Anna Snorradóttir fæddist á Siglufirði 15. júní 1926. Hún lést á Heilbrigðisstofnun Norðurlands í Fjallabyggð 15. maí 2020.
Foreldrar Önnu voru Snorri Stefánsson, f. 1895, d. 1987, og Sigríður Jónsdóttir f. 1889, d. 1972. Anna var einkabarn.

Anna giftist Knúti Jónssyni, f. 1929, d. 1992, 17. október 1953. Fósturbörn Önnu og Knúts eru: 1) Hafdís Fjóla Bjarnadóttir, f. 1967, maki Jóhann Þór Ragnarson, f. 1965, dætur þeirra eru a) Anna Þóra, f. 1987, í  sambúð með Davíð Minnar Péturssyni, f. 1983, þeirra dóttir er Fjóla Minney, f. 2017, og b) Sandra Ósk, f. 2000. 2) Óskar Einarsson, f. 1970, maki María Ben Ólafsdóttir, f. 1974. Þeirra börn eru Anna Metta, f. 2010, og Andri, Már f. 2013. Sonur Óskars af fyrra sambandi er Snorri Már, f. 1998.

Anna ólst upp í Hlíðarhúsi á Siglufirði. Anna lauk verslunarprófi frá Verslunarskóla Íslands árið 1947. Hún stundaði nám í Húsmæðraskóla Reykjavíkur frá 1952 til 1953 og sótti ýmis kennaranámskeið á árunum 1971 til 1976. Anna var ritari hjá Sparisjóði Siglufjarðar frá 1947 til 1952, hjá Áfengisvarnarráði Reykjavíkur 1954 til 1957 og nokkur sumur hjá Síldarverksmiðjum Rauðku á Siglufirði. Hún var stundakennari í Gagnfræðaskóla Siglufjarðar á árunum 1961 til 1968.
Anna hafði mikla ánægju af félagsstörfum og var í stjórn kvenfélags Sjúkrahúss Siglufjarðar frá 1961 til 1980 og formaður frá 1977. Hún var í stjórn kvenfélagsins Vonar frá 1974 og formaður frá 1986. Anna var í Barnaheimilisnefnd frá 1972 til 1978 og í Lionessuklúbbi Siglufjarðar frá 1979 og formaður frá 1985. Anna var meðlimur í kirkjukór Siglufjarðar frá 1946 og í stjórn hans í 20 ár og í Kvennakór Siglufjarðar frá stofnun 1968 og formaður frá 1970.
Anna verður jarðsungin frá Siglufjarðarkirkju í dag, 6. júní 2020, klukkan 11.

Stella frænka fæddist snemmsumars 1926 í Hlíðarhúsi, þá hús í útjaðri Siglufjarðar, sunnarlega hátt uppi í hlíðinni. Hún lést nær 94 ára 15. maí 2020 í Skálarhlíð á Siglufirði. Hún var augasteinn foreldra sinna, Snorra Stefánssonar, framkvæmdastjóra Rauðku, og Sigríðar Jónsdóttur húsfreyju. Í minni minningu var Hlíðarhús öðruvísi veröld en ég sá annars staðar. Þau héldu kindur og hænsni og að koma þar var eins og að stíga inn í ævintýri. Í Hlíðarhúsi var ekki bara borðstofa heldur líka betristofa og allt svo fínt, fágað og framandi. Þarna ólst Stella frænka upp, eina barn foreldra sinna. En hún átti fjölmörg frændsystkini sem áttu heima á Siglufirði og á Siglunesi en sum þeirra dvöldu í Hlíðarhúsi þegar þau sóttu skóla á Siglufirði. Móðir Stellu var náin systrum sínum og sérlega kært með þeim og þeirra fjölskyldum. Ég man ekki hvenær ég gerði mér grein fyrir því að hún Stella frænka bæri ekki það nafn. Hún var skírð í höfuðið á móðurömmu sinni, Önnu. Hvernig hún fékk þetta gælunafn veit ég ekki en í fjölskyldunni var hún alltaf Stella frænka.

Ein af fyrstu minningum mínum um Stellu frænku var þegar ég sá hana leika í Ævintýri á gönguför með Leikfélagi Siglufjarðar. Hún var svo flott og glæsileg á sviðinu með ljósu lokkana sína og svo söng hún svo vel. Ég, stelpuskottan, var upp með mér af frænku minni. Svo man ég hana keyrandi flotta jeppann hans Snorra. Það var ekki algengt þá að konur keyrðu bíla. Það var líka töff. Stella var glæsileg kona og ávallt einstaklega falleg til fara. Sannkölluð dama. Hún var í saumaklúbbi með mömmu og frænkunum Grétu Björnsdóttur Blöndal og Önnu Björnsdóttur og fleiri vinkonum. Okkur systkinum mínum þótti voða gaman að því þegar var saumaklúbbur heima að sjá þessar prúðbúnu flottu konur. Með fullri virðingu fyrir þeim öllum var Stella flottust fannst mér. Hún hafði unun af listum, einkum tónlist og myndlist en líka ljóðlist. Ég komst að því fyrir fáeinum árum þegar ég sagði henni að ég væri að reyna að læra Einræður Starkaðar. Skáldskapur Einars Ben væri engum líkur og byrjaði að þylja:



Eitt bros getur dimmu í dagsljós breytt,

sem dropi breytir veig heillar skálar.

Þel getur snúist við atorð eitt.

Aðgát skal höfð í nærveru sálar.



Þá tók Stella við:

Svo oft leyndist strengur í brjósti, sem brast

við biturt andsvar, gefið án saka.

Hve iðrar margt líf eitt augnakast,

sem aldrei verður tekið til baka.



Þarna kom Stella mér á óvart. Hún var orðin níræð og ég hafði ekki vitað um sameiginlega ást okkar á þessum skáldskap. Stella talaði fallega íslensku og var oft afskaplega skemmtilega hnyttin. Stuttu eftir að ég varð sjötug kom ég til hennar og við vorum að ræða saman og ég segi eitthvað á þá leið að ég skilji þetta bara ekki, mér finnist ég ekkert orðin sjötug, og þá segir Stella: það er nú bara ekkert skrítið, mér finnst ég ekki einu sinni vera orðin níræð. Hún átti mikið bókasafn. Ein bók var henni mjög kær. Hana höfðu pabbi og systir hans gefið henni þegar hún var veik af berklum. Áritunin var listilega skrautskrifuð: Til Stellu frá Diddu og Dodda. Henni þótti afskaplega vænt um þá bók.

Hún söng í kirkjukór Siglufjarðar áratugum saman og líka í blönduðum kórum. Stella var félagslynd og var virk í kvenfélagi Slysavarnafélags Íslands, kvenfélaginu Von og formaður þess lengi. Svo verður að geta þess að hún var félagi í Sjálfstæðisfélagi Siglufjarðar alla tíð. Hún lét víða gott af sér leiða, ekki bara með sjálfboðastarfi víða heldur sýndi hún hug sinn til samfélagsins á Siglufirði þegar hún gaf æskuheimili sitt, Hlíðarhús, til Síldarminjasafnsins þar.

Stella frænka veiktist ung af berklum og sú reynsla varð henni þungbær. Það var líka mikið áfall þegar faðir hennar, Snorri, missti sjónina rétt á miðjum aldri. En mesta áfallið í hennar lífi var þegar hún varð ekkja 1992. Þá lést Knútur Jónsson maðurinn hennar aðeins 63 ára að aldri. Þau kynntust í Versló og eftir að Knútur lauk háskólanámi árið 1954, sem hann hafði stundað í Noregi, Danmörku, Spáni og Róm, settust þau að á Siglufirði og farnaðist vel. Stella vann utan heimilisins skrifstofustörf en kenndi líka um skeið handmennt við Gagnfræðaskóla Siglufjarðar. Það varð þeim hjónum mikil gæfa að fá á sitt heimili systkinin Fjólu og Óskar. Talaði Stella oft um það hve mikið gæfuspor það var. Hún elskaði þau eins og þau væru hennar eigin. Gleðin og hamingjan varð svo ekki minni við að eignast barnabörnin að ég tali nú ekki um að fá langömmubarnið fyrir fáeinum árum. Fjóla og Óskar sýndu mömmu sinni mikinn stuðning, ást og kærleika. Hún kom til þeirra að norðan hver jól og líka þegar börnin fæddust og áttu afmæli og þau voru dugleg að heimsækja hana á Siglufjörð. Hún var afar sæl að sjá fjölskylduna sína dafna.

Stella frænka var einstaklega sjálfstæð kona. Hún hafði líka mikla þörf fyrir að bjarga sér sjálf. Hún var og höfðingi heim að sækja. Stella bjó í húsinu sínu fram á tíræðisaldurinn og keyrði sinn bíl. Fyrir um það bil tveimur árum ákvað hún að nú væri nóg komið, seldi húsið og bílinn og flutti út í Skálarhlíð. Svona gat hún haft þetta vegna stuðnings sinna nánustu, barna sinna og góðra granna. Stella frænka var sátt við guð og menn og tilbúin að kveðja. Hún var mér fyrirmynd í mörgu og ég er þakklát henni fyrir það og okkar vináttu. Ég á eftir að sakna þess að geta ekki hringt, spjallað og litið til hennar í Skálarhlíð á ferðum mínum norður. Hún var eldklár í kollinum, fylgdist vel með og var nútímaleg þó ræturnar lægju aftur á nítjándu öldina. Ég og fjölskylda mín vottum börnunum hennar og fjölskyldum þeirra samúð við fráfall þessarar góðu konu, móður, ömmu og langömmu. Guð blessi minningu Önnu Snorradóttur.


Árdís Þórðardóttir