Gamli miðbærinn: Bílastæðum á götum fjölgað um 100 Njálsgata verður einstefnugata BORGARRÁÐ samþykkti á fundi sínum í gær tillögu umferðarnefndar um fjölgun bílastæða á götum í miðbæ Reykjavíkur.

Gamli miðbærinn: Bílastæðum á götum fjölgað um 100 Njálsgata verður einstefnugata

BORGARRÁÐ samþykkti á fundi sínum í gær tillögu umferðarnefndar um fjölgun bílastæða á götum í miðbæ Reykjavíkur. Alls mun merktum stæðum fjölga um tæplega hundrað í gamla bænum. Það er meðal annars gert með því að fjölga skástæðum við gangstéttar í stað þess að bílar leggi samsíða þeim og með því að breytaNjálsgötunni í einstefnugötu. Breytt verður um akstursstefnu á Grettisgötu.

Nýju stæðin verða ýmist við stöðumæla eða gjaldfrjáls. Við Frakkastíg milli Laugavegar og Hverfisgötu koma 10 stæði, við Klapparstíg fjölgar þeim um 8, á Laugavegi og í Bankastræti um 17 alls, í Austurstræti vestanverðu um 6 og fjögur ný stæði koma á Bókhlöðustíg. Mest munar þó um að Njálsgötunni verður breytt í einstefnugötu til austurs frá Klapparstíg að Snorrabraut. Þannig skapast rými fyrir 49 ný stæði.

Til þess að vega upp breytingu Njálsgötunnar í einstefnugötu til austurs verður Grettisgötunni "snú ið við"; einstefnuakstur verður nú til vesturs um götuna en var áður til austurs. Til þess að minnka ökuhraða og auka umferðaröryggi á svæðinu verða auk þess steinlagnir á þremur köflum á Njálsgötu og Grettisgötu og tvær hraðahindranir á Bergþórugötu. Þá verður biðskylda á Njálsgötu við Vitastíg, á Grettisgötu við Frakkastíg og á Vitastíg við Bergþórugötu. Stöðvunarskylda á mótum Frakkastígs og Njálsgötu verður hins vegar afnumin.

Á fundi borgarráðs var einnig samþykkt tillaga frá samstarfsnefnd borgaryfirvalda og samtakanna Gamla miðbæjarins um að tjaldað verði yfir Hallærisplanið á laugardögum í vetur og rekinn þar útimarkaður á vegum samtakanna. Tvær aðrar tillögur frá nefndinni voru lagðar fram en hljóta frekari skoðun. Annars vegar var lagt tilað ókeypis ferðum strætisvagna niður Laugaveg yrði fjölgað og hafa samtökin boðist til að leggja fram tvær og hálfa milljón króna til þess að svo megi verða gegn þvíað fá að auglýsa á hliðum vagnanna. Hins vegar leggur nefndin tilað akstur verði leyfður um austurhluta Austurstrætis, þar sem nú er göngugata.

Samstarfsnefndin er skipuð tveimur borgarfulltrúum og tveimur fulltrúum samtakanna Gamla miðbæjarins. Að sögn Vilhjálms Þ. Vilhjálmssonar, borgarfulltrúa sjálfstæðismanna, sem sæti á í nefndinni, er framgangur þessara mála, ásamt fjölgun bílastæðanna í miðborginni, sameiginlegt áhugamál samtakanna og borgaryfirvalda. "Borgaryfirvöldum er mjög annt um gamla miðbæinn og við höfum mikinn áhuga á að styrkja verslun og þjónustu á svæðinu auk þess sem mannlífið verði eflt," sagði Vilhjálmur. Vilhjálmur sagði að kostnaður við fjölgun bílastæðanna yrði ekki mikill, hann fælist fyrst og fremst í nýjum stöðumælum og götumálningu.