Bryndís fæddist 22. september 1928 á Vattarnesi í Fáskrúðsfirði en flutti sex ára með fjölskyldunni til Reykjavíkur, d. 21. okt. 2020. Hún var yngst átta systkina. Foreldrar hennar voru Guðlaug Sigmundsdóttir framkvæmdastjóri, f. 19. apríl 1895 í Gunnhildargerði, Hróarstungu, N.-Múl., d. 26. okt. 1988, og Pétur Sigurðsson bóndi og vitavörður, f. 8. janúar 1888 að Hjartarstöðum, Eiðaþinghá, S.-Múl., d. 24. febr. 1955.

Bryndís gekk í V.Í. en fór 16 ára í Leiklistarskóla Lárusar Pálssonar og útskrifaðist þaðan og steig fyrst á svið undir leikstjórn Lárusar sem Cecilía í Jónsmessudraumi á fátækraheimilinu 18. nóvember 1946. Með námi starfaði Bryndís á rannsóknarstofu HÍ við Barónsstíg. Helstu áhugamál Bryndísar voru leiklist og ljóðalestur. Hún sté fyrst leikara á svið í vígslusýningu Þjóðleikhússins sem Guðrún í Nýársnóttinni. Upp frá því varð ekki aftur snúið og hún gaf sig leiklistargyðjunni á vald og hafði leiklist að lífsstarfi.

Í Þjóðleikhúsinu lék Bryndís uns hún lét af störfum fyrir aldurs sakir ef frá eru talin nokkur leikrit hjá LR auk þess að taka þátt í leikriti hjá LA. Hún hlaut viðurkenningu fyrir störf sín á 50 ára afmæli Þjóðleikhússins. Á yngri árum fór hún á sumrum í margar leikferðir um landið. Bryndís var fjallkona 1959.

Meðal minnisstæðra hlutverka Bryndísar við Þjóðleikhúsið eru Rósalind í Sem yður þóknast, Helga í Gullna hliðinu ('52 og '55), Sybil í Einkalífi, Sigríður í Pilti og stúlku, Leónóra í Æðikollinum, Ismena í Antígónu Anouhils, Essí í Er á meðan er, Sigrún í Manni og konu, Doris í Brosinu dularfulla, María mey í Gullna hliðinu, Júlía í Romanoff og Júlíu, Helena Charles í Horfðu reiður um öxl, Louise í Eftir syndafallið, Vala í Lausnargjaldi, Enuice í Sporvagninum Girnd og Munda í Stalín er ekki hér. Síðast lék hún Helgu í Kaffi eftir Bjarna Jónsson, á Litla sviði Þjóðleikhússins árið 1998.

Bryndís lék í kvikmyndum, sjónvarpi og útvarpi og fór m.a. með aðalhlutverk í fyrstu íslensku kvikmyndunum Milli fjalls og fjöru og Niðursetningunum.

Eiginmaður Bryndísar var Örn Eiríksson, f. 28.1. 1926, d. 15.6. 1996, loftsiglingafræðingur. Foreldrar hans voru Eiríkur Kristjánsson, f. 25.8. 1893, d. 4.4. 1965, kaupmaður á Akureyri, og k.h., María Þorvarðardóttir, f. 17.5. 1893, d. 21.6. 1967.

Synir Bryndísar og Arnar eru: 1) Eiríkur Örn Arnarson, f. 19.7. 1949, prófessor emeritus í sálfræði við HÍ, og k.h. Þórdís Kristmundsdóttir, prófessor emeritus í lyfjafræði við HÍ. Dætur þeirra eru Hildur, f. 1978, og Kristín Björk, f. 1984; 2) Pétur Arnarson, f. 16.5. 1956, flugstjóri hjá Icelandair og k.h. Magnea Lilja Haraldsdóttir skrifstofumaður. Börn þeirra eru Haraldur Fannar, f. 1983, Bryndís, f. 1989, og Leó Snær, f. 1992, og 3) Sigurður Arnarson. f. 29.6. 1967, sóknarprestur í Kópavogskirkju, og k.h. Inga Rut Karlsdóttir, verkefnastjóri hjá Icelandair. Börn þeirra eru Kristinn Örn, f. 1999, Birna Magnea, f. 2002, Karólína María, f. 2006, og Gunnar Karl, f. 2009.
Útförin hennar fer fram frá Fossvogskirkju í dag,  1. október 2020, klukkan 13 að viðstöddum nánustu fjölskyldu og vinum. Streymt verður frá athöfninni á slóðinni: sonik.is/bryndis

Á kveðjustund er margs að minnast. Góð vinátta mín og Sigurðar Arnarsonar, Sigga prests, þess yngsta og stríðnasta af þeim bræðrum, enda kallaður af okkur strákunum Siggi leikari, sem er réttnefni, hefur staðið frá fjögurra ára aldri og hófst í Tjarnarborg. Vissulega með ýmsum hléum lífsins, góður vinskapur er oft þannig, en alltaf erum við vinir og ræktum það þegar og ef við getum. Sem er oftar enda orðnir háaldraðir unglingar.

Bryndís Pétursdóttir var einstök kona, glæsileg alls staðar þar sem hún kom,
hlý og kom fram af hreinskilni og góðmennsku við umhverfi sitt og samgöngufólk. Fjölskyldu sína elskaði hún skilyrðislaust og ástin og kærleikurinn sem maður upplifði og sá svo sterkt alltaf með henni, Bassa og strákunum er nokkuð sem kveikir ljós, hlýju og ást í hjarta manns og gleður þegar hugsað er til baka.

Og það er auðvitað fallegt. Enda var allt fallegt hjá Bryndísi. Hún fylgdist vel með öllu og öllum. Dóttur minni Ragnheiði Björk sýndi hún mikinn ræktarskap og hlýju og við vorum alltaf á leið í heimsókn áður en Bryndís varð veik. Sirrý Hjaltested konuna mína var Bryndís vinkona mín sérstaklega ánægð með, ég reyndar grunaði Bryndísi um að hafa haft áhyggjur af að ég myndi ekki ganga út - svo ánægð var hún þegar hún hitti Sirrý mína í fyrsta sinn. Hvað þeim fór nákvæmlega á milli veit ég ekki en þær hlógu mikið!

Þegar ég kom úr námi frá BNA hérna um árið, ca 1992, var ég á milli vita í nokkurn tíma. Bryndís fékk veður af þessu og kallaði mig á sinn fund og bauð mér að búa í kjallaranum á Sæbraut 21, því stóra húsi, eins lengi og ég vildi,
en þar höfðu Bassi og Dísa byggt sér einstakt og fallegt einbýlishús á einum besta stað á Nesinu. Ari minn, það er enginn í kjallaranum ... jú Siggi er þarna í litla herberginu, þú verður bara í hinu og ég gleymi ekki hvað Bassi hló, þetta fannst honum gaman og nú yrði sko gaman - við vorum orðin sambýlingar, í stuttan tíma að vísu því ég kom mér svo fyrir í íbúð í miðbænum nokkrum vikum síðar. En vistin hjá þeim sæmdarhjónum var frábær.

Þá sem oftar rifjaði Bassi upp söguna af mér, sem honum tókst að gera að þjóðsögu, svo víða fór hún, þegar ég var í sumarvinnu, unglingur með skóla, í pakkaafgreiðslu Flugleiða á Reykjavíkurflugvelli. Dag einn kom maður með pakka sem átti að senda til Kolbeinseyjar. Ég er frekar lausnamiðaður, stundum um of, og svo fór að ég skráði pakkann inn til sendingar og setti hann afgreiddan á færibandið! Kolbeinsey er ekki með mikla póstmóttöku en er þó til ... Bassi og Dísa kölluðu mig árum saman eftir þetta hreppstjórann af Kolbeinsey.

Heimskona var hún og frábær listamaður. Og átti marga hápunkta í íslensku leikhúslífi á öllum sviðum. Í leikhúsinu starfaði hún lengst af, fastráðin ævilangt í Þjóðleikhúsinu, en einnig lék hún í bíómyndum, sjónvarpsmyndum og útvarpsleikritum.

Við félagarnir fórum til London mörg sumur í röð, á rúmlega unglingsaldri, 15-20 ára gamlir. Vissulega voru flestir okkar að fara til að skemmta sér, sinna dansæfingum o.fl. og stundum fullmikið skal viðurkennast, nema Siggi, sem hefur alltaf ráðið fullvel við Bakkus, sem er góður kostur. En alltaf leituðum við til Bryndísar áður en farið var til London um hvaða leikrit við ættum að sjá þann tíma sem við dveldum þar og alltaf valdi hún frábærar sýningar í bestu leikhúsunum fyrir okkur. Hún þekkti meira að segja vel leikhúslífið í New York því þegar við Siggi, Nóni o.fl. vorum þar á ferð lét hún okkur sjá tvö verk á Manhattan, annað mjög eftirminnilegt með Pacino í aðalhlutverki.

Það er margs að minnast á kveðjustund. Ég vil þakka Bryndísi og Bassa og fjölskyldunni allri vinskap í minn garð alla tíð.
Og elsku Siggi minn og Inga mín elskuleg og börnin, Pétur vinur minn og Eiríkur og öll ykkar börn og barnabörn. Öll stórfjölskyldan. Blessuð sé minning Bryndísar Pétursdóttur. Drottningar lifa að eilífu.

Ari Gísli Bragason.