Eyþór Ólafsson fæddist 20. janúar 1936 á Skeiðflöt í Mýrdal. Hann lést á hjúkrunar- og dvalarheimilinu Hjallatúni í Vík 3. desember 2019. Eyþór var yngri sonur hjónanna Sigurbjartar Sigríðar Jónsdóttur, f. 3. janúar 1894 í Reynisholti í Mýrdal, d. 18. júní 1979 á Skeiðflöt, og Ólafs Grímssonar, f. 24. febrúar 1897 á Skeiðflöt, d. 13. nóvember 1943 á Skeiðflöt í Mýrdal. Eldri bróðir Eyþórs var Tryggvi, fæddur 7. desember 1924, látinn í mars 2013.
Eyþór var giftur Huldu Halldórsdóttur, f. 1941. Þau slitu samvistir. Börn þeirra eru: 1) Sigurður Ólafur, f. 1968, sambýliskona Svafa K. Pétursdóttir, f. 1971. 2) Halldór Ingi, f. 1971, börn hans eru Daníel Snær og Mikael Freyr. 3) Reynir Örn, f. 1981. Fyrir átti Hulda með Guðmundi Bjarnasyni, f. 1938, Sigurlaugu, f. 1967. Börn Sigurlaugar eru Jónas Tryggvi, Eyþór Birgir, Óli Gunnar og Arna Björg. Eftirlifandi eiginkona Eyþórs er Sæunn Sigurlaugsdóttir, f. 1945. Börn hennar af fyrra hjónabandi eru: 1) Sigurlaug, f. 1966, börn hennar eru Helgi Þór, Daði Már, Sæunn Heiða og Hulda Heiðdal. 2) Guðmundur, f. 1968, börn hans eru Ásta María, Daníel Hrafn og Pétur Örn. 3) Jón Þór, f. 1976, barn hans er Aníta Sólveig.

Eyþór verður jarðsunginn frá Skeiðflatarkirkju í dag, 14. desember 2019, klukkan 14.

Aðalfundur Búnaðarfélagsins, ræður, fundahöld, kaffi. Við kaffiborðið stendur brosandi maður sem deilir rjúkandi kaffibollum sem hann velur af kostgæfni svo allir fá þá tilfinningu að þeirra bolli sé sérstakur. Seinni hluti fundarins var ívið léttari enda kaffið rammáfengt í meira lagi. Harla er nú óvíst að svona gjörningar yrðu vinsælir á okkar tímum en þarna þótti þetta prakkarastrik af dýrari gerðinni og prakkarinn að sjálfsögðu pabbi. Að þessi minning sé ofarlega í huga er kannski ágætis dæmi um þennan brosandi grallara sem gerði í því að skemmta sjálfum sér og öðrum. Eftirhermurnar af vel völdum sveitungum, góðlátlegt grínið að mönnum og málefnum, allar sögurnar, hláturinn og gáskinn. Þetta segir kannski allt um að það var ekkert leiðinlegt að alast upp á Skeiðflöt og minningarnar alltof margar til að rata allar á blað.

Þeir bræður Tryggvi og pabbi gerðu oft at hvor í öðrum þegar þeir þóttust ekki heyra, eða misskildu viljandi hvað hinn sagði. Eftirminnileg eru orð Tryggva þegar Eyþór kom akandi úr kaupstaðnum á spánnýrri Ursus-dráttarvél. Fyrsta verk Tryggva var að opna húddið og skoða þar undir, og sagði svo: Það verður nú þægilegt að rífa þennan! Hva!? Ætlarðu að rífa hann strax? svaraði þá Eyþór í vandlætingartón. En þetta var þó stór partur af bústörfunum, viðhald og viðgerðir, og má segja að góð umhirða hafi verið einkennandi fyrir þeirra búskap þótt varahlutir og smíðaefni sem átti kannski að nota hafi verið í óhóflegu magni í flestum hornum.

Yfirleitt voru einhverjar dráttarvélar, eða heyvinnuvélar, í uppgerð yfir veturinn sem að lokinni klössun voru svo málaðar í litum sem voru valdir af kostgæfni. Pabbi sá um allt sem þurfti að sjóða í, en saman rifu þeir í sundur mótora og yfirleitt hvaðeina sem þurfti að gera við. Margt var smíðað, meðal annars heyvagnar, kerrur og fleira. En þeir voru vel sjálfbjarga í flestum hlutum. Eyþór fékk upp í hendurnar dekkjavél og setti upp aðstöðu í vélaskemmunni til dekkjaviðgerða. Þangað leituðu oft sveitungar og nágrannar með hin ólíklegustu verkefni, hvort sem um var að ræða fólksbíladekk eða dekk undan stærri tækjum.

Einkenni á farsælu samstarfi bræðranna Tryggva og Eyþórs var að þeir ræddu oft í þaula um það verk eða þá framkvæmd sem fram undan var. Þeir þurftu oft að vega og meta hlutina frá ólíkum sjónarhornum og voru hreint ekki alltaf sammála. Niðurstaðan var þó oftast samþykki beggja áður en lagt var af stað í verkið. Oft mátti heyra þessi orðaskipti, sem voru þó yfirleitt á rólegum og vinalegum nótum. Ef ekki hafði tekist að klára umræðuna í kaffi- eða matartíma héldu samræðurnar áfram frammi í forstofu. Var Tryggvi hálfnaður út, kominn í útifötin, hallaði sér upp að innri hurðinni og sagði: Ja, nú veit ég ekki, og Eyþór halllaði sér á móti og sagði: Veist'ekki? En svo var bara hafist handa og allt saman gekk þetta síðan upp.

Pabbi var listakokkur að upplagi og hefði vel getað endað sem slíkur ef bústörfin hefðu ekki orðið fyrir valinu. Uppáhaldsiðjan í eldhúsinu var þó að baka pönnukökur og var jafnvel bakað á tveimur pönnum ef þurfa þótti, og pönnukökunni jafnvel snúið í loftinu af mikilli leikni. Oft var eldaður rabarbaragrautur eða brauðsúpa í miklu magni, og vorum við börnin þá oft send hjólandi á næstu bæi til að færa sveitungum smá glaðning og komum þá yfirleitt alsæl til baka með eitthvað smálegt sem hafði verið gaukað að okkur til baka. Vissulega kom þetta til af því að afi dó ungur og amma missti sjónina svo pabbi þurfti að ganga í heimilisstörfin en hann hélt því svo áfram eftir að mamma flutti að Skeiðflöt og það má segja að jafnréttismálin hafi verið aðeins á undan sinni samtíð á bænum og við börnin lærðum bæði á traktora og eldavélar.

Ekki vafðist það heldur fyrir ef einhverja gleðidrykki vantaði til að auðga andann en þá voru slíkar veigar framleiddar á staðnum líkt og venja var á árum áður. Var þá oft glatt á hjalla á Skeiðflöt þegar sveitungar mættu til að sinna gæðaeftirliti á þessari annars ágætu framleiðslu sem að sjálfsögðu enginn vissi um, enda frekar ólíklegt að sjálfur hreppstjórinn kæmi eitthvað nálægt slíkri iðju. Oft var harmonikkan dregin fram við þessi tækifæri, og var pabbi vel liðtækur í harmonikkuleik eins og svo mörgu öðru sem hann tók sér fyrir hendur.

Kannski ratar það í minningargreinar um okkur afkomendurna hvort blessuð brugglistin hafi færst á milli kynslóða.

En já, sýslumaður bankaði upp á einn daginn og skipaði pabba hreppstjóra, nokkuð sem pabba hugnaðist ekkert sérlega vel og hann harðneitaði meðal annars að nota virðulegt höfuðfat sem fylgdi embættinu, samt sat hann í 19 ár og það voru margar stundirnar sem sveitungar sátu hjá honum á skrifstofunni og dagarnir sem fóru í skattskýrslur og bókhald fyrir aðra voru oft ansi langir. En þótt barnaskólinn og Skógaskóli hafi verið eina menntunin var pabbi laginn við tölur og eins og hann sagði sjálfur þá langaði hann ekkert að verða bóndi. Hann fékk áhuga á esperanto og fór í bréfanám í því eftir hugmynd frá góðum frænda sem lagði drög að stjörnunni í Hlíðarhausnum fyrir ofan bæinn og skriftir og fræðistörf hugnuðust honum mun betur.

Þannig að hugmyndin af Fréttabúa, héraðsblaðinu, var frekar létt velt úr hlaði og 21. nóvember 1985 kom fyrsta blaðið út, útgáfa sem átti eftir að ganga til fjölda ára með mikilli vinnu en líka talsverðri gleði og þarna var pabbi í essinu sínu í góðu samstarfi með seinni konu sinni Sæunni. Seinna bættist svo fréttabréfið Vitinn við með auglýsingar og tilkynningar.

Alls kyns aukabúgreinar voru á Skeiðflöt; sala á eggjum sem við krakkarnir fengum oft að hlaupa með, stórtæk rabarbararæktun og svo rófuræktin í tonnavís. Í þessu öllu fengum við að vasast fyrir vasapening og pabbi hló oft yfir hvað þetta hefði verið einfaldara í sínu ungdæmi þegar hann fyllti vörubílinn af rófum, ók til Reykjavíkur og tilkynnti búðareigandanum einfaldlega hvað hann vildi fá fyrir þær.

Sjósóknin á flekanum alræmda og svo plastbátnum og fýlaveiðin voru svo fastir liðir enda pabbi af þeirri kynslóð sem þurfti að kunna að draga björg í bú. Ekki skemmdi svo að hann var með ævintýragirnina frá Ólafi afa og oft fékk maður að heyra þegar þeir tóku dráttarbandið úr hlöðunni og bjuggu til rólu í Búrfellinu.

Seinni árin fengum við svo að heyra að hann hlakkaði til að setjast í helgan stein og sinna fræðistörfum og ferðalögum, sem ekki rættist vegna heilsubrests.

En ferðalög með myndavél og nesti voru fastur liður af uppvextinum þótt tíminn til þess hafi oft verið knappur vegna bú- eða félagsstarfa.

Pabbi var tvígiftur og svo sannarlega vel giftur, báðar konurnar í hans lífi, Hulda og Sæunn, studdu hann og okkur með ráðum og dáð og ekki hægt að tala um hans farsæld gegnum lífið án þess að nefna þær.

Eftir stendur að örfá orð duga engan veginn til að lýsa pabba og vissulega erfitt að stikla á stóru en ást, virðing og þakklæti eru þar svo sannarlega í ómældu magni.

Sigurlaug Guðmundsdóttir, Sigurður Ó. Eyþórsson. Halldór Ingi Eyþórsson Reynir Örn Eyþórsson