"Vélin steyptist á bakið og hrapaði á nefið" BJARNI Pálmars leigubílstjóri var austan megin Sóleyjargötu þegar hann sá flugvélina yfir trjá toppunum í Hljómskálagarðinum. Með honum í bílnum var farþegi, ung stúlka.

"Vélin steyptist á bakið og hrapaði á nefið"

BJARNI Pálmars leigubílstjóri var austan megin Sóleyjargötu þegar hann sá flugvélina yfir trjá toppunum í Hljómskálagarðinum. Með honum í bílnum var farþegi, ung stúlka.

"Vélin kom út úr skýjabakkanum eins og skuggi og það glitti í hana yfir trjátoppunum. Ég gat ekki séð annað en að vélin væri í eðlilegri aðflugshæð og ég sá ekkert sem benti til þess að eitthvað væri að. Hins vegar lækkaði hún flugið skyndilega yfir Hringbrautinni og beygði örlítið til vinstri sem var afar torkennilegt. Þetta gerðist allt svo snöggt. Ég kallaði upp yfir mig hvort þeir hefðu hugsað sér að lenda vélinni á veginum en þá rétti hún sig strax til hægri með snarpri beygju og miklum vélargný og steypist á bakið og hrapaði síðan á nefið með miklum dynk. Ég stöðvaði bílinn og flýtti mér út að flakinu sem strax varð alelda. Slökkviliðið brást skjótt við og var farið að dæla kvoðu yfir brennandi flakið innan örskammrar stundar. Maður verður svo hissa þegar svona lagað gerist að maður missir alveg andlitið. Konan sem var hjá mér í bílnum hljóp út úr honum í skelfingu og ég sá hana ekki aftur," sagði Bjarni Pálmars leigubílstjóri.