Pétur Einarsson fæddist 4. nóvember 1947 í Reykjavík. Hann lést á heimili sínu, Selá við Eyjafjörð, 20. maí 2020.
Foreldrar Péturs voru hjónin Einar Pétursson húsasmíðameistari, f. 2. nóv. 1923, d. 5. okt. 2012, og Sigríður Karlsdóttir verslunarmaður, f. 24. nóv. 1928, d. 8. okt. 2001.
Systkini Péturs eru Sigríður Björg, f. 21. mars 1952, maki Skúli Jónsson, f. 26. mars 1950, Þórhalli, f. 12. ágúst 1961, maki Guðný Tómasdóttir, f. 8. janúar 1957.
Pétur var kvæntur Arndísi Björnsdóttur, f. 26. ágúst 1945. Þau skildu 1982. Börn þeirra eru: a) Signý Yrsa Pétursdóttir, f. 5. janúar 1969, maki Grétar Símonarson, börn þeirra eru Pétur Geir Grétarsson, f. 14. nóv. 1989, Símon Brynjar Grétarsson, f. 6. febrúar 1995, Birta Rún Grétarsdóttir, f. 20. febrúar 2000, Sigursteinn Hrafn Grétarsson, f. 14. júní 2014. b) Sigríður Hrund Pétursdóttir, f. 12. janúar 1974. Maki Baldur Ingvarsson. Börn þeirra eru: Kolbeinn Sturla Baldursson, f. 4. okt. 2004, Starkaður Snorri Baldursson, f. 4. okt. 2004, Styrmir Snær Baldursson, f. 2. júní 2010, Snæfríður Ísold Baldursdóttir, f. 26. okt. 2014. c) Einar Pétursson, f. 19. apríl 1974. Hans dóttir: Emelía Rós Einarsdóttir, f. 11. okt. 2004. d) Arndís Pétursdóttir, f. 2. janúar 1982. Maki Hálfdán Garðarsson, börn þeirra eru: Garðar Darri Hálfdánsson, f. 4. febrúar 2002, Arndís Magna Hálfdánsdóttir, f. 17. sept. 2008, Benedikt Orri Hálfdánsson, f. 22. mars 2014, Hrafnkell Þorri Hálfdánsson, f. 31. mars 2011.
Pétur var kvæntur Svanfríði Ingvadóttur, f. 4. des. 1955. Börn hennar og stjúpbörn Péturs eru: Stefanía Tinna Eriksson-Warren, f. 16. sept. 1985. Sambýlismaður Matthew Bellay, börn þeirra: Baltasar Ezra Bellay og Audrey Evía Bellay. Sindri Steinarsson, f. 26. sept. 1990, sambýliskona hans er Viktoria Anhold.
Með Önnu Stefaníu Wolfram á Pétur Þórunni Pétursdóttur, f. 29. okt. 1967. Hennar börn eru: Anna Hildur Björnsdóttir, f. 1. júní 1985. Hennar börn eru: Þórunn Gabríela Rodrigues, f. 19. mars 2006, Sara Katrín Gunnarsdóttir, f. 26. maí 2016, Atli Már Björnsson, f. 7. feb. 1988. Hans sonur er Steenbjörn Storm, Ólöf Rún Sigurðardóttir, f. 15. sept. 1994, Jóhannes Torfi Torfason, f. 1. apríl 2004.
Pétur á með Ragnhildi Hjaltadóttur, f. 28. ágúst 1953, þær Sigríði Theodóru Pétursdóttur, f. 8. ágúst 1985, og Jóhönnu Vigdísi Pétursdóttur, f. 29. janúar 1996.
Pétur var með réttindi héraðsdómslögmanns, atvinnuflugmanns, húsasmíðameistara og með minni skipstjórnarréttindi. Hann starfaði sem sjálfstæður lögmaður og fasteignasali og var stofnandi einnar elstu fasteignasölu Íslands, Eignaborgar í Kópavogi. Hann var einnig einn af stofnendum flugskólans Flugtaks. Árið 1978 hóf hann störf hjá Flugmálastjórn Íslands og starfaði þar sem varaflugmálastjóri og flugmálastjóri frá 1983 til 1992. Þá starfaði hann sem alþjóðlegur ráðgjafi í Austur-Afríku 1989 til 1994 að ýmsum verkefnum en aðallega að flugmálum. Á þessum árum var hann reglulega með útvarpsþætti, skrifaði reglulega í dagblað og hélt námskeið í fundarstjórn og fundartækni.
Pétur endurbyggði Hótel Tindastól á Sauðárkróki og Selá við Eyjafjörð þar sem hann rak sjálfseignarstofnunina Rannsóknarstofnun Hugans ásamt konu sinni Svanfríði. Pétur skrifaði m.a. Nýju loftferðalögin 1994, Ræktun skapgerðar, Lífsorkan, Indverska ævintýrið, Drangeyjarjarlinn segir frá, Guðmundur Stóri Slökkvir segir frá, Caprice Syndrome, Development of Character, Metasophy - Learning to Die, Dying to learn og Reynslusporin.
Pétur var sæmdur orðunni Commander of the British Empire (CBE) af Elísabetu Bretadrottningu 1990, gullmerki Flugbjörgunarsveitarinnar 1992, gullmerki Flugmálafélags Íslands 1992 og gullmerki Pósts og síma 1992.
Við fögnum lífi og brottför Péturs í táknrænni athöfn við Selárfossinn að hans ósk.
mbl.is/andlat

Um áramótin 1966-1967 tók ég fyrst eftir ungum og fallegum pilti, en við höfðum verið nágrannar um nokkurra ára bil, hann búandi á Álfhólfsveginum en ég á Meltröðinni. Hann var tveimur árum yngri en ég og svo var hann með rauðbirkið hár. Fram að þessu hafði ég ekki séð neitt áhugavert eða spennandi við þennan pilt.

En fljótt skipast verður í lofti. Á þessum tímapunkti vorum við bæði að vinna í Kron á Álfhólfsveginum undir stjórn Sigurðar Geirdals kaupfélagsstjóra og mikils framsóknarmanns.

Ekki leið á löngu þar til ég tek eftir að þessi rauðbirkni piltur, Pétur Einarsson, var bæði fjallmyndarlegur og skemmtilegur. Ég fer að elta hann á framsóknarfundi í Kópavoginum, foreldrar okkar beggja mikið framsóknarfólk, og við förum að eyða meiri og meiri tíma saman.

Við nánari kynni finn ég út að Pétur er mikill bókaormur, víðlesinn, forvitnari en fjandinn, vinmargur, hjálpsamur, handlaginn, mikill útivistarmaður (starfandi með björgunarsveit Kópavogs), með veðurfræðina, áttavitakunnáttuna og að keyra yfir óbrúaðar ár á hreinu og ótrúlega úrræðagóður svo eitthvað sé nefnt. Allt þetta heillaði mig upp úr skónum.

Annað sem var einkennandi við Pétur var að hlutirnir áttu að gerast strax og hratt. Kem að því síðar.

Síðsumars 1967 hefjum við Pétur sambúð, fengum þriggja herbergja kjallaraíbúð í Hjallabrekku 25 á leigu, hjá mektarhjónunum Ásdísi og Bjarna, og vorum þar í sjö ár, bestu ár okkar.


Frá upphafi sambúðar var bílafloti okkar skrautlegur svo ekki sé meira sagt. Við höfðum aldrei efni á að kaupa nýja eða nýlega bíla, eða fara með þá á verkstæði. En bílafloti okkar skapaði ótrúlega skemmtilegar minningar. Ég mun ekki geta lýst öllum skrjóðunum sem við áttum og þeim vandræðum eða eftirminnilegu minningum sem þeir sköpuðu. Ég mun því bara lýsa bílnum sem var þér kærastur, Y-165, Willys-jeppanum.

Y-165 var þér, Pétur, mjög kær, af því að afi þinn Kalli átti líka Willys-jeppa. Y- 165 var þannig úr garði gerður að nær ómögulegt var að starta honum með lykli. Hann varð að standa í brekku og láta hann renna í gang eða snúa sveif að framan og starta honum þannig. En ótal margt annað var alls ekki í lagi í honum. Ljósin, flautan eða útvarpið. Oft dugði að slá hraustlega í mælaborðið og þá löguðust einn eða tveir hlutir. Félagar þínir í björgunarsveitinni komu þér alloft til bjargar þegar Y-165 gaf upp öndina á ferðum sínum.

Hér er ein af mörgum ferðasögunum á Y-165, sem ég verð að láta gossa. Ákveðið var að fara í Skálafell á skíði með vinafólki. Lyftur lokaðar en ágætisveður. Y-165 tilbúinn, en vatnskassinn míglak. Búið að kítta í stærstu götin, að mig minnir með tyggigúmmíi, og fylla tvo stóra plastbrúsa af vatni til vonar og vara, sem voru fljótir að tæmast á leiðinni uppeftir. Lungann úr deginum skíðuðum við, en þegar nær dregur kvöldi er farið að athuga með vatnsbirgðir á vatnskassanum. TÓMUR. Nú voru góð ráð dýr. Næstu 3-4 klukkutímar fóru í að bræða snjó á ferðaprímusnum og setja á plastbrúsana og hella yfir á vatnskassann. Þegar heim kom undir miðnætti er faðir stúlkunnar algjörlega búinn á því, búinn að hringja á allar lögreglustöðvar höfuðborgarsvæðisins og spyrjast fyrir um dóttur sína, en allt fór þetta nú vel. Vinkona okkar fékk ekki að fara oftar í jeppaferð með Y-165.

Korter í jól tel ég rétt að kalla þetta minningarbrot, en þau voru ótal mörg.

Eitt sinn á Ásvallagötunni, nánar tiltekið þ. 20. des., kemur þú heim upprifinn og sækir málband út í skúr og mælir eldhúsið á Ásvallagötunni hátt og lágt og segir við mig komdu í bíltúr". Ekið er inn í Skeifuna en þá er verið að rýma eldhúsinnréttingabása í einu fyrirtækinu, þar sem afsláttur var góður.

Okkur líst best á eina þeirra, en ég segi strax: Þessi passar engan veginn inn í eldhúsið hjá okkur. Jú, jú, segir þú. Ég tek þennan hluta af og get notað hann undir verkfæri úti í skúr, sný tveimur hurðum við og þá er þetta komið. Eldhúsinnréttingin var keypt og þ. 21. des var öllu leirtaui, pottum og mat raðað inn á stofugólf og gömlu innréttingunni hent út um eldhúsgluggann. Nákvæmlega um kvöldmatarleytið þ. 23. des. var nýja eldhúsið tilbúið og hægt að halda jól, en það voru engar smákökur bakaðar þessi jól.

Ári seinna var baðherbergið tekið með sama trukki.

Hamingjan blasti við og ferðalög áttu stóran þátt í lífi okkar, fyrst barnlaus og svo komu ungarnir og voru strax tekin með í útilegur. Þú varst öruggur ferðafélagi, ávallt með áttavitann og réttan útbúnað og kunnir að keyra á hálendinu og yfir óbrúuðu árnar. Aðeins einu sinni drapst á Bronco-jeppanum Y-36, úti í miðri Krossá, og elsta barn okkar, tveggja ára þá, og bróðir þinn með í för. Þrír bílar voru komnir yfir og biðu okkar og allt fór vel.

Ótal skíðaferðir, gönguferðir, jeppaferðir, jöklaferðir og utanlandsferðir fórum við með krakkana hvort heldur var á sumrin eða á veturna. Reynt var að kenna þeim að meta landslagið og læra að bjarga sér við óvæntar aðstæður.

Spaugilegu minningarnar voru ótal margar á samleið okkar og oft teknir leikþættirnir við góð tækifæri. Ekki er hægt að rifja allt upp hér, en það mun verða skráð niður og hlegið að við góð tækifæri.

K-1000, K-1000. Læt börnunum mínum eftir að segja þann brandara. Þrjú hjól undir bílnum. Við á leið norður á Akureyri, á skíði, þegar afturdekkið skoppaði undan Pajeroinum og út í móa. Sagað af röngum enda hurðar. Þú að flýta þér og smá mistök.

En svo dimmdi yfir sambandi okkar þegar svartur draugur náði tökum á þér og þrátt fyrir að þú leitaðir þér aðstoðar hjá færum sérfræðingum, og gengir meira að segja í klaustur í Frakklandi, náðirðu ekki að losa þig við þennan óvelkomna draug.

Ég mun ávallt sakna rauðbirkna og skemmtilega piltsins sem ég kynntist í KRON 1966 og geyma góðu minningarnar okkar og varðveita auð okkar, fjögur yndisleg börn, þrettán barnabörn og eitt langömmubarn, sem við getum verið stolt af. Nú ertu farinn yfir á annað tilverustig og líður vonandi betur. Ég er þakklát fyrir góða tímann sem við áttum saman.

Far í friði Pétur minn.

Arndís (Dísa).