Óskar Konráðsson rafvirkjameistari fæddist 12. apríl árið 1945 í Skerjafirðinum. Hann lést á Deild 2 á Heilbrigðisstofnun Norðurlands vestra á Sauðárkróki 25. janúar 2022.

Foreldrar hans voru Konráð Jónsson frá Kagaðarhóli í Austur-Húnavatnssýslu, f. 13.10. 1891, d. 19.8. 1974 og Sigurbjörg Jóhanna Sigurjónsdóttir frá Rútsstöðum í Svínadal, f. 27.9. 1917, d. 8.5. 2010.

Systkini Óskars samfeðra voru Ingólfur, f. 1914, d. 1978, Eggert, f. 1920, d. 2008, Jón, f. 1923, d. 2001, Lárus, f. 1928, d. 2008 og Ragnheiður, f. 1932, d. 1997.

Albræður Óskars eru þeir Gunnar, f. 1943, Haukur, f. 1949 og Kjartan, f. 1955.

Óskar giftist Jónínu Ósk Jónsdóttur 1965 og eiga þau saman 3 börn, þau eru: a) Kristín Björg Baldys, f. 14.12. 1963, gift Oleksandr Baldys. Kristín á 3 börn og 4 barnabörn. b) Dagbjört Ósk Óskarsdóttir, f. 13.8. 1965. Dagbjört á 2 dætur og 1 barnabarn. c) Arnar Þór Óskarsson, f. 16.5. 1972. Arnar á 2 börn. Leiðir þeirra skildi.

Árið 1975 giftist Óskar eftirlifandi eiginkonu sinni, Jóhönnu Jónasdóttur, f. 26.3. 1955. Saman eiga þau: a) Jóhönnu Marín, f. 1977, gift Vigni Má Sigurjónssyni og eiga þau 3 börn, b) Konráð Jónas, f. 1980, í sambúð með Berglindi Rós Einarsdóttur og eiga þau 2 syni, c) Albert Sölva, f. 1985, giftur Ósk Hilmarsdóttur og eiga þau 3 börn.

Óskar lærði rafvirkjun og starfaði sem rafvirkjameistari alla sína ævi. Hann starfaði m.a. á Keflavíkurflugvelli, sjálfstætt, hjá Rafmagnsveitu Reykjavíkur en lengst af hjá Hampiðjunni.

Óskar gekk í Oddfellowregluna árið 1982 og tók virkan þátt í starfi hennar.

Árið 1992 greinist Óskar með parkinson-sjúkdóminn og var á tímabili mjög virkur í Parkinsonsamtökunum og var formaður félagsins um árabil.

Útför hans fer fram frá Sauðárkrókskirkju 4. febrúar kl. 14 en verður einnig streymt á youtube-síðu kirkjunnar: https://www.youtube.com/watch?v=A-0hdQd8JdM

https://tinyurl.com/2p8uebhz

https://www.mbl.is/andlat

Alla mína ævi var Óskar hluti af tilveru minni og upplifun, eldri og bar ábyrgð á mér þegar við vorum að alast upp í Skerjafirðinum og á Hjarðarhaganum um og eftir miðja síðustu öld. Ekki voru dagvistunarstofnanir til á þessum árum þannig að það lenti á eldri systkinum að gæta þeirra yngri. Ég var því oft hafður með í leiðöngrum og strákapörum stóru strákanna sem enduðu stundum spaugilega eins og þegar allir voru keyrðir heim til sín í svörtu Maríu eftir að hafa verið fiskaðir út úr heyfúlgu sem var á túni flugbrautarmegin við Suðurgötuna. Í bernskuminningunni var lífið blaðaútburður sem krafðist þess að vakna eldsnemma og fara út í hvaða veður sem var með bræðrum mínum eftir að ég hafði getu til að vera að gagni. Á þeim tíma voru dagblöðin fimm og áskrifendur oft að fleiri en einu blaði og því hægt að sameina ferðir okkar um útburðarhverfið. Ég var að sjálfsögðu látinn hafa léttasta útburðinn í fyrstu sem var Þjóðviljinn á meðan hinir sáu um Morgunblaðið og Tímann. Við höfðum engar skoðanir á stjórnmálum en fannst samt skrítið að borgarstjórinn sem var sjálfstæðismaður keypti bæði Moggann og Þjóðviljann og heilsaði okkur oft þegar leiðir okkar skárust. Þannig safnaðist fyrir reiðhjólum sem gengu í erfðir í aldursröð og þannig var einnig með fatnað sem menn uxu upp úr og móðir okkar lagfærði svo að passaði á þann næsta. Óskar var næstur fyrir ofan mig í aldri og má því segja að ég hafi snemma gengið í spor hans. Reiðhjól jók atvinnumöguleika og hægt að fá vinnu sem sendill í aukavinnu með skóla. Óskar fékk vinnu hjá Vöruhappdrætti SÍBS sem sendill og þegar hann var hækkaður í tign tók ég við starfi hans. Á sumrin vorum við bræðurnir í sveit hjá hálfsystkinum og frændfólki okkar norður í landi. Gunnar og Óskar tóku allskonar vinnu á unglingsárunum, t.d. vinnu í fiski hjá Aliance og í Hafnarfirði og fóru í trilluútgerð með Jóni bróður okkar. Óskar komst á námssamning hjá Guðna Helgasyni rafvirkjameistara og lauk námi og sveinsprófi í rafvirkjun í okt. 1966. Óskar kvæntist 6. feb. 1965 Jónínu Jónsdóttir. Þá var dóttir þeirra Kristín Björg rúmlega eins árs. Sama ár stækkaði fjölskyldan þegar Dagbjört Ósk bættist við.

Rafmagnsverkstæði Varnarliðsins varð vinnustaður Óskars í nokkur ár. Til að starfa sjálfstætt aflaði hann sér meistararéttinda og löggildingar og flutti á Hvammstanga ásamt fjölskyldu til að taka að sér raflagnir við byggingu skólans á Laugarbakka í Miðfirði sem nú er orðið hótel. Fleiri verk eins og veiðihúsið í Víðidal og allskonar nýlagnir og viðgerðir út um alla sýslu komu upp. Vel gekk að aðlagast mannlífinu og ekki spillti fyrir glaðlyndi og spaugsemi Óskars. Fyrir þingkosningarnar 1971 var Björn Pálsson frá Löngumýri staddur á Hvammstanga í atkvæðaveiðum og hitti Óskar sem hafði þurft að flytja lögheimili sitt norður og var því álitlegt atkvæði. Á þessum árum var bifreiðaeign ekki eins og í dag þannig að menn vissu hver var á ferð út frá skráningarnúmerum því númer mátti fylgja eiganda. Óskar nefndi í gríni hvað númer Björns væri flott og greip Björn það á lofti og sagði að Óskar mætti fá það. Þegar Óskar mætti með bíl sinn í skoðun og númeraskipti á Blönduós beið númer Björns þar. Vakti það oft bros og glettni þegar þingmaðurinn ók í hlað en reyndist vera rafvirkinn sem pantaður hafði verið.

Á þessum tíma hafði ég lokið mínu iðnnámi og var á lausu þannig að Óskar réð mig tímabundið sem aðstoðarmann við verkin á Laugarbakka og í Víðidal. Sambúð Jónínu og Óskars entist ekki og flutti hún suður í foreldrahús með dæturnar og þar kom Arnar Þór í heiminn í maí 1972.

Byggingarmeistari skólans á Laugarbakka stóð ekki við loforð um áframhaldandi vinnu við raflagnir sem þó hafði verið forsenda fyrir flutningunum norður og því lítið annað að gera en fara suður þar eð verkefnin voru of fá. Landsími Íslands varð næsti vinnuveitandi Óskars næstu tvö árin (73-74) við viðhald á loftlínum og viðgerðir um landið vestanvert. Rafmagnsveita Reykjavíkur var næst til að njóta starfskrafta hans samhliða harki sem leigubílstjóri hjá Steindóri. Hjá Steindóri starfaði Jóhanna Jónasdóttir sem Óskar kvæntist 6. júlí 1975. Nýja fjölskyldan stækkaði þegar dóttirin Jóhanna Marín fæddist 30. maí 1977.

Árið 1978 tekur Óskar við starfi rafvirkja hjá Hampiðjunni í Stakkholti og er þar í viðhalds- og viðgerðavinnu ásamt uppsetningu og tengingum á nýjum vélbúnaði. Margar lagfæringar og breytingar þurfti oft að gera á nýjum búnaði og jafnvel að hanna nýjan.

Fjölskyldan stækkaði þegar Konráð Jónas fæddist 27. mars 1980 og svo aftur þegar Albert Sölvi fæddist 10. jan. 1985.

Hampiðjan stækkaði og jók umsvif sín og byggði nýtt hús á Bíldshöfða 9 og einnig var hluti framleiðslunnar fluttur til Portúgals. Óskar var nokkurn tíma í Portúgal við uppsetningu vélbúnaðar og síðan að kenna heimamönnum notkun og viðhald þessa búnaðar. Mikill erill fylgdi starfi Óskars þar sem ekkert mátti stoppa og því oft þreyttur maður sem kom heim að kvöldi. Þreyta og stirðleiki ágerðust og 1992 greindist Óskar með parkinson. Hann vann þó áfram hjá Hampiðjunni í tíu ár.
Þrátt fyrir þetta áfall hélt hann kímnigáfunni og hellti sér út í félagsstarf hjá Parkinsonsamtökunum (PSÍ) og var fljótt kominn þar í stjórn og var kosinn formaður starfsárið 2000-2001. Félagsstarfinu fylgdu ferðalög á þing og ráðstefnur víða í Evrópu. Einnig sat hann í stjórn ÖBÍ sem fulltrúi PSÍ. Glíman við parkinson þyngdist hægt og bítandi í ójöfnum leik þar sem öðrum aðilanum var fyrirfram dæmdur sigur. Árið 2002 hætti Óskar störfum hjá Hampiðjunni og fluttu hjónin norður á Sauðárkrók, en börnin voru þá að mestu flutt að heiman.
Ekki gekk það þrautalaust að koma sér þar fyrir því þau höfðu áformað að byggja þar innflutt timburhús en allskonar skriffinnska og lóðavandamál komu í veg fyrir það. Að endingu keyptu þau einbýlishús við Hólmagrund sem seinna var skipt út fyrir Skógargötu 13. Eins og ævinlega var Óskar fljótur að aðlagast og koma sér í samband við Parkinsonsamtökin á Akureyri og Oddfellowregluna á staðnum og starfaði hann um tíma sem húsvörður hjá þeim. Reglufélagarnir reyndust Óskari vel og naut hann félagsskapar þeirra bæði í leik og starfi.
Glíman við parkinson gaf engin grið og greindi ég breytingar í heimsóknum og eins í símtölum þar sem raddbeitingin minnkaði en minnið hélst og glensið var óbreytt. Eftir að hann fór á deild 2 á Dvalarheimili Sauðárkróks fyrir fjórum árum dundaði hann sér t.d. við að veggfóðra herbergið með skopteikningum úr dagblöðunum og undir það síðasta var starfsfólkið farið að aðstoða hann við þetta. Jóhanna var stoð hans og stytta, og dvaldi Óskar oft í heimahúsum í góðu yfirlæti, þannig var það yfir hátíðirnar síðustu. Minningar flæða fram og allar góðar sem fylgja þér.
Vertu sæll, bróðir, og takk fyrir samfylgdina.


Haukur Konráðsson.