Sigurrós Guðbjörg Eyjólfsdóttir fæddist í Reykjavík 23. ágúst 1922. Hún lést á hjúkrunarheimilinu Droplaugarstöðum 15. október 2019.
Foreldrar hennar voru hjónin Herdís Sigurðardóttir, sem fædd var 1897 í Reykjavík, og Eyjólfur Guðbrandsson, fæddur 1892, ættaður úr Ólafsvík. Þau eignuðust þrjár dætur, Málfríði Laufeyju, sem nú er látin, fædda 1918; Sigurrós 1922 og Sigríði 1927. Þær ólust upp á Grímsstaðaholtinu í Vesturbæ Reykjavíkur. Ekki var um mikla skólagöngu að ræða hjá þeim systrum, fremur en hjá mörgu alþýðufólki á þeim árum, en þær þóttu vel gefnar, hæfileikaríkar og glæsilegar stúlkur og lék allt í höndunum á þeim eins og þær áttu kyn til.
Sigurrós giftist 12. október 1946 Gunngeiri Péturssyni, f. í Reykjavík 28. janúar 1921, d. 5. sept. 1991. Hann var lengst af skrifstofustjóri hjá byggingafulltrúa Reykjavíkurborgar og var ákaflega farsæll í því starfi og vildi hvers manns vanda leysa. Þau eignuðust tvö börn: Herdísi, f. 26. september 1947 og Viðar, f. 27. september 1949. Heimili þeirra hjóna var í áratugi í Steinagerði 6 í Reykjavík.
Herdís lauk prófi frá Verzlunarskóla Íslands. Hún giftist árið 1967 Friðriki Björnssyni f. 1. janúar 1943. Þau bjuggu í Reykjavík, lengst af með eigin atvinnurekstur í verslun og ferðaþjónustu og eignuðust þrjú börn: 1) Gunngeir f. 1968, kona hans er Edda Björg Sigmarsdóttir og eiga þau þrjú börn; Elísu Björgu, Aron Andra og Valdísi Ósk. 2) Ásgeir, f. 1973. Hann á fjögur börn; Friðrik Mána, Kristínu Theodóru, Kirsten Helgu og Herdísi Hlín. 3) Sigurrós, f. 1981, hennar maður er Steinar Óli Bjarkar Jónsson og eiga þau tvö börn; Heiðar Mána Bjarkar og Herdísi Björk. Herdís Gunngeirsdóttir varð bráðkvödd fyrir réttum 11 árum aðeins 61 árs að aldri og varð öllum harmdauði sem hana þekktu.
Viðar lauk guðfræðaprófi frá Háskóla Íslands. Hann kvæntist 1973 Höllu Guðmundsdóttur leikkonu, f. 27. febrúar 1951, og bjuggu þau í Reykjavík í nokkur ár en gerðust síðan bændur á Ásum í Gnúpverjahreppi, æskuheimili hennar. Börn þeirra eru þrjú: 1) Haukur Vatnar, f. 1976. Kona hans er Kristín Gísladóttir; börn þeirra eru Elías Hlynur, Þröstur Almar, Eydís Birta og Alda Sól. 2) Álfheiður, f. 1978. Hennar maður er Jón Hákonarson; börn þeirra eru Karen Sif, Iðunn Ósk; Baldur Már og Óðinn Þór. 3) Guðmundur Valur, f. 1983, og á hann tvær dætur; Höllu Bryndísi og Kristínu Eddu.
Sigurrós bjó ein eftir lát Gunngeirs 1991, fyrst í stað í Álfheimum 68, en síðan á Sléttuvegi 15. Síðustu ár bjó hún á Droplaugarstöðum við Snorrabraut og naut þar frábærrar umhyggju.
Útför Sigurrósar verður gerð frá Bústaðakirkju í dag, 28. október 2019, klukkan 13.


Elsku ástkæra amma mín. Þá er hún runnin upp, kveðjustundin. Það sem við vorum búnar að velta þessum tímamótum fyrir okkur í gegnum árin. Ég með mínar skoðanir og þú með þínar. Við vissum auðvitað báðar að þessi stund hlyti að færast nær eftir því sem árin liðu og ég veit fyrir víst að þú varst tilbúin til að taka henni opnum örmum.

Þú varst alveg einstök kona amma og lifðir svo fallegu og friðsælu lífi. Þú varst ein af aðalpersónunum í mínu lífi og minn helsti og besti stuðningsmaður og klappstýra. Í þínum augum gat ég ekki feilspor stigið. Þú varst mér svo góð.

Ömmur eru víst alls konar en þú amma varst blanda af öllu því besta og svo vel gerð á allan hátt. Þú varst góðhjartaða amman með hlýja faðminn og prjónana við höndina sem alltaf sýndir mér skilning og samkennd, sama hvað bjátaði á. þú varst amman í eldhúsinu sem vildir alla munna og maga fulla og það var fátt sem gladdi þig meira en fólk sem tók vel til matar síns. Þú varst líka amman sem þekkti allar nýjustu Hollywood-stjörnurnar, hafðir sterkar pólitískar skoðanir og varst ekki síður skoðanasterk þegar kom að tísku, fatnaði og fallegum munum. Þú varst skvísa, með bleikar neglur og bleikan varalit, oft í nýrri flík frá Verðlistanum og iðulega nýkomin úr hárlagningu. Þannig mun ég minnast þín.

Þið afi voruð mitt fólk og ég bý að svo ótal mörgum yndislegum æskuminningum úr ömmu- og afakoti í Álfheimunum. Það var þar sem afi kenndi mér að binda slaufu og ég lærði að gera fléttu. Það var þar sem ég lærði fyrsta kapalinn, fyrsta spilið og fyrsta spilagaldurinn. Það var þar sem krakkarnir í blokkinni hópuðust að afa til að fá hann til að leika og mér fannst ég vera heppnasta stelpan í bænum að hann væri minn. Heimili ykkar einkenndist af mikilli hlýju og ástúð og maður var alltaf svo innilega velkominn. Sem lítil stelpa man ég hvað þið afi sýnduð börnum mikla virðingu bæði í tali og gjörðum. Maður fann að maður skipti máli. Skoðanir manns höfðu vægi og tekið var eftir og hlúð að öllu því jákvæða sem maður hafði fram að færa. Þú varst vön að segja það á að hrósa börnum, sem í þá daga var eflaust fremur framsækið viðhorf fyrir konu af þinni kynslóð. Og það gerðir þú svo sannarlega. Þú slóst bestu gullhamrana og sparaðir aldrei hrósið, alveg fram á síðasta dag.

Það er við því búið að á ævi sem endist hátt í heila öld séu sorgirnar jafnmargar og sigrarnir og fórst þú ekki varhluta af því elsku amma mín. Þú kvaddir eiginmann, systur, bestu vinkonur, frændfólk, vini og kunningja en erfiðastur var viðskilnaðurinn þegar mamma mín, dóttir þín, lést skyndilega fyrir ellefu árum, upp á dag. Það var sorg sem aldrei yfirgaf þig og söknuðurinn skein alltaf úr augum þínum, sama hvað þú reyndir að skyggja á hann. Eftir fráfall mömmu varð samband okkar enn nánara og hölluðum við okkur upp að öxl hvor annarrar og studdum hvor aðra í gegnum sorgina sem því fylgdi. Það sem ég á eftir að sakna þess að líta inn í kaffi hjá þér á Sléttuveginum. Þú varst mér svo miklu meira en amma, þú varst vinkona mín.

Það var aðdáunarvert að fá að fylgjast með rónni sem færðist yfir þig þessa síðustu mánuði, vikur og daga. Það var engu líkara en að eftir því sem skilningarvitunum hrakaði færðist styrkur í þinn innri ljóma og hann skini bjartar en nokkru sinni fyrr. Þú varst svo uppfull af þakklæti, ást, auðmýkt og kærleika að yfir flæddi. Þér entist svo sannarlega ævin til þess að fullkomna uppáhaldsiðju englanna; að telja blessanir sínar. Ein mín mesta blessun í lífinu er að hafa gerst svo lánsöm að fá að eiga þig að. Ég er þakklát fyrir að þú náðir því sem mamma náði aldrei; að hitta börnin mín tvö og fá að sjá hversu mikla gleði þau færðu þér. Ég er þakklát fyrir allt það góða sem þú gafst og ég tek sem veganesti út í lífið. Ég er þakklát fyrir öll samtölin sem við áttum í gegnum árin og síðast en ekki síst er ég þakklát fyrir hjartnæmu kveðjustundina sem við áttum kvöldið áður en þú kvaddir. Hún mun lifa með mér að eilífu.

Þú hefur nú stungið þér til sunds í haf kærleikans og leyfir nú öldunum að bera þig lengra en augu okkar hinna geta séð. Ég veit að mamma og afi ásamt öllum hinum sem þú saknaðir svo sárt munu taka þér fagnandi og þú þeim. Það eru bara nokkrar vikur síðan þú sagðir við mig orðrétt: Hafðu engar áhyggjur af mér þegar ég fer. Ég fæ að dingla þarna fyrir ofan ykkur og fylgjast með. Þú gefur mér kannski vink öðru hvoru, og svo brostir þú þínu allra blíðasta.

Ég hef þessi orð þín hugföst nú þegar ég kveð þig að sinni. Vertu bless elsku vinkona mín og takk fyrir allt sem þú gafst.

Þín nafna,

Sigurrós Friðriksdóttir.