Kjartan Hafsteinn Guðmundsson blikksmíðameistari fæddist á Búðum í Hlöðuvík á Hornströndum 18. júní 1923. Hann lést á dvalarheimilinu Höfða 29. maí 2019.
Foreldrar Kjartans voru Guðmundur Jón Guðnason, f. 11.11. 1890 í Hælavík á Hornströndum, d. 8.12. 1972, og Jóhanna Bjarnadóttir, f. 21.8. 1891 í Neðri Miðvík, d. 12.11. 1980.
Systkini Kjartans: Tvíburasysturnar Bjarney, f. 14.8. 1918, d. 15.7. 2011, Guðrún Soffía, f. 15.8. 1918, d. 26.9. 2006; Kristjana Ólavía, f. 14.8. 1920, d. 1931; Herdís, f. 3.9. 1929, d. 31.1. 2012.
Kjartan kvæntist 4. febrúar 1950 Auði Elíasdóttir frá Þingeyri Dýrafirði, f. 28.8. 1930, d. 28.6. 2012. Þau hófu búskap sinn í Reykjavík og fluttu síðan á Akranes 1958.
Börn Auðar og Kjartans: 1) Kolbrún, f. 12.3. 1950. Börn hennar: a) Auður Súsanna, maki Sigurður V. Aðalsteinsson, þau eiga eitt barn. b) Erla Linda, maki Bjarki Sigurbjörnsson, þau eiga tvö börn. c) Hafdís, maki Halldór Oddsson, börn þeirra eru tvö. 2) Elín Hanna, f. 2.8. 1954, maki Jón Vestmann, börn þeirra: a) Auður, hún á tvö börn. b) Eva Lind, maki Ágúst Auðunsson, þau eiga fimm börn. c) Thelma, maki Jóhann Eiríksson, þau eiga þrjú börn. 3) Guðmundur Hafsteinn, f. 19.10. 1961, maki Þuríður Baldursdóttir, börn þeirra: a) Guðlaug Sif, hún á eitt barn, b) Jóhanna Gréta. Fyrir átti Þuríður einn son, Atla Þór, maki María Björk Helgadóttir, þau eiga eitt barn. 4) Hörður, f. 19.10. 1961, maki Þórunn Elídóttir, þau eiga tvo syni, Elí og Kjartan. Fyrir átti Kjartan einn son. 5) Guðni, f. 10.12. 1946, maki Magnea Erla Ottesen. Börn þeirra a) Harpa, maki Birgir Briem, þeirra börn eru fjögur, b) Haukur Ingi, maki Ragnhildur Steinunn Jónsdóttir, þeirra börn eru fjögur. c) Margrét Erla, sambýlismaður Gunnar Egill Daníelsson, þau eiga eitt barn.
Æskustöðvar Kjartans voru Hlöðuvík á Hornströndum og bar hann alltaf afar sterkar taugar til heimahaganna. Kjartan fluttist alfarinn til Reykjavíkur 1941 og hóf síðar nám í blikksmíði og útskrifaðist úr Iðnskóla Reykjavíkur 1947. Hann var þá við störf hjá Blikksmiðju Reykjavíkur. Kjartan fluttist á Akranes 1958 og stofnaði þar Blikksmiðju Akraness ásamt svila sínum, Þorsteini Ragnarssyni. Þeir ráku fyrirtækið til 1967. Kjartan starfaði síðan hjá Þorgeir & Ellert, um tíma síðan lá leiðin í Sementsverksmiðjuna. Hann starfaði hjá Íslenska járnblendifélaginu frá 1979 til 1995 er hann lét af störfum fyrir aldurssakir. Kjartan tók þátt í margvíslegum félagsstörfum og gegndi ýmsum trúnaðarstörfum í verkalýðshreyfingunni, þar með talið formennsku í Félagi blikksmiða í Reykjavík, Iðnaðarmannafélagi Akraness, Sveinafélagi málmiðnarmanna Akranesi og var aðaltrúnaðarmaður starfsmanna Íslenska járnblendifélagsins. Hann sat í stjórn Félags eldri borgara og var formaður Stangaveiðifélags Akraness. Kjartan tók ungur þátt í starfi ungra jafnaðarmanna og var mikill jafnaðarmaður alla tíð. Hann gegndi ýmsum trúnaðarstörfum fyrir Alþýðuflokkinn. Jafnframt félagsstörfum spilaði Kjartan mikið brids, stundaði stangveiði eins lengi og heilsan leyfði. Kjartan þekkti landið sitt vel og var hafsjór af fróðleik um land og þjóð. Hann var hagmæltur eins og margir af Hælavíkurættinni og eru til ótal tækifærisvísur og ljóð eftir hann. Kjartan var sæmdur fálkaorðunni 1995 fyrir félagsstörf.
Útför Kjartans fer fram frá Akraneskirkju í dag, 11. júní 2019, klukkan 13.

Á Akranesi er látinn í hárri elli Kjartan Guðmundsson blikksmiður að iðn og fyrr á árum formaður Sveinafélags málmiðnaðarmanna sé það nafn rétt munað.

Mig langar að skrifa nokkur minningarorð um þennan félaga minn sem vert væri. Verkefnið er af því tagi sem mér hefur alla tíð þótt mest varið í, - verkefni sem ég er ekki alveg viss um að ráða við.
Ég hafði fyrir nokkrum misserum tekið við starfi framkvæmdastjóra járnblendifélagsins meðan á byggingu verksmiðjunnar þar stóð og það var orðið tímabært að ráða til starfa mannskapinn sem átti að reka þessa verksmiðju. Um þær mundir var Kjartan Guðmundsson tilnefndur af hálfu verkalýðsfélaga og landsambanda sem þessir starfsmenn voru í sem aðaltrúnaðarmaður þeirra á staðnum. Þar með hófst samstarf okkar, sem stóð í 15 ár eða svo.
Fyrstu árin var járnblendifélagið ekki aðili að Vinnuveitendasambandi Íslands og þess vegna var það mitt hlutskipti að semja við þessi verkalýðsfélög og landsambönd um kaup og kjör.
Á fyrsta fundi mínum með genginu sem hafði það verkefni að semja af þeirra hálfu varð mér ljóst, að viðsemjendurnir þekktu ekki þann rekstur eða þau störf, sem þeir áttu að semja fyrir. Ég greip til þess ráðs að bjóða þeim í vikuferð til Noregs, þar sem þeir gátu ráðgast við frammámenn landsambands þess konar starfsfólks í samskonar verksmiðjum og svo fór ég með þá lengst norður í Noreg, þar sem þeir kynntu sér þá verksmiðju, sem í raun var fyrirmyndin að verksmiðjunni á Grundartanga. Þar gátu þeir ráðgast við forystumenn starfsmanna, jafnframt því að kynnast því hvernig þessi verksmiðjurekstur var. Í framhaldinu fórum við syðst í Noreg þar sem er önnur verksmiðja af svipaðri tegund, þar sem raunar tólf af okkar mönnum voru komnir til 6 mánaða þjálfunar í ofnrekstri.
Þessi ferð hristi hópinn saman og sjálfum fannst mér ég vera orðinn einn af genginu.
Þegar heim var komið var gengið til samninga og þeir voru í sjálfu sér einfaldir, því að krafan var um samskonar samning og starfsmenn Ísal höfðu. Það gekk að mestu eftir, en í framhaldinu þróuðust þessir samningar eftir sínum eigin leiðum.
Kjartan varð lykilmaður í öllum tengslum trúnaðarmannasamfélagsins á svæðinu innbyrðis og við stjórnendur fyrirtækisins. Hann rak erindi starfsmannanna gagnvart mér og öðrum stjórnendum og ógnarlega þráttuðum við um margt, smátt sem stórt, í þau 15 ár sem við störfuðum þar saman.
Samstarf okkar Kjartans var engu að síður gott og ekki minnist ég annars en að við höfum leyst úr hverjum vanda í sátt.
Margt annað bar á góma. Þar sem okkur kom ekki saman. Mér var mjög í nöp við verkfallsréttinn og taldi hann ætti að heyra sögunni til. Ég taldi verkföll vera sóun bæði fyrir launafólk og ekki síður fyrirtækin sem það vinnur hjá og gera þeim erfiðara fyrir að greiða laun. Þá taldi ég verkföll gagnast þeim helst, sem mest kverkatök höfðu á samfélaginu og iðulega síst höfðu þörf fyrir kauphækkanir. Kjartan var hvort tveggja gegnheill krati og verkalýðssinni af gamla skólanum svo um þetta var hann mér alsendis ósammála. Okkar í milli var það öldungis skýrt, að kæmi til verkfalls á Grundartanga liti ég svo á að starfsmenn hefðu sagt mér upp störfum. Í síðasta skiptið sem við hittumst, á haustmánuðum, gat ég þó ekki betur heyrt ofan í hann, en að hann væri farinn að hallast að mínum skoðunum í þessu efni.
Um eitt í Straumsvíkursamningunum vorum við hins vegar algerlega sammála. Það var sú ósanngirni, sem þá tíðkaðist, að laun verkakvenna væru miklu lægri en laun verkamanna. Þessu töldum við þurfa að breyta. Í öllum samningum sem við gerðum og Kjartan hafði forystu um af hálfu starfsfólksins stigum við skref í þá átt að jafna þennan mun. Það tókst raunar ekki að fullu á meðan Kjartan var við störf sem aðaltrúnaðarmaður, en skrefin voru áfram stigin og í síðustu samningunum mínum vorið sem ég hætti störfum hjá járnblendifélaginu var jöfnuðinum náð, en það tók líka 18 ár.
Í daglegum störfum í gegnum árin hélt Kjartan utan um trúnaðarmennina á hverjum tíma. Ég ræktaði  þetta samband hins vegar með tvennum hætti, með spjalli úti á svæðinu og svo með nokkuð reglubundnum heimboðum þar sem trúnaðarmenn og makar þeirra ásamt stjórnendum og fleiri starfsmönnum sem trúnaðarmennirnir þurftu að eiga við var boðið heim til okkar hjóna til kvöldverðar og samneytis eina kvöldstund. Þetta gerðist kannski ekki alveg árlega, en var aðferð til að rækta tengslin milli trúnaðarmannanna og stjórnenda fyrirtækisins.
Eftir á að hyggja var allt þetta starf, þar sem Kjartan lék aðalhlutverk og okkar nána samstarf, lykill að því andrúmslofti og samfélagi sem varð til á þessum vinnustað og fleytti okkur í gegnum erfiðleikana sem urðu á veginum. Eftir að hann hætti störfum og ég nokkru síðar höfum við haldið tengslum allt fram undir það síðasta. Að leiðarlokum sé ég ekki ástæðu til að flytja fólkinu hans samúðarkveðjur, - öllu fremur hamingjuóskir með að hafa átt slíkan öðling að.

Jón Sigurðsson, fyrrverandi framkvæmdastjóri Íslenska járnblendifélagsins.