Sólveig Guðlaugsdóttir fæddist í Vík í Mýrdal 24. desember 1924. Hún lést á sjúkrahúsinu á Selfossi 19. ágúst 2016.

Foreldrar hennar voru Guðlaug Matthildur Jakobsdóttir fædd 24. ágúst 1892 og Guðlaugur Gunnar Jónsson fæddur 8. febrúar 1884. Sólveig var send í fóstur austur í Hlíð í Skaftártungu til Valgerðar Gunnarsdóttir sex ára gömul og ólst þar upp.

Systkini Sólveigar voru 14 og eru í aldursröð talin: Jakob f. 1917 d. 1992, Valgerður f. 1918 d. 2002, Jón f. 1919 d. 2008, Anton f. 1920 d. 1993, Guðrún f.1922 d. 1999, Guðfinna f.1923 d. 1998, Guðlaug Sigurlaug f. 1926 d. 2006, Einar f. 1927 d. 1996, Guðbjörg f. 1929 d. 2009, Ester f. 1931, Erna f. 1932 d. 2009, Þorsteinn f. 1933 d. 1999, Svavar f. 1935 d. 2002 og Guðlaug Matthildur f. 1938.

Sólveig giftist Guðjóni Eggertssyni bifreiðastjóra þann 27. júní 1947. Þau hófu búskap í Reykjavík. Guðjón lést þann 13. desember 1990. Börn þeirra eru 1) Sigríður Kolbrún f. 1946, sambýlismaður Hjálmar Hermannsson. Synir hennar eru Guðjón, Haukur, Atli og Eggert og barnabörnin eru sex. 2) Unnur sem er gift Jóhannesi Óttar Svavarssyni. Börn þeirra eru Sólveig, Svavar og Íris Dögg og barnabörnin eru átta. 3) Eggert giftur Bryndísi Helgu Hannesdóttir, synir þeirra eru Guðjón Helgi, Hannes Pétur, Brynjar Freyr og fóstursonur Stefán Örn. Barnabörnin eru fimm.

Sólveig var heimavinnandi fyrstu hjúskaparárin en hóf störf á Hrafnistu í Reykjavík árið 1969 og vann þar til sjötugs. Árið 2000 flutti hún á Stokkseyri og þaðan í þjónustuíbúð í Grænumörk á Selfossi stuttu síðar. Síðustu þrjú árin dvaldi hún á hjúkrunarheimilinu Hjallatúni í Vík í Mýrdal.

Síðustu árin bjó hún með Árna Sigurjónssyni, sem lést þann 22. ágúst síðastliðinn.


Jarðarförin hefur farið fram í kyrrþey að ósk hinnar látnu.

Tvær manneskjur standa undir Gvendarfossi og baða sig, önnur stór og falleg næstum eins og fósturjörðin, hin lítil og mjó með svart hár næstum eins og blóm. Báðar með sjóhatt. Stóra konan er hún Sigga og ég er nafna hennar. Litla stelpan er Sólveig og hún er mamman okkar. Mamma ólst upp í Hlíð og naut góðmennsku fólksins þar sem hún var ævinlega þakklát. Þar gekk hún í öll störf og lærði margt sem vel nýttist henni ævina út. Hún átti stóran systkinahóp sem öll fæddust í Vík, mörg af þeim voru líka tíma og tíma í Hlíð. Lífið var gott, hún dafnaði vel, varð falleg stúlka, alltaf glöð og brosmild, átti gott með læra. Heimilisfólkið var margt og þar fæddust börn. Kom þá í ljós hversu barngóð hún var. Hún sagði mér oft hvernig hún læddist á tánum þegar Valur grét, fæddur '41, og stakk honum undir sængina sína, bíaði á hann. Svo komu Vala og Bíbí. Mamma gætti völu og Gulla systir hennar Bíbí, árin liðu. Svo einhverstaðar hitti hún pabba og ég varð til. Hún var enn í Hlíð en hann í bænum að útvega húsnæði sem erfitt var á þessum árum. Í september er hún farin frá Hlíð, þá þurfti marga að kveðja og ég hef grun um að margar góðir óskir hafi hún fengið á hlaðinu þennan morgun. Nú í Vík kemur hún og þar fæðist ég fallegan laugardag. Pabbi kemur fljótlega og sækir okkur búið er um mig í þvottabala og sett í drossíuna hans eflaust með nesti því leiðin var löng. Til Reykjavíkur komum við um kvöld, þá er búið um mig í kommóðuskúffu. Daginn eftir erum við flutt á Laugarmýrablett. Föðuramma mín og pabba fólk hefur örugglega passað upp á að ekkert vantaði. Orðin fjölskylda. Rúmu ár seinna fæddist systir mín, Unnur. Heyrt hef ég að ég haft gaman að láta hana grenja, mamma fyrirgaf það kannski þegar ég málaði hana rauða. Nokkrum árum seinna fluttum við á Laugalæk. Mikill gestagangur var á heimilinu, það fannst mömmu gaman. Nú pappi átti bíl svo tök voru á ferðalögum, stundum farið í Skorradal, tjaldað gömlu tjaldi við systurnar setta í svefnpoka sem merktir voru breska hernum, kveikt á prímus, tjaldið hitað upp og búið til kakó. Enn þann í dag man ég suðið í prímusnum og heyri spjallið í mömmu og pabba, notalegt. Á prímusnum var allt eldað, oft rauðar vínarpulsur. Í Skorradalnum átti pabbi ættingja. Við fórum þangað. Nákvæmlega þar hafði Unnur amma okkar verið vinnukona í nokkur og hver veit hvort Eggert afi okkar hafi komið þangað, næstum öruggt. Víða fórum við um Borgarfjörð. Fórum við alltaf að Tungufelli en þar bjó Guðrún afasystir okkar, skemmtilegir dagar. Nú austur í Vík var farið. Skyldfólk í öðruhverju húsi, mikil gleði leiðin lá líka austur í Hlíð. Fyrst voru Hlíðabæirnir 2 og síðan 3 svo seinna 4, viðtökurnar góðar og hlýjar og mamma naut sín, hún hafði frá svo mörgu að segja, þekkti stokka og steina. Sjálf gleymi ég ekki búðinni á loftinu, þar var lyktin góð og margt til. Árin liðu, svo eignuðust við bróður þá var mikið að snúast hjá mömmu og pabba, ekkert smá fínn drengur það. Mamma vildi alltaf að við værum fín. Lengi vel saumaði hún á okkur svo seinna fengum við búðarföt. Hún eldaði og bakaði gerði allt, dekrað við pabba og gesti sína, alltaf var til pláss og matur í pottinn. Árin liðu svo komu barnabörnin og öll fengu þau dekur hjá ömmu og afa. Alveg þótti sjálfsagt eftir að þau fengu sér litasjónvarp að við mættum með þau öll að horfa á sjónvarpið í lit. Seinni árin ferðuðust þau mikið til útlanda alltaf komu þau færandi hendi heim og sögurnar oft mergjaðar. Bæði voru þau dökk yfirlitum og fallegt fólk, einstaklega geðgóð og vinmörg, trygg sínu fólki.

Mamma fór að vinna úti vann á Hrafnistu það líkaði henni vel. Hún hætti 70 ára flutti á Stokkseyri í nokkur ár. Ísabella var mikið hjá langömmu sinni, samt voru þau, langömmubörnin, öll í huga hennar. Aldrei getum við fullþakkað það. Gleymi aldrei hvað mikið var að gera þegar Íris kom dagsferð með sín tvö á Stokkseyri enduðu öll austur í Vík. Sjálf á ég mömmu svo margt að þakka. Hún vildi að ég yrði hjúkrunarkona, hélt kannski að það hentaði vel. þú átt svo vont með reikna. Væri ekki betra að stelpan lærði að verða ljósmóðir, sagði pabbi. Þá þarf hún bara að hugsa. En ég fór að ráðum mömmu. Við ferðuðumst mikið saman bæði utanlands og hér sumar ferðir standa upp úr. Síðustu árin var hún í Hjallatúni, fyrst átti hún góðan tíma en undir lokin var gleðin horfin, heyrnin búin. Eitt verð ég að segja, ég hef ekki oft séð fólk deyja svona fallega eins og hún gerði. Rúmum tveimur sólarhringum seinna dó vinurinn hennar hann Árni, besti vinurinn, hann dó í Hjallatúni.

Sigríður Kolbrún Guðjónsdóttir.