Ingimar Sveinsson fæddist á Hálsi í Hamarsfirði 19. júní 1927. Hann lést 29. maí 2020.
Foreldrar hans voru Sveinn Stefánsson bóndi á Hálsi og Kristín Sigríður Stefánsdóttir. Systir hans var Aðalborg Sveinsdóttir og lést hún árið 1978. Eiginkona Ingimars er Erla Ingimundardóttir og eiga þau tvo syni, Sigurð Inga og Svein Kristján. Ingimar og Erla eiga átta barnabörn og þrjú barnabarnabörn.
Ingimar stundaði nám við Kennaraskólann í Reykjavík og lauk þaðan prófi 1952. Hann kenndi í þrjá vetur á Ólafsfirði og gerðist svo skólastjóri við Grunnskóla Djúpavogs. Hann starfaði sem skólastjóri í 30 ár og kenndi síðan í 10 ár við skólann, með eins árs starfsleyfi þar sem hann var við nám í Kennaraháskóla Kaupmannahafnar árið 1969-70. Hann gegndi fjölmörgum trúnaðarstörfum fyrir hin ýmsu félagasamtök. Ingimar dvaldi síðustu fjögur ár ævi sinnar á Dvalar- og hjúkrunarheimilinu Uppsölum á Fáskrúðsfirði.
Útför Ingimars fer fram frá Djúpavogskirkju í dag, 6. júní 2020, klukkan 14.

Það er dýrmætt fyrir lítil samfélög, þar sem sagan liggur við hvert fótmál, að hafa á að skipa fólki sem hefur færni til að miðla fróðleik um liðna tíma svo að þeir sem eftir standa og erfa munu landið verði betur meðvitaðir um nærumhverfi sitt.

Nú er fallinn frá maður sem hafði allt þetta til að bera, fróðleiksbrunnur og einstakur persónuleiki sem skildi mikilvægi þess að deila heimildum um horfna tíma til komandi kynslóða.

Mér finnst í raun eins og að ég hafi þekkt Ingimar Sveinsson alla tíð. Það skýrist líkast til af því hve vel hann sagði frá, m.a. uppvexti sínum, staðháttum og mannlífi á árum áður. Ingimar var alltaf til í spjall og ósjaldan leitaði ég til hans þegar á þurfti að halda og þá helst þegar vantaði heimildir um hvaðeina sem hafði með sögu svæðisins að gera og alltaf kvaddi maður einhvers vísari. Það voru margir sem leituðu einmitt til Ingimars þegar afla þurfti heimilda um svæðið. Ég var því aldeilis ekki einn um það. Ingimar gaf því meira af sér í þessum efnum en aðrir þeir sem ég hef kynnst um ævina. Mér varð svo sífellt ljósara eftir því sem árin liðu hvað honum var það mikið hjartans mál að rétt væri farið með og sagan kæmist áfram til skila.

Oftar en ekki lá leið okkar um gamla Hálsþorpið sem er steinsnar frá Djúpavogi. Var þá stundum áð við Hálskirkjugarð og þá gjarnan horft upp á túnið ofan við garðinn þar sem bernskustöðvar hans að Hálsi höfðu staðið og glaðlegt blik í augum bættist við frásögnina. Þarna voru rætur hans og æska og þar leituðu minningarnar á hann við hvert fótmál. Þeim minningum kunni hann öðrum fremur að deila. Staðhætti og mannlíf í Hálsþorpi bar því oft á góma í ferðum okkar og líkast til var honum enginn staður hugstæðari en einmitt þar sem við stóðum og horfðum yfir Hálsa og Hálsarætur.

Það hefur án vafa verið einstakt að alast upp í þessu fallega umhverfi, með Hultrana og Hálsfjallið yfir sér, lækjarseytlur og reisulega bergganga og strýtur í nágrenni til að klifra í. Útsýnið frá Hálsi er fallegt yfir Hamarsfjörðinn og því var það varla tilviljun að Ingimar og Erla byggðu heimili sitt í góðu skjóli undir Borgarhól úti á Djúpavogi þar sem útsýnið blasir við yfir hluta Hamarsfjarðar. Stundum tókum við auka sögurúnt lengra inn í Hamarsfjörðinn. Þá var oft staldrað við Djáknadys og tæru lindina Vígðalæk og svo á Krossfletinum og fleiri merkum stöðum sem bera söguna með sér.

Ingimar var líka vel lesinn um Djúpavog og nágrenni allt aftur til landnáms og miðlaði þeim fróðleik með öðru. Hann var sömuleiðis vel ritfær og þá hæfileika nýtti hann meðal annars með því að gefa út tvær bækur sem líkast til eru til á hverju heimili í Djúpavogshreppi, en það eru bækurnar 400 ár við voginn og Siglt og róið.

Í þessum bókum eru sögu Djúpavogs og nágrennis gerð hnitmiðuð og góð skil. Bækur þessar hafa sannarlega reynst mikill fengur, ekki síst þegar leita hefur þurft heimilda. Um langt árabil voru þær vinsælasta gjöf sveitarfélagsins og eru líkast til enn í dag, t.d. við opinberar heimsóknir ráðamanna og annarra góðra gesta.

Ég tel mig geta staðhæft að fáir eða engir hafi til þessa lagt jafn mikið og heildstætt af mörkum til að viðhalda menningararfi Djúpavogs og Ingimar Sveinsson. Það er gríðarlega dýrmætt fyrir samfélagið á svæðinu um ókomna tíð. Ingimar hefur efalaust að einhverju marki notið þess sem fyrrverandi kennari og skólastjóri á Djúpavogi að eiga auðvelt með að miðla fróðleik sem hann hélt svo áfram eftir að starfi hans við Djúpavogsskóla lauk. Einnig hafði hann þá náðargáfu sem er ekki öllum gefin og felst í lifandi frásagnarstíl sem fær fólk til að leggja við hlustir. Og ekki skemmdi fyrir að Ingimar bjó yfir góðum orðaforða og hafði góð tök á íslensku máli. Og alltaf var stutt í glettnina þegar við átti.

Ingimar tók oftar en ekki að sér leiðsögn um svæðið þegar gesti bar að garði og þá var leitað til hans. Talið bara við Ingimar, hann er með þetta á hreinu var oftar en ekki viðkvæðið. Þá gilti einu hvort farið var með ferjunni út í Papey eða um Djúpavog og nágrenni. Um langt árabil var því oftar leitað til Ingimars en annarra þegar menn vildu fræðast um eitthvað tengt svæðinu. Og án þess að ég hafi um það spurt þá leyfi ég mér að efast um að hann hafi nokkru sinni neitað þegar leitað var til hans því að alltaf gaf hann sér tíma og var í raun þakklátur fyrir að fá að miðla endalaust úr fróðleiksbrunni sínum.

Þekking og áhugasvið Ingimars lá víðar því að náttúran og lífríkið allt var honum hugleikið rétt eins og sagan. Ingimar sá meðal annars um vetrarfuglatalningar fyrir Náttúrufræðistofnun um langt árabil á gömlu heimaslóðunum inn með Hamarsfirði og þegar hann tók að reskjast þá gengum við í lið með honum, undirritaður og Kristján sonur hans. Þessar fuglatalningarferðar voru í raun ómissandi þáttur í tilveru okkar um árabil og ekki laust við að það væri spenningur kringum hver áramót þegar viðraði til talningar. Spurningar vöknuðu í upphafi ferða: Myndum við sjá eitthvað af himbrima, fjöruspóa og kannski hvinandarparið, eða þá stelkinn sem hélt sig alltaf við kaldavermsllækinn í Henglavíkinni? Þessar fuglatalningarferðir þykir mér óskaplega vænt um að hafa átt með þeim feðgum. Svo bárum við gjarnan saman bækur okkar, hvort hefði verið meira eða minna af þessari eða hinni fuglategundinni frá því í fyrra og svo fletti Ingimar líka upp í áratuga gömlum talningabókum. Jú, sannarlega hafa orðið marktækar breytingar á fuglalífi á svæðinu á þessum tíma.

Ingimar var líka mikill dýravinur og var um árabil með nokkrar kindur sér til gamans. Þá var spjallið gjarnan tekið við fjárkofann í Löngulág þegar gefið var á garðann.

Það var mikil gestrisni og einstaklega gott að koma á heimili þeirra góðu hjóna Ingimars og Erlu á Borgarhóli. Þá var spjallað um heima og geima. Meðal annars ræddi Ingimar nokkuð oft við mig að gaman væri koma því í kring að Miðmorgunsþúfan yrði hlaðin upp aftur á pari við það sem hún hefði verið þegar hann mundi fyrst eftir. Þarna uppi á stóra bergganginum hafði verið áberandi þúst og öllu hærri og veglegri en stærstu fuglaþúfur. Kannski mun þessi veglega þúst á hamrinum verða hlaðin að nýju einhvern daginn eftir heimildum frá Ingimar.

Síðustu árin þegar heilsunni hrakaði og Ingimar þurfti að dveljast fjarri heimili sínu heyrðumst við nokkuð reglulega í síma. Þá bar ferðir fuglanna ætíð á góma og svo var eins um síðasta símtalið sem við áttum fyrir ekki svo löngu. Þá var meðal annars rætt um afkomu ýmissa fuglategunda og áleit Ingimar að lóunni væri að fækka frá því hann mundi fyrst eftir.

Nú hefur Ingimar Sveinsson, minn góði félagi og vinur sem hafði svo mikið að gefa, kvatt heimaslóðirnar sínar kæru. Hann verður um ókomna tíð órjúfanlegur hluti af þeim bestu minningum sem ég mun geyma með mér frá Djúpavogi.

Nú hnígur sól

Nú hnígur sól að sævarbarmi,
sígur húm á þreytta jörð.
Nú blikar dögg á blómahvarmi,
blundar þögul fuglahjörð.
Í hljóðrar nætur ástarörmum
allir fá hvíld frá dagsins hörmum.
(Axel Guðmundsson)



Við Gréta vottum Erlu, Sigurði og Kristjáni og fjölskyldum þeirra innilega samúð.


Andrés Skúlason.