Bjarndís Helgadóttir (Dídí) fæddist 14. desember 1934. Foreldrar hennar voru Ingveldur Margrét Bjarnadóttir frá Stokkseyri, f. 5.4. 1915, d. 19.12. 1986, og Helgi Steinþór Sigurlínus Elísersson frá Langanesi, f. 27.4. 1910, d. 24.9. 1986. Dídí var elst fimm barna, næstur var Elíeser, f. 29.6. 1936, d. 18.9. 2018, eiginkona Jónína Jóhannsdóttir f. 9.4. 1940; Hallgerður Sjöfn, f 28.12. 1942, d. 26.6. 2006, eiginmaður Kristinn Árnason, f. 4.3. 1938; Helgi Sævar, f. 18.7. 1946, eiginkona Sigurlaug Jónsdóttir, f. 29.3. 1947; Magnús, f. 13.4. 1956, eiginkona Þórunn Þuríður Sigmundsdóttir, f.  19.1. 1960.

Eiginmaður Bjarndísar var Kjartan Þór Ingvarsson frá Dölum í Hjaltastaðaþinghá, f. 5.5. 1931, d. 10.5. 2012. Foreldrar hans voru Helga Magnúsdóttir, f. 8.9. 1906, d. 12.2. 1993, og Ingvar Guðjónsson, f. 8.4. 1902, d. 19.12. 1998. Börn Bjarndísar og Kjartans: 1) Þorgerður 7.4. 1955, d. 23.8. 1955. 2) Helga, f. 31.8. 1956, eiginmaður Ármann Snjólfsson, börn Ásdís Hrund, Daníel Kjartan og Davíð Fjölnir. 3) Yngvi Þór, f. 5.12. 1958, barnsmóðir Stefanía Gunnarsdóttir, barn Jóna. Fyrrv. eiginkona Svanhvít Þórhallsdóttir: börn Berglind, Dýrleif, d. 19.8. 2004, og Kjartan Þór. 4) Héðinn, f. 10.10. 1960, fyrrv. sambýliskona Hjördís Sigurðardóttir, barn Kristján Þór. Eiginkona Margrét Þráinsdóttir, börn Þórkatla, Þráinn, Þorgerður, Baldvina og Björk. 5) Kolbeinn, f. 25.3. 1964, d. 13.1. 1966. 6) Kolbrún Gerður, f. 20.2. 1968, barnsfaðir Friðþjófur Ísfeld, börn Bjarndís Líf, Sigurður Anton, Bjartur Elí og Lúkas Ísfeld. Eiginmaður Hallur Hallsson. 7) Ingveldur Margrét,  f. 17.10. 1969, eiginmaður Kolbeinn Reginsson, börn Reginn Tumi, Huginn Goði og Sólkatla Rögn. Barnabörn eru 20 og barnabarnabörn 18. Afkomendur 45.

Bjarndís fæddist á Seyðisfirði og ólst upp í Fjarðarselsvirkjun frá sjö ára aldri þar sem faðir hennar var vélstjóri. Hún giftist ung Kjartani Ingvarssyni stálsmið, vélstjóra og verktaka. Þau bjuggu sjö fyrstu ár búskaparins á Seyðisfirði en síðan á Egilsstöðum uns þau fluttu 1999 suður í Kópavog.

Útför Bjarndísar fór fram í kyrrþey frá Kópavogskirkju 12. desember 2019.

Elskuleg móðir mín Bjarndís Helgadóttir eða Dídí eins og hún var alltaf kölluð lést á Vífilsstöðum þriðjudaginn 3. desember. Hún hefði orðið 85 ára í dag 14. Desember. Móðir mín var búin að eiga við mikil veikindi á þessu ári og hrakaði heilsu hennar hratt frá því í maí. Eins og líðan mín hefur verið þessa síðustu daga á ég erfitt með að sjá lífið án mömmu. En enginn lifir að eilífu og því verð ég að læra að lifa með það stóra tómarúm sem öskrar innra með mér. Ég á mér dýrmætar minningar til að ylja mér um ókomin ár. Minningar um fallega konu með fallega framkomu og fallegt hjarta. Konu sem gat nánast allt og kenndi mér svo ótalmargt. Konu sem aldrei gafst upp sama hvað gekk á.

Mamma var fædd á Seyðisfirði og ólst upp í Fjarðarseli þar sem afi starfaði við Fjarðarselsvirkjun. Það hvíldi mikil dulúð yfir Seyðisfirði í huga mér sem barn og unglingur, fallegasti staður á landinu. Það var staðurinn þar sem hlutirnir gerðust, spennandi hlutir og spennandi fólk, annað en á Egilsstöðum þar sem ég ólst upp og allir voru bara venjulegir. Ég áttaði mig ekki á því fyrr en ég var orðin fullorðin að það var mamma sem gerði Seyðisfjörð svona spennandi og þetta var bara tiltölulega venjulegur bær eins og allir aðrir bæir á Íslandi.

En mamma kunni að sega okkur sögur. Sögur frá því þegar hún var barn og unglingur. Sögur úr Fjarðarseli, sögur af lífinu þegar Ísland var hernumið og samskipti hennar sem barn við hermenn. Dans og söng á síldarplani og líf og gleði í netagerðinni. Sögur úr Nilsenshúsi, sögur af ömmu og afa og þegar þau voru ung. Þorgerði langömmu sem var greinilega hetjan hennar mömmu.
Þær systur gleði og sorg fylgdu mömmu fast í gegnum lífið.
Á hvítasunnudag 1955 18 ára eignaðist hún sitt fyrsta barn. Það var stúlka sem fékk nafnið Þorgerður eftir langömmu sinni. Hún fékk ekki að fæða á sjúkrahúsinu á Egilsstöðum því þar var enginn læknir og þurfti því að fæða á heimili sínu. Stúlkan kom sitjandi í heiminn, fæðingin gekk hræðilega og tók langan tíma og ekkert sem gat hjálpað henni líkt og er í dag fyrir konur sem lenda í svipuðum aðstæðum.
Þorgerður litla átti við veikindi að stríða og lést aðeins fimm mánaða gömul. Árið 1964 eignaðist mamma Kolbein og bjuggu foreldrar mínir þá í Hjarðahlíð 7 á Egilsstöðum með börnum sínum þremur Helgu, Yngva Þór og Héðni. Þau tvö ár sem Kolbeinn litli fékk voru lituð af miklum veikindum, hann lá heilt sumar á Landspítalanum og fékk mamma ekki að vera hjá honum. Í þá daga tíðkaðist ekki að foreldrar væru inni með börnum sínum. Það var því mikil sorg og harmur í hjarta mömmu þegar hún þurfti að skilja litla drenginn sinn eftir í höndum fólks sem hún þekkti ekkert. Þar sem hún gekk frá þessum hræðilegu aðstæðum ákvað hún að fara til baka og lauma sér inn til hans. Það gerði hún og var rekin út þegar sást að hún var komin með drenginn í fangið. Kolbeinn lést svo á heimili þeirra og fór jarðarförin fram heima í stofu.
Minningin um börnin tvö sem ég sá aldrei lifði með okkur öllum og og gerir enn.
Það var engin lognmolla í kringum heimilishald mömmu. Hún lagði allan sinn metnað í að halda fallegt heimili handa okkur. Allt var unnið frá grunni varðandi mat og tekið hraustlega til við verkin sama hvort það var að salta kjöt í tunnu, svíða lambahausa, sulta eða steikja. Nákvæmni mömmu í bakstri var mikil og var passað vel upp á að smákökur og kleinur væru allar af jafnri stærð. Nóttin var svo oft notuð til að sauma og gera við fatnað.
Gestagangur var mikil á heimili okkar utan úr sveitum eða frá Seyðisfirði. Heimilið stóð alltaf opið og var vel veitt í mat og drykk. Oft á tíðum voru menn í fæði og húsnæði hjá okkur sem voru að vinna hjá pabba. Mamma hafði mikin áhuga á því að innrétta og breyta. Árið 1970 þegar ég og Día erum komnar til sögunar kaupa mamma og pabbi Birkihlið sem stóð í Laufás 3 á Egilsstöðum. Húsið var tekið verulega í gegn og þá var það hún sem sagði til um það hvernig hlutirnir áttu að vera og það var ekki bara húsið sem tekið var í gegn því með því fylgdi stór garður og þar fékk hún heldur bestu útrás fyrir sköpunargleði sína.
Ættfræðiáhugi mömmu var mjög mikill hún gat rakið ættir fólks langt aftur í tímann. Hvort það var norður í land, vestur á firði eða suður með sjó. Um firði Austurlands eða inn með sveitum Héraðs. Samtöl við fólk gátu því tekið drjúgan tíma ef hún var í stuði.
Eftir að ég fór að heiman og eignaðist mín börn var samband okkar alltaf mjög sterkt. Mamma og pabbi komu mikið til mín og ófá eru jólin sem við höfum verið saman á heimili mínu.
Börnin mín elskuðu ömmu sína og var hún þeim til mikillar skemmtunar, sérstaklega þegar hún var að siða þau til því amman vildi hafa hlutina í röð og reglu. Þau eins og ég eiga henni mikið að þakka.


Kolbrún Kjartansdóttir.