Einar Valur Guðmundsson fæddist á Ísafirði 24. ágúst 1958. Hann varð bráðkvaddur á heimili sínu á Ísafirði hinn 10. september 2019.
Foreldrar hans voru Guðbjörg Bergþóra Árnadóttir, ætíð kölluð Didda, húsfreyja á Ísafirði, f. 17. apríl 1928, d. 3. nóvember 2018, og Guðmundur Jósep Sigurðsson járnsmíðameistari, f. 21. maí 1924 í Hnífsdal, d. 7. ágúst 1992. Systkini Einars eru Guðmundur Sigurður, f. 1949, Pétur, f. 1950, Árni, f. 1954, d. 2007, Jónína Sesselja, f. 1955, Ólafur Már, f. 1957, og Bergþóra f. 1961, d. 2014.
Einar giftist hinn 9. júlí 1993 Guðríði Áskelsdóttur, f. 25. júní 1960, þau skildu. Börn þeirra eru: 1) Valdís María, f. 16. febrúar 1986, sambýlismaður hennar er Ívar Pétursson, f. 1986. Börn þeirra eru: Viktor Ingi, f. 2015, og Adam Orri, f. 2018. 2) Arnar Ingi, f. 11. júní 1990, sambýliskona hans er Monika Natalia Skawinska, f. 1989. 3) Hildur Ása, f. 6. júní 1994.
Eftirlifandi sambýliskona Einars Vals er Linda Kristín Ernudóttir, f. 26. september 1961. Börn Lindu eru: 1) Sölvi Már Margeirsson, f. 9. janúar 1980, maki hans er María Sveinbjörnsdóttir, þau eiga tvö börn. 2) Steinunn Erna Margeirsdóttir, f. 18. október 1983. 3) Gyða Dröfn Grétarsdóttir, f. 2. janúar 1988, hún á eitt barn. 4) Ísfold Rán Grétarsdóttir, f. 24. mars 1994, maki hennar er Valur Örn Vífilsson og eiga þau eitt barn.
Einar Valur ólst upp á Ísafirði. Hann bjó flest ár ævi sinnar á Ísafirði en einnig í Reykjavík, Búlgaríu og Akranesi áður en hann fluttist aftur heim til Ísafjarðar. Hann stundaði sjómennsku nær alla tíð eða störf tengd henni.
Útför Einars Vals fór fram frá Ísafjarðarkirkju 21. september 2019.

Pabbi minn, ég veit ekki hvað ég myndi segja við þig ef ég væri að fara að hitta þig. Samband okkar var upp og niður. Samband okkar var skrítið, samband okkar var í langan tíma ekkert og oft eins og það stæði í stað, tíminn hjá þér stóð oft í stað og þannig týnist tíminn. Við áttum mjög gott samband þegar ég var barn, jafn gott samband og börn sjómanna sem fara í langa túra geta átt. Þú fórst á túra bæði á sjó og á landi en alltaf varstu góður við okkur. Sem barn þá áttar maður sig ekkert á því hvað er að gerast, þú varst bara í heimsókn hjá Árna frænda og félögum í Grimmakoti eða í Hernum og við Arnar Ingi bróðir kíktum á ykkur. Við fengum pening og fórum út í sjoppu og keyptum ógeðslega mikið af nammi. Við vorum þvílíkt sátt og þegar við Heiða vinkona rifjum þetta upp þá gerum við það með bros á vör við skemmtilega minningu en ekki þá staðreynd að þarna var skrautlegur vinahópur mögulega enn að síðan kvöldið áður og nennti ekkert að hafa okkur hangandi yfir sér. Þegar þið mamma skilduð var það ekkert mál því ég hugsaði að það væri best, þú bjóst enn á Ísafirði og við kynntumst Lindu. Ég var orðinn fullorðinn unglingur og kom og fór í heimsókn til þín eins og mér sýndist, fór í tölvuna og bjó til skrifaða geisladiska. Þú gerðir líka nokkra diska fyrir mig, t.d. Cat Stevens, og ég kynntist fullt af tónlist í gegnum þig og mun alltaf minnast þín þegar ég hlusta á Rolling Stones. Arnar, krakkinn sem var alltaf úti um allt fór líka í heimsóknir eftir skilnaðinn en þó minna. Hildur Ása systir sem var yngri gat ekki komið sjálf og kom því sjaldnar í heimsókn því ekki voru skipulagðar heimsóknir. Þetta markar líka svolítið samband þitt við okkur systkinin á síðustu árum. Eftir að þú fluttir frá Ísafirði slitnaði sambandið algjörlega.

Við náðum aftur sambandi þegar frumburður minn kom í heiminn árið 2015 og ég varð nú að láta þig vita að þú værir orðinn afi. Þú varst alltaf mjög hnyttinn í svörum og ég fékk einmitt sent til baka að nú hefði Manchester United, sem var þitt lið, fengið nýjan stuðningsmann og að Viktor Ingi væri orðinn veggfóður á símanum þínum. Þú varst afar stoltur af okkur börnunum þínum og barnabörnum og fylgdist með úr fjarlægð. Eins og þegar það voru breytingar i vinnunni minni og uppsagnir þá sendir þú á mig hvort allt væri i góðu hjá mér. Við sendum hvort öðru afmæliskveðjur sem mér þótti afar vænt um því oft fylgdu með minningar eða kær orð líkt og eitt endaði á: Bara að vita að þú ert til gefur manni eilíft líf, kær kveðja, pabbi.

Nú er liðinn nokkur tími síðan útför þín var. Í jarðarförinni og eftir hana hef ég verið í sambandi við æskuvini þína og vini og það skín í gegn að þú varst góður vinur. Vinir þínir höfðu einmitt orð á því að það hefði ekki staðið á svari ef það vantaði hjálp eða greiða, þá varst þú mættur. Ég vildi óska þess að samband þitt við okkur systkinin hefði verið betra, þú hefðir komist yfir skömmina því eins og raun var þá fór tíminn frá okkur. Þannig týnist tíminn þó að hann birtist við og við. Þetta var einmitt fyrsta lagið í útför þinni, lag sem þú valdir til okkar, barnanna þinna. Ekki það að þú hafir vitað að tíma þínum hér væri að ljúka heldur skikkaði Linda þig til að skrifa niður hvaða lög þú myndir vilja hafa og setja í lokað umslag, hún gerði slíkt hið sama og þetta var einungis mánuði fyrir andlát þitt. Það er stundum haft orð á því að það sé aldrei of seint en það getur samt oft verið of seint en ég hef lært að lifa með æðruleysi að vopni og vera sátt við það sem ég fæ ekki breytt. Þetta erfiða ár hefur heldur betur undirstrikað það því það er mikið af góðu fólki í kringum mig sem kvaddi á þessu ári og ég hugsa oft til orða góðs vinar sem kvaddi í vor, 100% áfram!

Líkt og sumarást sem aldrei náði að blómstra,
líkt og tregatár sem geymir falleg bros,
þarna er gömul mynd sem sýnir glaðar stundir,
þar er ég, þar ert þú, þar er allt það sem ástin okkur gaf.

Þannig týnist tíminn, þannig týnist tíminn,
þannig týnist tíminn þó hann birtist við og við.

Líkt og mynd sem bjó í vonarlandi þínu,
eins og æskuþrá sem lifnar við og við,
býr þar sektarkennd sem að ennþá nær að særa,
þar er ég, þar ert þú, þar er allt það sem ástin okkur gaf.
Þín dóttir,

Valdís María.

Ég kvaddi vin minn og skólabróður Einar Val Guðmundsson í síðasta sinn 21. september síðastliðinn, þegar hann var jarðsettur frá Ísafjarðarkirkju
Einar Valur, ég og Jón Steinar frændi minn áttum ógleymanlegar stundir saman á æskuárum okkar á Ísafirði.
Við strákarnir áttum það allir sameiginlegt að vera uppátækjasamir ungir menn og má leiða líkur að því að það hafi verið ástæðan hvað við urðum góðir vinir. Þegar umbrotatími æskunnar var allsráðandi í huga okkar voru prakkarastrik, sundlaugasullið, fjaran, gömlu vöruhúsin og veiðarfærageymslur okkar líf. Öllu sem var mögulega hægt að koma í verð, netakúlur, blýteinar og gosflöskur, var safnað saman, hvar og hvernig sem í slíkt náðist, til að afla okkur fjármuna til að eyða í sælgæti og annan munað.
Ég gæti sagt hér bæði langar og stuttar sögur af okkur strákunum sem aldrei gátu verið rólegir eða gert eitthvað sem hugnaðist þeim fullorðnu. Það væri lítið mál í góðu stuði að fylla margar síður af sögum af bernsku okkar Ísafjarðar púka. Þegar ég hugsa til Einar Vals sé ég fyrir mér litla strákinn sem var vinur minn í æsku. Nú þegar hann er horfinn á braut og svífur meðal stjarnanna er eins og hluti af æskunni hafi verið tekinn burtu frá mér sem ég á erfitt með að útskýra.
Ég minnist stundanna þegar við sátum saman á róló með sítt að aftan á bjartri sumarnóttu við sjúkrahústúnið heima. Íshúsfélagið, kirkjugarðurinn, spegilsléttur pollurinn og flestir Ísfirðingar í fasta svefni. Spjallað um lífið og tilveruna og vonir um betri tíma, gull og græna skóga.
Ég minnist litlu strákanna; einmana sálir, vinir sem vissu ekkert hvert lífið var að leiða þá. Allir með hæfileika sem þeir kunnu lítið að fara með. Góðir strákar, misskildir en uppátækjasamir prakkarar. Flestir bæjarbúar töldu þessa stráka ekki til mikilla afreka ef til framtíðar var litið. Við vorum hluti af villingunum í bænum.
Við Einar vorum ráðnir á millilandaskip sem messaguttar 15 ára gamlir.
Við vorum saman, tveir litlir strákar, börn á fjarlægum slóðum, að vinna og gera það sem hæfði betur eldri strákum eða mönnum. Það þótti ekki mikið mál á þessum tíma að ráða börn til starfa til lengri eða skemmri tíma, fjarri fjölskyldu og vinum. Við studdum hvor annan vinirnir í daglegu amstri og ævintýrum sem við komum okkur í. Ævintýrin voru mörg og endurspegluðu lífsfjörið í okkur strákunum og mátti oft litlu muna að við færum okkur að voða með uppátækjum sem allir venjulegir strákar hefðu látið ógerð.
Seinni parts dags í landlegu og uppskipun á frosnum fiskafurðum í Lettlandi einu af Eystrasaltsríkjunum sem tilheyrðu þá Sovétríkjunum vorum við Einar saman á leið til skips. Við tókum á okkur krók til að skoða betur umhverfið, röltum í gegnum gras, fen og stór tré til að sjá eitthvað merkilegt í þessu framandi landi.

Eftir drjúga stund á labbi, blautir og skítugir, sáum við blasa við okkur mikið af hergögnum, skriðdrekum, fallbyssum og alls konar stríðstólum innan hárrar gaddavírsgirðingar. Þetta var of gott til að sleppa nánari skoðun. Skriðum við óhikað undir girðinguna og laumuðumst á milli stríðstólanna, ofur spenntir og áhugasamir. Spennan náði hámarki þegar við heyrðum hróp og köll á rússnesku. Hermenn gráir fyrir járnum að hlaupa í átt til okkar. Þá reyndist gott að vera fótfrár, liðugur og hræddur. Skelfingu lostnir náðum við að komast undir girðinguna áður en við vorum gómaðir með æpandi hermenn á eftir okkur. Við hlupum eins hratt og fætur leyfðu og komumst óskaddaðir til skips. Við máttum þakka almættinu fyrir að vera ekki skotnir af vopnuðum Rússum austan járntjaldsins 1974.

Þrátt fyrir að samband okkar Einars og samvera seinni hluta ævinnar hafi breyst og ekki margar samverustundir verið undanfarin ár hverfa ekki minningar um góðan dreng sem hafði hæfileika og dugnað til að koma sér vel áfram á lífsins braut.
Lífið fór ekki alltaf mjúkum höndum um Einar Val og hefur hann oftar en ekki þurft að taka á honum stóra sínum bæði til sjós og lands. Með þessum fáu orðum langar mig til að kveðja gamlan vin minn sem mun fylgja mér í minningunni um ókomna tíð.
Konu hans, börnum og aðstandendum votta ég mína dýpstu samúð.


Bárður Jón Grímsson.