Iðunn Vigfúsdóttir fæddist á Gimli á Hellissandi 29. maí 1927. Hún lést 19. apríl 2021 á Hrafnistu í Hafnarfirði.

Iðunn ólst upp á Hellissandi og bjó þar til ársins 1945, Foreldrar hennar voru hjónin Kristín Jensdóttir húsfreyja, f. 5.11. 1889, d. 4.9. 1953, og Vigfús Jónsson húsasmíðameistari, f. 27.6. 1883, d. 11.3. 1972, frá Gimli á Hellissandi. Iðunn var níunda í röð þrettán systkina. Jóhanna, Jens, Haukur, Guðný, Svava, Guðbjörg, Auður, Gyða, Erlingur og Jón eru látin en eftirlifandi systkini eru Vigfús og Ragna. Fósturdóttir Kristínar og Vigfúsar var Helga Níelsdóttir, sem er látin.

Árið 1947 giftist Iðunn Einari Bergmanni Arasyni kaupmanni, f. 28.2. 1922, d. 3.8. 2002. Hann var sonur Friðdóru Friðriksdóttur, f. 7.12. 1892, d. 27.10. 1975, og Ara Bergmanns Einarssonar, f. 4.2. 1891, d. 9.9. 1978. Þau bjuggu í Sæmundarhlíð í Ólafsvík. Iðunn og Einar hófu búskap í Ólafsvík en fluttust til Reykjavíkur 1956. Þau áttu fjögur börn, átta barnabörn og 12 barnabarnabörn. Börn þeirra eru: 1) Ari Bergmann, fyrrverandi bankamaður, f. 7.6. 1949, kvæntur Ólöfu Erlu Óladóttur, fyrrverandi verslunarstjóra, og eiga þau tvö börn, A) Sigríði Sunnu, maki Stefán Ólafur Sigurðsson. Börn þeirra eru Sigurður Ari og Auður Embla. B) Einar Baldvin, maki Lísa Kjartansdóttir. Börn þeirra eru Ólöf Yrja og og Una. 2) Helga Kristín, fyrrverandi hjúkrunardeildarstjóri skurðstofu Landspítala Fossvogi, f. 6.7. 1951, gift Kjartani Þórðarsyni hagfræðingi. Þeirra börn eru A) Iðunn, maki Benedikt Gunnar Ívarsson, þeirra börn eru Viktor Helgi, Adam Ingi og Hanna Karen B) Guðný, maki Eiríkur Gestsson. Þeirra börn eru Helga Kristín, Valgerður Ósk og Kjartan Kári, C) Kjartan Dór, maki Harpa Kristinsdóttir, börn þeirra eru Freyr Leó og Hekla. 3) Dóra, leikmynda- búningahöfundur, f. 15.8. 1954. 4) Baldvin, framkvæmdastjóri Icetour, f. 26.12. 1962, kvæntur Ingu Birnu Úlfarsdóttur fjármálastjóra, búsett í Noregi. Börn þeirra A) Úlfar Ari, sambýliskona Marie Smedsrud Kristofersen B) Elísabet, sambýlismaður Viktor Zahl Hellum C) Kristín.

Iðunn ólst upp á Hellissandi og að lokinni hefðbundinni skólagöngu stundaði hún nám í Húsmæðraskólanum að Staðarfelli í Dölum. Að því loknu dvaldi hún í Reykjavík um tveggja ára skeið, en þangað var hún send til þess að kynnast höfuðstaðnum, kynna sér hannyrðir og læra „góða siði“.  Bjó hún á Bjarkargötunni hjá Ingibjörgu og Stefáni Stephensen í Verðanda. Hún hóf ung búskap með Einari og þurfti snemma að aðstoða hann á ýmsa vegu í krefjandi starfi sem framkvæmdastjóri frystihússins í Ólafsvík. Skömmu eftir að þau fluttu til Reykjavíkur keyptu þau ásamt öðrum verslunina Kjöt og fisk á Þórsgötu 17 og byggðu síðar nýja verslun með sama nafni að Seljabraut 54.

Iðunn og Einar hættu verslunarrekstri 1987. Iðunn bjó lengst af að Lindarflöt 16 í Garðabæ en flutti í Kirkjulund 6 og síðast á Hrafnistu í Hafnarfirði.

Útför Iðunnar fer fram frá Garðakirkju í Garðabæ í dag, 4. maí, kl. 15. Streymt verður frá athöfninni:

https://www.facebook.com/streymisferdir/.

Streymishlekk má nálgast á: https://www.mbl.is/andlat/.


Móðir mín, Iðunn Vigfúsdóttir frá Gimli á Hellissandi, var fædd í þennan heim sem heimskona sem lýsti upp öll rými sem hún gekk inn í.
Hún ólst upp á Gimli, miklu menningarheimili sem húsasmíðameistarinn faðir hennar Vigfús Jónsson byggði fyrir konu sínu Kristínu Jensdóttur frá Rifi. Eignuðust þau 13 börn og fósturdóttur að auki.
Kristín amma gekk til mennta í Reykjavík, hún var mikil hannyrðakona og lærði á orgel um fermingu hjá prestfrúninni á Skildi. Öll börnin á Gimli lærðu á hljóðfæri og voru með eindæmum söngelsk. Frá blautu barnsbeini röðuðu þau sér upp við orgelið og rödduðu. Öll fullorðinsárin héldu systkinin viðteknum sið þegar þau komu saman í veislum, röðuðu sér upp og sungu raddað alveg eins og þau gerðu í æsku, og var það himneskt á að hlýða.
Langafi, Jens Sigurðsson, bóndi í Rifi, var einn af sóknarnefndarmönnum og frumkvöðlum að byggingu Ingjaldshólskirkju á Hellissandi árið 1903 er hann kom heim til Íslands frá dvöl í Vesturheimi. Ingjaldshólskirkja er elsta steinsteypta kirkja í heiminum.
Sunnudagar voru helgaðir kirkjunni hjá fjölskyldunni á Gimli. Öll fjölskyldan klæddi sig upp og hélt til kirkju þar sem allir höfðu sitt hlutverk. Ég man eftir myndunum af barnahópnum, þar sem stúlkurnar voru í tvíhnepptum kápum með hatta og drengirnir í tvíhnepptum frökkum, allt saumað og hannað af ömmu Kristínu.
Í minningunni er æskuheimili mömmu eins og ævintýri. Tveggja hæða reisulegt hús með kvistum, betri stofu, borðstofu og sólstofu með tágahúsgögnum og mikið af blómum. Blómapottarnir steyptir og listilega handmálaðir af bræðrum mömmu. Mottur voru á gólfum, lituð ull og handofnar af ömmu. Og ég gleymi aldrei tesettinu frá Asíu, appelsínugult úr örþunnu postulíni. Einstakt heimili, fegurð hvert sem litið var. Í kjallaranum var smíðaverkstæði Vigfúsar afa, og þar var alltaf svo góð lykt af sagi.
Það var dásamlegt að eiga mömmu og pabba sem foreldra, alltaf svo mikið öryggi, þolinmæði, ást og virðing þeirra á milli. Sífellt að koma hvort öðru á óvart. Ég man þegar ég sem barn fékk að fara með þeim í matarboð að kvöldi til, tóku bestu vinirnir, Donni, Bessi og Diddi, hlæjandi á móti þeim og sögðu við þurfum nú bara einn stól fyrir Iddu og Einar, því hann situr alltaf með hana í fanginu
Pabbi var þessi hörkuduglegi, sjálfstæði og framsýni maður, alltaf glaður og talaði við alla. Mamma var kletturinn í hans lífi, stóra ástin hans, fíngerð, mikil dama. Þá var hún ótrúlega sterk, en hún var ekki allra. Hún bjó okkur alltaf fallegt heimili, hugsaði um okkur af natni, eldaði góðan mat og það var alltaf lagt fallega á borð, og ekki má gleyma servíettunum. Á jólum, páskum og öðrum stórhátíðum í fjölskyldunni var allt svo fallega og listilega sett upp hjá mömmu, að það var eins og að fletta Bo Bedre. Alltaf allt svo elegant.
Við systkinin erum fjögur en ég var eina barnið sem mamma var oft andvaka yfir. Hverju tekur hún Dóra upp á núna? Og mömmu gleymdist seint fermingarundirbúningur minn. Hún fór með mig í fínu verslunina Hjá Báru til að velja fermingarkjólinn. Hún valdi á mig fölbleikan kjól með síðum þröngum blúnduermum, þröngum bol og hringskornu pilsi. Ég lofaði mömmu að vera í kjólnum á fermingardaginn, en harðneitaði að fara nokkurn tíman aftur í hann, og neitaði að fara i fermingarmyndatöku vegna bleika kjólsins. Mamma var alltaf að reyna að gera mig bleika og dömulega alveg fram á síðasta dag.
Ég var svo heppin að foreldrar mínir voru alltaf dugleg að heimsækja mig þegar ég bjó starfa minna vegna á fjarlægum slóðum. Mamma kom oft ein og var þá iðulega í marga mánuði í senn. Og þegar von var á mömmu vissi ég um leið að það yrði mikið um skoðunarferðir, allar kirkjur, kastalar og listasöfn yrðu þrædd. Og ég hljóp til og náði í miða áður en hún kom á allar óperur, balletta og sinfóníur sem ég gat náð í. Ég gleymi því aldrei, þegar ég bjó í Amsterdam og hún kom í þriggja mánaða heimsókn, ég var að vinna að stóru verkefni í París, og auðvitað kom mamma með. Þegar tími gafst til fór ég með henni að skoða Eiffelturninn og aðrar merkar byggingar. Einn daginn var planið að fara á Louvre-safnið. Þá neitar mamma að fara með mér nema ég fari í dragt, háa hæla og stífaða skyrtu því við værum að fara að skoða Monu Lisu og önnur meistaraverk. Hún sagði af virðingu við listamennina sem leggja mikið í listina, þá klæðir maður sig upp Dóra. Svona var þetta alltaf. Ég man þegar við fjölskyldan fórum í Þjóðleikhúsið á Kardimommubæinn og ég var fimm ára. Þá heyrði ég fyrst þessa setningu frá henni, Bera virðingu fyrir listamönnunum, um leið og hún setti stóra hvíta slaufu í hárið á mér, ég var í gulum kjól, hvítum hálfsokkum með blúndu og lakkskóm. Þetta situr í mér og ég klæði mig alltaf upp og punta fyrir listviðburði.
Ég fékk starf sem flugfreyja mjög ung, og þá var nú mamma ánægð með mig. En eftir einungis tvö ár tók ég upp á því að fara í 6 mánaða launalaust leyfi og hélt til Berlínar undir því yfirskini að bæta þýskukunnáttuna. Mamma elskaði að sjá mig fara í vinnuna í júniforminu, í húðlituðu sokkabuxunum og með hattinn og slæðuna, því þá vissi hún að þann daginn væri ég almennilega til fara en ekki í einhverri hippamussu. Ég hringdi heim eftir sex mánuði í Berlín og bað foreldra mína að skila flugfreyjubúningunum því ég væri að fara í listaakademíuna. Mamma var alla tíð með mynd af mér í flugfreyjubúningnum á besta stað í stofunni, en hún var ekkert að ramma inn einhverjar myndir af mér fyrir alþjóðlegar viðurkenningar eða frumsýningar á leikhúsum, óperum eða kvikmyndum.
Mamma var fyrst og fremst móðir og húsfreyja, en hún tók einnig þátt í rekstri verslunarinnar Kjöt og fiskur með pabba. Hún var mjög listræn, og eftir hana liggja mörg falleg listaverk, skúlptúrar, glerlistaverk og málverk bæði olíu og vatnslita. Hún sagði oft við mig hin síðari ár að hún sæi einungis eftir tvennu í lífinu, og það væri að hafa ekki lært betur erlend tungumál og farið í formlegt myndlistarnám.
Mamma var alla tíð svo mikil dama. Nokkrum dögum áður hún kvaddi okkur fór hún eins og hún var vön að gera frá því ég man eftir mér í sína vikulegu lagningu og litaði augnumgjörð. Um nýliðna páska kom hún til mín í mat á páskadag. Ég verð að viðurkenna að ég, sem er nú ekki þekkt fyrir stóra takta í eldhúsinu, var alla vikuna fyrir heimboðið að velta fyrir mér matseðlinum, sósunni og hvort ég ætti að hafa stífaðan hvítan dúk og servíettur í stíl í anda mömmu eða hafa það my way, sem á endanum varð ofan á. Ég beið með öndina í hálsinum eftir að frú Iðunn settist við borðstofuborðið en fékk svo hrós lífs míns frá mömmu Dóra mín, þetta er svo menningarlegt, listrænt, fallegt og gott hjá þér, og það kom blik í augun á mömmu og ég sá hvað hún stolt af mér.
Hvíl í friði elsku mamma. Það sem ég á eftir að sakna þín. Ég veit að pabbi beið eftir þér með hestana í fullum reiðtygjum og þið ríðið saman inn í sólarlagið og horfið á jökulinn.

Dóra Einarsdóttir.