Werner Ívan Rasmusson
Werner Ívan Rasmusson
Eftir Werner Ívan Rasmusson: "Því skyldum við treysta Alþingi núna, í þriðja orkupakkanum, sem meirihlutinn segir að sé fullræddur og kannaður?"

Íslenskir höfðingjar hafa sjaldnast haft hag alþýðunnar í huga við mat á ákvarðanatöku um þarfir og gæfu lands og lýðs.

Þegar árið 1262 játuðumst við, eða öllu heldur höfðingjarnir, undir Hákon gamla Noregskonung. Og vorum við undir erlendu konungsvaldi í tæp 700 ár. Innlendir höfðingjar gerðu hosur sínar grænar fyrir hinum erlendu konungum með eigin ábata í huga og því miður virðast margir búa við sama hugafar ennþá.

Á Þjóðhátíðinni á Þingvöllum 1907, nánar tiltekið hinn 2. ágúst, gengust sex ungir menn með Jóhannes Þ. Jósefsson í fararbroddi fyrir stofnun Ungmennafélags Íslands, sem varð mikil lyftistöng fyrir allan landslýð. Vakning varð um uppbyggilegt líferni og hvatningarorðin : „Heilbrigð sál í hraustum líkama“ og „Íslandi allt“ ómuðu um landið.

Því miður virðast þessi góðu hvatningarorð hafa fallið í gleymsku, en þau eru í fullu gildi enn í dag og ekki vanþörf á því að láta þau hljóma enn á ný.

Við erum fámenn þjóð í stóru landi, fullu af náttúrugæðum, sem margir líta girndaraugum. Okkur veitir ekki af því að vera vel á verði, því ekki eru allir viðhlæjendur vinir.

Erlendir aðilar sækjast eftir því að eignast fasteignir og jarðir hér og þykir mér sú þróun varhugaverð.

Fyrir nokkrum árum datt mér í hug að kaupa sumarbústað í Danmörku og fór til fasteignasala og bar upp erindið. Hann svaraði að bragði: „Útlendingar geta ekki keypt fasteignir hér, nema vera búsettir.“ Ég sagðist vera fæddur þegn dansks konungs, en það dugði ekki til. Af hverju erum við svona grandalausir? Trúum við því í alvöru að þessir góðu útlendinga séu að kaupa laxveiðiárnar okkar til þess eins að varðveita þær til frambúðar fyrir okkur?

Hollusta við land og þjóð hefur lengstum verið aðalsmerki góðra þjóðfélagsþegna. Að vísu komst óorð á svonefnda þjóðernishyggju á þriðja áratug 20. aldarinnar, en þar var hún framkvæmd á ómanneskjulegan og glæpsamlegan hátt, sem enginn átti von á og menn trúðu tæpast að satt væri. En það er ekki glæpur, heldur siðferðilegur réttur og skylda okkar að vernda og styrkja menningu okkar, trú og tungu, eins og kostur er.

Nú þegar eru um 16% landsmanna af erlendu bergi brotin og verður maður þess vel var á hverjum degi. Við förum í ýmiss þjónustufyrirtæki og margir starfsmannanna eru ekki mælandi á íslenska tungu. Ég óttast að þeirri þróun verði ekki snúið við og að áður en við er litið erum við orðin tvítyngd (enska) þjóð.

Ég var svo lánsamur að faðir minn kom sem innflytjandi frá Danmörku snemma á fyrri hluta 20. aldarinnar. Hann kvæntist íslenskri konu, móður minni. Ég fæddist og ólst upp hér og fæ aldrei fullþakkað þau forréttindi. Hér hef ég átt góða ævidaga.

Margir gjalda varhug við samþykki þriðja orkupakkans og að hætta sé á því að við missum forræði á raforkunni okkar. Í Bændablaðinu hinn 29. maí sl. er fréttagrein þess efnis, að átta Evrópusambandsríkjum sé nú skylt að einkavæða vatnsaflsvirkjanir sínar. Í greininni kemur fram að Frakkland sé eitt þeirra ríkja og það leiti nú allra leiða til þess að komast hjá þeirri einkavæðingu. Ef Frakkar verða kúgaðir til hlýðni, hvað verður þá um okkur?

Ekki er laust við að hugurinn hverfi til Icesave-málsins. Ekki reyndist meiri hluti Alþingis góður ráðgjafi þá og því skyldum við treysta Alþingi núna, í þriðja orkupakkanum, sem meirihlutinn segir að sé fullræddur og kannaður, án þess, að því er virðist, hafa kíkt í í fjórða pakkann, sem nú er kominn fram?

Góðir Alþingismenn og aðrir Íslendingar! Munum: Íslandi allt.

Höfundur er eftirlaunaþegi.