Guðrún Ólafía Viktorsdóttir fæddist í Reykjavík 2. desember 1960. Hún lést á heimili sínu 10. október 2021.

Foreldrar hennar eru Viktor Guðbjörnsson, f. 1942, og Guðríður Pálsdóttir, f. 1942. Systkini Guðrúnar eru Páll Þórir, f. 1965, Viktor Sveinn, f. 1967, Sigríður Fjóla, f. 1973, og hálfbróðir Gunnar Lárusson, f. 1963.

Eftirlifandi eiginmaður Guðrúnar er Einar Ólafur Svavarsson, f. 1959, húsasmiður. Foreldrar Einars eru Gunnhildur Ólafsdóttir, f. 1940, og Svavar Einarsson, f. 1933, d. 1989. Dætur Einars og Guðrúnar eru: 1) Guðríður Olga, f. 1980, gift Birni Örvari Björnssyni. Börn þeirra eru Einar Björn, f. 2008, Kristinn Örn, f. 2010, og Hrafnhildur Rún, f. 2016. 2) Gunnhildur, f. 1984, gift Kristni Smára Sigurjónssyni, f. 1983, börn þeirra eru Rakel Sara, f. 2006, og Aron Sölvi, f. 2011.

Guðrún var menntaður leikskólakennari og starfaði sem aðstoðarleikskólastjóri á leikskólanum Huldubergi í Mosfellsbæ á árunum 1999-2021. Þar áður starfaði hún sem leikskólakennari á leikskólanum Brekkuborg í Grafarvogi.

Útför Guðrúnar Ólafíu Viktorsdóttur fer fram í Háteigskirkju í dag, 22. október 2021, klukkan 10.00.

Systurdóttir mín, frænka og vinkona, hún Guðrún, er látin.

Við vorum jafnöldrur, ég var fædd fyrr á árinu en hún varð stærri og alltaf fannst mér hún sterkari, ákveðnari, traustur vinur, hún var einstök. Hún var elst í sínum systkinahópi og ég yngst af sex systkinum.

Fyrstu bernskuminningarnar mínar eru tengdar henni, hún í heimsókn eða ég hjá henni, systir mín sá um að prjóna og sauma á okkur báðar. Hún bjó frá þriggja ára aldri með foreldrum sínum á Ísafirði. Þar var allt svo spennandi, mjólkurbúðin þar sem mjólk og rjómi var keypt í lítratali og á brúsum. Ilmurinn frá Félagsbakaríinu úr kjallaranum á Silfurgötu 11 rifjast upp. Kötturinn í kjallaranum og yndislegur föðurafi og -amma, Guðbjörn og Magnúsína, bjuggu í húsinu, sem setti svip á bæinn. Sjávarlyktin, sundlaugin og varnargarðurinn en þar komumst við eitt sinn í hann krappan í leik á fjöru. Guðrún var þar í sumarvinnu síðar. Minnisstæð er berjaferð vestur og vellystingar hjá ömmu og afa á Ísafirði. Fjölskyldan flutti svo til Reykjavíkur og settist að í Breiðholtinu í Bakkahverfinu og höfðu þá bæst við tveir bræður og systir aðeins síðar. Guðrún var fyrsta ömmustelpan í móðurætt og nafna.

Oft kom Guðrún með mér í sumarbústað foreldra minna í landi prentara í Miðdal, þar var ýmislegt brallað, í raun þekktum við aðra hverja þúfu. Sóttum mjólk í Miðdal, þar sem við síðar spiluðum golf. Háðum eina ofurbaráttu og það yfir einu LEO-súkkulaðistykki! Við lékum okkur í gilinu og í litla læknum, veiddum silung með mömmu og á föstudögum biðum við á leikvellinum eftir pabba Palla afa, úr bænum með nammi í poka. Við fermdumst saman, við bundumst tryggðaböndum þegar móður minnar naut ekki lengur við. Við vorum alltaf til staðar hvor fyrir aðra. Hún var skemmtileg og lífsglöð vildi allt fyrir mann gera við að leysa verkefni og var úrræðagóð. Hún var einkar rausnarleg og kom oft með óvæntar gjafir.

Einari, æskuástinni, kynntist hún 16 ára, Einsa minn kallaði hún hann. Milli þeirra slitnaði aldrei strengur. Þau voru samhent, bjuggu sér mörg falleg heimili, fyrst í Seljahverfi, síðar í Dalhúsum og voru dæturnar þeirra þar í skóla. Síðustu árin bjuggu þau í Mosfellsbænum. Hún bjó ætíð nálægt foreldrum sínum.

Í seinni tíð fjölgaði aftur samverustundum. Áhugamálin hennar voru meðal annars golf og gönguferðir og þar má helst nefna Fimmvörðuhálsinn sem var okkar Everest, hjólaferðir innanlands og síðast en ekki síst utanlandsferðirnar með þeim hjónum. Þar má helst nefna Flórída, sælureit fjölskyldunnar, þar sem hún naut sín svo sannarlega. Gleðilegar eru minningar frá Key West og fótbolta- og golfferð til Englands um vorið 2019. Á dagskránni var að fara utan í skíðaferð.
Guðrún vann sem aðstoðarleikskólastjóri, bar ábyrgð á rekstri og stjórnun. Börn og uppeldi barna var henni hjartans mál og hún var alltaf tilbúin að leiðbeina með það. Hún var afburðastarfsmaður og leiðtogi á sínu sviði. Fór í námsferðir innanlands og utan til að bæta og efla skólastarfið.

Elsku Guðrún var dugnaðarforkur og atorkusöm. Var lengi í aukavinnu samhliða annarri vinnu á yngri árum. Börnin urðu tvö, Olga og Gunnhildur. Báðar voru þær í fótbolta sem börn og fengu ómældan stuðning og gott atlæti í foreldrahúsum. Barnabörnin eru fimm, hvert öðru yndislegra, og hún naut sín best með þau sér við hlið. Í sextugsafmælisræðu til mín í febrúar 2020 var inntakið að verða betri en ekki bitrari í seinni hálfleik.

Andleg veikindi Guðrúnar komu óvænt mánuði seinna, sama ár og heimsfaraldurinn skall á hér á landi. Heimsóknir og allt tal um smitvarnir í samfélaginu vegna Covid-19 gerði það að verkum að einangrunin varð meiri heima fyrir en hefði þurft að vera. Hún barðist hetjulega, en að lokum voru öll sund lokuð og úrræðaleysi í samfélaginu gagnvart fólki með geðsjúkdóma er staðreynd. Hún gat þetta ekki lengur, fann engan bata, hún var aldrei söm. Læknar Kleppsspítala stjórnuðu meðferð og stuðningur var af sálfræðingi og dagvist. Dætur hennar, tengdasynir og Einar gerðu það sem þau gátu í að veita stuðning í veikindum, fjölskyldan, vinir og kunningjar. Ýmislegt var reynt til þess að vanlíðan og máttleysið næði ekki yfirtökunum.

Hún lét sinn draum rætast í fyrrasumar að fara í veiðiferð með mömmu sinni og okkur systrum mömmu hennar. Hún fékk vöðlur og tilheyrandi í sextugsafmælisgjöf frá foreldrunum og við stofnuðum veiðifélagið Dúnurnar. Á sólríkum sumardegi í júní klæddum við okkur upp í veiðigallana við Hólaá. Litlu munaði að við þessar reyndu kæmum með öngulinn í rassinum en fiskarnir trylltust þegar mæðgurnar hentu út í, þær veiddu. Fullkominn dagur sem endaði með grillveislu.
Veturinn á eftir var henni erfiður. Mánuðirnir liðu og heldur dró af henni andlega og líkamlega og batinn var hægur. Guðrún átti ekki afturkvæmt í fyrra starf, það reyndist henni erfitt, en allan tímann miðaðist batinn hennar við að komast aftur til vinnu. Að lokum varð sjúkdómurinn þrálátur, þunglyndi og ofsakvíði og ekkert sem vakti áhuga hennar lengur. Vanlíðan sem fylgir því að þú getir ekki lengur tekið þátt í samverustundum fjölskyldunnar var henni óyfirstíganlegur.
Með mikla sorg í hjarta kveð ég elsku, hjartans Guðrúnu mína. Með tímanum breytast sorgartárin vonandi í gleðitár yfir öllum stundunum okkar saman. Trú mín og von er að við sjáumst síðar.
Elsku Einar, Gunnhildur, Guðríður Olga, tengdasynir og ykkar börn, megi góður Guð vaka yfir ykkur. Elskulega systir mín Guðríður, Viktor mágur og systkini Guðrúnar og fjölskyldur, Guð blessi ykkur öll.

Nú legg ég augun aftur,
ó, Guð, þinn náðarkraftur
mín veri vörn í nótt.
Æ, virst mig að þér taka,
mér yfir láttu vaka
þinn engil, svo ég sofi rótt.

(Sveinbjörn Egilsson)Margrét (Magga frænka).