Benedikt Geir Eggertsson fæddist á fæðingardeild Landspítalans 15. mars 1950. Hann lést á gjörgæsludeild sama spítala 14. desember 2019. Hann var sonur Eggerts Benedikts Sigurmundssonar, f. 1920, d. 2004, skipstjóra, og Unnar Benediktsdóttur, f. 1923, d. 2018, húsfreyju. Bræður Benedikts eru: 1) Benedikt Geir, f. 1945, lést af slysförum 1950. 2) Sigurður Kolbeinn, f. 1949, búsettur í Danmörku. 3) Unnsteinn Borgar, f. 1951, búsettur í Noregi. 4) Ásgeir, f. 1955, búsettur á Selfossi. 5) Ari, f. 1959, búsettur í Reykjavík.
Benedikt átti þrjú börn með fyrrverandi eiginkonu sinni, Önnu Maríu Jónsdóttur, f. 1949, hjúkrunarfræðingi: 1) Benedikt Sveinbjörn, f. 1974, lögfræðingur í Reykjavík. Kona hans er Guðrún Einarsdóttir og eiga þau tvö börn, Úlfar Rafn og Maríu Rún. 2) Jón Arnar, f. 1980, húsasmiður í Reykjavík. Sambýliskona hans er Þórdís Viborg og eiga þau tvö börn, Freydísi Glóð og Hrafnkel Goða. 3) Unnur, f. 1992, sálfræðinemi í Reykjavík. Sambýlismaður Unnar er Páll Heiðar Jónsson og eiga þau ónefndan son.
Á Hellissandi keyptu foreldrar hans hús sem nefndist Garður en þar eyddi Benedikt helstu mótunarárum sínum. Benedikt bar sama nafn og eldri bróðir hans sem lést í bílslysi í Kópavogi aðeins fimm ára gamall. Sem barn var Benedikt sendur í sveit að Hvítárholti í Biskupstungum, Orrahóli á Fellsströnd og Minni-Bakka í Skálavík og þar kviknaði áhugi hans á búskap. Benedikt sótti barnaskóla og síðar gagnfræðaskóla í Kópavogi en sótti sjó frá Bolungarvík í sumarleyfum. Benedikt tók sveinspróf í húsasmíði vorið 1970. Árið 1969 flutti fjölskylda Benedikts í Auðsholtshjáleigu í Ölfusi. Veturinn 1973 sótti Benedikt þorrablót kvenfélagsins Bergþóru í Ölfusi og þar kynntist hann Önnu Maríu Jónsdóttur frá Lambhaga undir Ingólfsfjalli. Benedikt og Anna María trúlofuðust um verslunarmannahelgina sama ár og gengu í hjónaband jólin eftir. Benedikt fékk ábúð í Hafnardal í Nauteyrarhreppi á Langadalsströnd við norðanvert Ísafjarðardjúp árið 1976. Benedikt og Anna María bjuggu í Hafnardal um sjö ára skeið og Anna María gegndi hlutverki héraðshjúkrunarfræðings í Ísafjarðardjúpi.
Benedikt kom að töluverðri uppbyggingu í Ísafjarðardjúpi. Á árunum 1984 til 1991 var Benedikt framkvæmdastjóri Ís-lax hf. og jókst reksturinn verulega að umfangi á þeim tíma en hluti stöðvarinnar var um tíma rekinn í Reykjanesi í námunda við héraðsskólann. Árið 1991 tóku Benedikt og Anna María sig upp og fluttu þvert yfir landið og settust að á Egilsstöðum. Árið 1996 stofnaði Benedikt byggingafyrirtæki í félagi við Kjartan H. Briem Kristinsson frá Reyðarfirði og sinntu þeir ýmsum verkefnum á Austfjörðum. Benedikt var sjálfstæður byggingaverktaki í Reykjavík og á Suðurlandi næstu árin. Í nóvember 2007 lenti Benedikt í alvarlegu slysi. Benedikt og Anna María skildu árið 2016 en voru þó áfram traustir vinir. Síðustu ár ævi sinnar bjó Benedikt í Sjálfsbjargarheimilinu.
Útförin fer fram frá Kotstrandarkirkju í dag, 3. janúar 2020, klukkan 13.30.

Hann Benedikt bróðir minn var aðeins ellefu daga gamall þegar elsti bróðir okkar, á fimm ára afmælisdeginum sínum, varð fyrir bíl og dó. Þessi hörmungaratburður hefur fylgt okkur bræðrunum fimm sem yngri voru allar götur síðan og sorgin sem foreldrar okkar urðu fyrir markaði sín spor.
Já hún móðir okkar var óþreytandi við að innprenta okkur að vera góðir hver við annan, við vissum jú ekki hvenær röðin kæmi að þeim næsta. Nú er allt í einu komið að þessum degi og ég sestur niður við að skrifa nokkrar línur um þennan besta vin minn í lífinu, vin sem alla tíð hefur verið eins og partur af mér sjálfum.
Hann var skírður yfir kistu bróður síns og fékk þar nafn hans, Benedikt Geir, sem eins og eðlilegt var varð að gælunafninu Benni, sem að hans kröfu, fljótlega eftir að hann varð talandi, breyttist í Nenni og síðan höfum við bræður aldrei kallað hann annað en Nenna. Já það varð fljótt ljóst að það sem hann tók í sig var ekki fyrir nokkurn mann að ná þaðan aftur.
Við vorum þrír bræðurnir, sinn á hvoru árinu, ég elstur, síðan Nenni og loks Unnsteinn, sem við Nenni sáum um að fengi nafngiftina Brói, nokkuð sem hann svo situr uppi með enn þann dag í dag. Svo eigum við líka tvo yngri bræður, Ásgeir og Ara.
Þegar maður svo nú á þessum tímamótum fer að hugsa til baka er nær ómögulegt að slíta sig frá minningunum frá Hellissandi, þar sem við áttum heima í tíu ár. Á Sandi var og er vonandi enn, draumastaður fyrir fríska stráka að alast upp. Þar undum við okkur vel í samneyti við frændur og vini, við allt sem umhverfið bauð upp á. Þarna höfðum við hraunið, fjöruna og klettana þar sem allir strákar lærðu að veiða og að sjálfsögðu Krossavíkina þar sem á þessum tíma voru margir bátar sem ungir piltar gátu endalaust snúist í kringum. Nenni varð snemma nautsterkur og lét ekki sinn hlut fyrir neinum, en hann var friðsamur og fyrir bragðið lentum við afar sjaldan í illdeilum sem leiddu til átaka. Ég man samt eftir einu slíku tilviki, sem varð til vegna þess að ég hafði fengið hjól að gjöf frá vini að sunnan sem vaxinn var upp úr hjólinu. Ég passaði þetta hjól eins og sjáaldur augna minna og enginn mátti nærri því koma. Þegar ég svo einu sinni kem heim úr skólanum er Nenni kominn á hjólið og harðneitaði að láta það af hendi. Hann ætlaði sko að læra að hjóla og úr þessu varð feikna slagur sem endaði með því að móðir okkar skarst í leikinn. Hún brýndi fyrir okkur enn eina ferðina að standa nú heldur saman og passa hjólið í sameiningu. Við það rann okkur reiðin og að endingu kenndi ég Nenna á hjólið og mikið var ég stoltur þegar ég horfði á eftir honum hjóla eins og ekkert væri niður götuna. Líklega höfum við verið þarna átta og níu ára. Frá Sandi fluttum við í Kópavoginn þar sem unglingsárin voru framundan og í framhaldi af því iðnnám sem við fórum allir í. Nenni fór í húsasmíðina og var hamhleypa til verka og þénaði vel, það vel að hann var orðin bíleigandi nokkrum mánuðum áður en hann fékk bílprófið og þá varð ég að hlaupa í skarðið og gerast bílstjóri hjá honum. Hann átti síðan eftir að eignast marga bíla, þar á meðal jeppa sem hann átti í nokkur ár. Á jeppanum fórum við um allt land og þar með talið hálendið, þar sem við þræddum flesta slóða sem nokkur leið var að komast eftir. Við vorum á þessum árum illa haldnir af veiðidellunni, fórum um allt og á ólíklegustu staði til að freista þess að fá í soðið, fisk eða fugl.
Komnir að tvítugu förum við allir þrír að heiman þegar foreldrar okkar fluttu í Ölfusið. Við leigðum litla íbúð hjá Steingrími og Stínu á Sogaveginum á meðan við kláruðum námið.
Upp úr því lágu svo leiðirnar í allar áttir, menn fóru að festa ráð sitt og koma sér fyrir hver á sínum stað. Nenni fór til Hveragerðis og fann sér þar konu og byggði sér hús þar sem þau bjuggu þar til hann gerðist bóndi í Hafnardal í Ísafjarðardjúpinu. Við búskapinn voru þau svo í nokkur ár og í framhaldi af því var farið í laxeldið á Nauteyri, sem miklar vonir voru bundnar við á þessum tíma. Hann var einn af eigendunum og annaðist allar framkvæmdir og rekstur. Öllu sínu eyddi hann svo í þetta ævintýri sem endaði með ósköpum þegar grundvellinum var kippt undan laxeldisstöðvunum. Slipp og snauð fluttu hjónin frá Nauteyri til Egilsstaða þar sem hann annaðist húsbyggingar vítt og breitt um Austurland í tíu ár. Á Egilsstöðum byggði hann eitt húsið enn yfir fjölskylduna. Frá Egilsstöðum fluttu þau síðan í Hafnarfjörð og þaðan í Grafarvoginn, þar sem hann keypti fokhelt hús og fullgerði fyrir fjölskylduna. Hann starfaði svo sjálfstætt við húsbyggingarnar fram á haustið 2007 og þá, meistari að byggingum Ólafs Laufdal í Grímsnesinu, dettur úr stiga og lendir á höfðinu með þeim afleiðingum að blæddi inn á heilann. Eftirköstin urðu þau að þessi dugnaðarforkur var nánast dæmdur úr leik hvað snerti húsbyggingarnar. Hann var þó í nokkur ár eftir þetta að þráast við í ýmsum smærri verkum sem urðu honum sífellt erfiðari viðfangs og að endingu, fyrir 6 árum, lagði hann verkfærin á hylluna og um húsbyggingar ræddum við ekki meir.
Þrátt fyrir að ég hafi verið búsettur erlendis undanfarin tuttugu og fimm ár vorum við alltaf í góðu sambandi og síðustu tuttugu árin höfum við, í um mánaðar tíma á hverju sumri, farið vítt og breitt um landið í þeim tilgangi að heilsa upp á fólk og veiða í soðið. Við lærðum það jú í uppeldinu á Sandi að allir veiðitúrar væru farnir í þeim tilgangi að verða sér úti um soðningu.
Nenni hafði feikna gott minni og samfara því ágæta hæfileika til að segja skemmtilega frá. Því hafa þessir bíltúrar okkar undanfarin ár verið fyrir mig fínasta upprifjun á tilveru okkar undanfarin tæp sjötíu árin. Ár sem liðið hafa með ógnar hraða í bæði sætu og súru eins og á sér stað hjá flestum sjálfsagt.
Sú upprifjunin sem ég fengist við í þeim tilgangi að setja á blað minningu vinar míns hafa framkallað tilfinningu þakklætis fyrir að hafa átt hann fyrir bróður og besta vin í öll þessi ár.


Sigurður K. Eggertsson.

Pabbi var fámáll maður en þó af mörgum talinn orðheppinn og launfyndinn. Við systkinin munum helst eftir pabbabröndurunum hans og ekki er víst að við höfum kunnað að meta þá jafn vel og hans helstu vinir. Oft sagði hann okkur sögur og þá sérstaklega sögur af fyndnu og skrítnu fólki sem hann hafði kynnst í gegnum tíðina. Honum var einnig tíðrætt um fyrirbæri sem hann hafði einstakan áhuga á og þá helst Íslendingasögur og veiði.

Pabbi var mikill ættjarðarvinur en hann hafði mikinn áhuga öllum landshlutum og var einstaklega fróður. Hann þekkti nánast hvern einasta krók og kima og var nánast eins og uppflettirit. Á ferðalögum gat maður hringt í hann, lýst stuttlega nánasta umhverfi á ókunnum stað og fengið fræðslu um helstu staðhætti og jafnvel áhugaverða íbúa. Pabba fannst gaman að ferðast um landið okkar og því eigum við margar minningar af Íslandi séð úr bíl. Ferðalögin snerust þó alltaf að hluta til um stangveiði og hann kenndi okkur öllum hvernig átti að bera sig að. Fyrir pabba var engin dagur betri en góður veiðidagur. Það er vel hugsanlegt að hann hefði lagt sjómennsku fyrir sig, eins og afi, ef amma hefði ekki verið þeirri hugmynd fráhverf.

Við minnumst pabba sem mikils framkvæmdamanns. Hann fékk ýmsar framkvæmdahugmyndir og ólík mörgum öðrum hrinti hann þeim jafnan af stað og lauk verkinu. Niðurstaðan var ekki alltaf eins og hann hafði vonast eftir en ef illa fór stóð hann alltaf aftur á fætur óhræddur við að takast á við næsta verkefni. Pabbi var mjög duglegur og vandvirkur og það er okkar tilfinning að margir þeirra sem hann vann fyrir sæktust eftir starfskröftum hans að nýju. Hann reisti mörg hús og vann við ýmsar framkvæmdir, t.a.m. endurgerð sýslumannshússins á Seyðisfirði og endurbyggingu Þjóðminjasafnsins. Pabbi vann ætíð mikið og það var mikilvægur partur af hans sjálfsmynd; að vera duglegur og skila góðu verki.

Það var pabba mikið áfall þegar hann missti getuna til að sinna ævistarfinu, húsasmíði, eftir alvarleg slys árið 2007. Það er þó til marks um þrjósku hans og dugnað að hann lagði allt kapp á það næstu tvö árin að koma fótunum undir sig að nýju og ná fullri starfsgetu. Að lokum játaði hann sig sigraðan og settist í helgan stein. Við tóku ár þar sem pabbi átti í verulegum erfiðleikum með að ná áttum og sætta sig við orðinn hlut. Orðaði hann það svo að Helgi Steinn væri meðal leiðinlegustu manna sem hann hefði kynnst. Á meðan á því stóð gátu samskiptin við hann verið erfiðari en ella. Síðustu tvö æviár pabba voru hins vegar góð, hann sættist við orðinn hlut, sökkti sér í grúsk og las sér til um alla koppa á grundir og mannlíf frá Snæfellsnesi allt til Melrakkasléttu. Síðustu mánuði lífsins aðstoðaði pabbi Unni og Pál við að standsetja nýju íbúðina þeirra og það var engu líkara en að við það uppgötvaði hann að geta hans var meiri en hann hélt. Það virtist veita honum töluverða ánægju.

Pabbi barðist hetjulegri baráttu við veikindi síðustu þrjár vikurnar ævi sinnar. Baráttu sem margir hefðu eflaust gefist upp fyrir miklu fyrr. Hann hafði háð slíka baráttu einu sinni áður og haft sigur og þetta skiptið átti ekki að verða neitt öðruvísi. Því miður reyndist þrautseigjan ekki skila honum á fætur aftur í þetta skiptið og við misstum hann mikið fyrr en við hefðum viljað.

Við systkinin erum afar þakklát fyrir öll þessi ár með pabba sem einkenndust af samtölum um landsins gagn og nauðsynjar, veiði, fornmenn og samtímamenn. Pabbi var ákaflega blíður og góður maður þó margir hafi eflaust haft þá mynd af honum að hann væri sterkur, pragmatískur og þögull. Við fundum alltaf fyrir væntumþykju hans þó að um hana hefði hann ekki mörg orð. Nú er ástkær faðir okkar fallinn frá og við, börnin hans, höfum misst einn helsta stuðningsmann okkar. Minningin um hann mun þó ávallt lifa.

Benedikt S., Jón Arnar og Unnur Benediktsbörn.