Hún var framkvæmdastjóri systkinanna varðandi jóla- og afmælisgjafir í ættinni, sá bæði um framkvæmdahliðina og bókhaldið, með öll systkinabörnin og fleiri á hreinu. Ég áttaði mig á því að hún var oft í ólíku hlutverki meðal vinnufélaga, saumaklúbbssystra og keilufélaga. Hún var potturinn og pannan í því sem var á döfinni og hélt utan um hlutina þannig að allt gekk upp. Bestu minningar sem ég á um Rögnu eru m.a. frá veiðiferð á Hólmana, þar sem hún öslaði brosandi á vöðlum með veiðistöng full af veiðihug. Úr gönguferðum okkar tveggja með Ægisíðunni, úti í Gróttu eða í Elliðaárdalnum þar sem hún, náttúruunnandinn, þekkti hvert blóm og hvern fugl. Ég man okkur Rögnu fara í bíó með popp og kók, sleikjandi sólina fyrir utan Kaffihús Vesturbæjar í kvöldsólinni eða bara í einhverju kaffispjalli heima hjá henni eða annars staðar. Hnyttin tilsvör og glettnisglampinn í augunum endurspegluðu grallarann sem bjó í þessari annars yfirveguðu og stilltu konu. Ég man Rögnu með systrum sínum, Siggu og Jónu í aftursætinu þegar þær þrjár slógust í hópinn með okkur Bjarna mínum, bróður þeirra, fyrir þremur árum og skoðuðu með okkur umhverfi Boden See að Rínarfossum og upp á hæstu toppa Norður-Alpanna. Við hættum ekki landkönnun fyrr en fjöllin Drei Zwestern blöstu við augum okkar, fundin til heiðurs Breiðabólsstaðarsystrunum þremur í aftursætinu. Það voru sagðar sögur, flissað, hlegið og grínast og dáðst að náttúrufegurðinni allt um kring. Við trúðum bjartsýn á góða tíma Rögnu til handa. Örlögin hafa hagað því þannig að margir úr nánustu fjölskyldu og vinahóp Rögnu hafa veikst og farið yfir móðuna miklu langt um aldur fram, á of stuttum tíma. Þannig var um móðurina, sem dó þegar Ragna var aðeins 18 ára, góðar vinkonur, eiginmenn allra systra hennar, elstu systurina, Ernu, og fyrir rúmum þremur árum dó Bjarni hennar eftir löng og erfið veikindi. Fyrir einu og hálfu til tveimur árum fór að bera á breytingum í fari Rögnu sem kom okkur sem næst stóðu í opna skjöldu. Hún bar harm sinn yfir breytingunni í hljóði og deildi engu, eins og hún hefði hreinlega ekki lag á að deila sínum innstu sálarkjörum með öðrum. Örvæntingarfull elskandi systkini hennar, umhyggjusamir sambýlingar á Öldugötunni, við hinar konurnar í kring um hana og heilbrigðis- og meðferðarstarfsfólk, allir lögðu sig fram um að beina sjónum hennar að öllum færum vegum og lífinu framundan. Bakkus var sá eini sem hún leitaði til, þessi pottþétta, yfirvegaða kona sem allir treystu og báru virðingu fyrir. Það var eins og skuggi Rögnu stækkaði og stækkaði, visnuð eins og blóm á hausti hvarf hún inn í vanmátt sinn og veikindi og dó að lokum, án ásetnings og án þess að nokkur mannlegur máttur fengi nokkru um það ráðið. Eftir sitjum við í fjölskyldunni hennar, mjög sorgmædd og full spurnar. Þessu fær ekkert breytt. En ég mun leggja rækt við minninguna um hana sem ég þekkti, ljóshærða, kvika, hrokkinkollinn sem öllu reddaði og hristi fram úr erminni um leið og hún leit yfir sviðið, glettnum bláu augum. Fari hún í eilífum friði!

Vertu sæl, systir,-
yndi og líf
þeim garði sem þú gistir.
/
Systkin víðs vegar
minnast þín,
og ljós og loft þig tregar.
/
Móðir Guðs man þér
nafnið þitt
og lífs og yndis ann þér.
/
Lítill vænglami
flýgur nú
í nýjum geislahami.
(Þ.V.)

Elín Erlingsdóttir.