Loriana Margret Livie Bounatian-Benatov Argoutinsky-Dolgorouky fæddist í Neuilly sur Seine 5. júlí 1986. Hún lést 21. ágúst 2016.

Foreldrar hennar eru Lilja Skaftadóttir Hjartar Benatov og Leonardo Bounatian-Benatov Argoutinsky-Dolgorouky myndhöggvari. Systir hennar Lívey Eiríka Lill Benatov f. 18/7 1996 d.7/6 2014.

Loriana var jarðsett í Chevreuse 26. Ágúst 2016

Elsku Loriana mín ég trúi því ekki að það sé komið eitt ár frá því að þú kvaddir þetta jarðlíf. Ég hef verið í algerri afneitun með það að þú sért farin frá okkur og komir ekki aftur. Ég sakna þín svo mikið og allra okkar stunda sem við áttum og ekki voru þær fáar. Þú varst svo full af lífi og gleði sem smitaði alla sem voru nálægt þér. Þegar Livey systir þín lést tveimur áum áður þá hrundi heimur okkar allra. Það var eitt það versta áfall sem komið hafði upp hjá fjölskyldunni. Fyrir þig mömmu þína og pabba var það svo mikið áfall að ég var viss um að það væri ekki hægt að leggja meira á ykkur. En það var ekki svo því að þú greindist með krabbamein rúmu árið síðar. Það var svo mikið áfall að það vildi engin trúa öðru en að þú myndir sigrast á þessum illvíga sjúkdómi. Við töluðum oft um þetta bæði í síma og þegar ég kom til þín eða þú til Íslands. Ég var viss um að almættið hvað sem það er tæki ekki báðar dætur systur minnar og þú hetjan mín myndir sigrast á þessu. En það var ekki svo því að systir mín missti báðar dætur sínar á tveimur árum og situr eftir án þess að hafa ykkur elskurnar sínar. Þegar ég kom út til þín í síðasta sinn þá fékk ég að sofa hjá þér á sjúkrahúsinu og við fengum okkar síðustu stund saman sem var ómetanleg. Ég spilaði fyrir þig nokkur lög sem voru ný komin út og þú elskaðir að hlusta á, eins og þú elskaðir alltaf að hlusta á góða tónlist. Mér er líka minnistætt eitt sinn þegar við vorum í svefngalsa sem gerðist oft þegar við vorum saman þá mundir þú eftir að þú ættir eftir að skila smá ritgerð um kvikmyndir í skólann og að sjálfsögðu skelltum við okkur í það. Við hlógum eins og hálfvitar og þú skrifaðir ritgerðina og ég bætti inn í þó svo að ég hefði ekki hugmynd um hvað þú værir að skrifa um. Þegar þú skilaðir henni sagðist þú vera sátt við að fá fimm fyrir hana. Tveimur dögum síðar komst þú skellihlæjandi inn til mín og hentir þér upp í rúm til mín og sagðir Valdís veistu ég fékk níu fyrir ritgerðina og við hlógum okkur máttlausar af því að okkur fannst þetta vera svo mikið bull þegar þú varst búin að skila ritgerðinni. Ég man líka eftir því þegar ég var með þig ein þegar þú varst pínu lítil og ég ólétt af Eiríki. Mamma þín þurfti að skreppa frá í smá stund, sem að tafðist í langan tíma af óviðráðanlegum ástæðum. Þú varst orðin svöng og við vorum í bílnum að bíða eftir mömmu þinni. Ég var ekki með neitt með mér en sé sjoppu við götuna sem við vorum í, ég hoppa með þig út og þú varst alveg á orginu og inn í sjoppuna. Þegar ég er komin með þig inn þá fattaði ég að ég er ekki með veskið með mér en með smá aur í vasanum sem dugði fyrir Síríus lengju og kókómjólk sem ég keypti. Við fórum síðan út í bíl og ég gef þér þetta og þú varst eins og sólarljós í framan þegar þú borðaðir þetta og drakkst kókómjólkina. Mamma þín kemur svo loksins og spyr hvernig okkur hafi gengið af því að hún tafðist svona og ég sagði henni það. Hún varð alveg brjáluð út í mig af því þú hefðir bara fengið lífrænt ræktað grænmeti og mat sem hæfir aldri ungabarna en ekki neitt með sykri. Við hlógum oft að þessu og þú sagðir að ég hefði komið þér á bragðið með að borða gott súkkulaði og kókómjólk. Það fyrsta sem þú gerðir alltaf þegar þú komst til Íslands var að fá þér súkkulaði og kókómjólk. Þegar þú varðst eldri þá sagðir þú alltaf að ég væri mamma þín á Íslandi og ég var svo lánsöm að fá að vera svona tengd þér elskan mín. Það sem við töluðum oft um áður en þú lést veit ég að þú segir mér síðar frá. Ég sakna þín svo mikið elsku stelpan mín að það eru ekki til nein orð yfir það. Ég elska þig.

Ég kveð þig núna þó svo að þú lifir alltaf með mér með textanum við lag Bubba sem við hlustuðum svo mikið á.


Kveðja

Þar sem englarnir syngja sefur þú
sefur í djúpinu væra.
Við hin sem lifum, lifum í trú
að ljósið bjarta skæra
veki þig með sól að morgni.
/
Drottinn minn faðir lífsins ljós
lát náð þína skína svo blíða.
Minn styrkur þú ert mín lífsins rós
tak burt minn myrka kvíða.
Þú vekur hann með sól að morgni.
/
Faðir minn láttu lífsins sól
lýsa upp sorgmætt hjarta.
Hjá þér ég finn frið og skjól.
Láttu svo ljósið þitt bjarta
vekja hann með sól að morgni.
/
Drottinn minn réttu sorgmæddri sál
svala líknarhönd
og slökk þú hjartans harmabál
slít sundur dauðans bönd.
Svo vaknar hann með sól að morgni.
/
Farðu í friði vinur minn kær
faðirinn mun þig geyma.
Um aldur og ævi þú verður mér nær
aldrei ég skal þér gleyma.
Svo vöknum við með sól að morgni.

(Bubbi Morthens)


Þín frænka að eilífu

Sigurey Valdís Eiríksdóttir.