Kvikmyndahátíð á Akureyri Kvikmyndahátíð verður haldin á Akureyri dagana 22.-29. október nk. Vikan hefur hlotið yfirskriftina Myndvika á Akureyri 1988".

Kvikmyndahátíð á Akureyri Kvikmyndahátíð verður haldin á Akureyri dagana 22.-29. október nk. Vikan hefur hlotið yfirskriftina Myndvika á Akureyri 1988". Sýndar verða kvikmyndir eftir Eðvarð Sigurgeirsson og úrval leikinna íslenskra mynda, sem sýna þróun íslenskrar kvikmyndagerðar. Þeim þætti myndvikunnar lýkur með frumsýningu á Akureyri á nýrri íslenskri kvikmynd.

Á fundi bæjarstjórnar Akureyrar í október á síðasta ári var samþykkt tillaga menningarmálanefndar um að unnið skuli að því í samráði við fleiri aðila að haldin skyldi kvikmyndahátíð í tilefni af 80 ára afmæli Eðvarðs Sigurgeirssonar ljósmyndara. Í framhaldi af samþykktinni var síðan boðað til fundar með fulltrúum frá myndklúbbum framhaldsskólanna, Eyfirska sjónvarpsfélaginu og Borgarbíói. Í þennan vinnuhóp, til undirbúnings kvikmyndahátíðarinnar, völdust síðan Þórey Eyþórsdóttir, varaformaður menningarmálanefndar, Birkir Sveinsson, myndklúbbnum Filmunni í Verkmenntaskólanum, Guðmundur Örn Sverrisson úr Kvikma, sem er kvikmyndaklúbbur Menntaskólans á Akureyri, Sigurður Arnfinnsson, framkvæmdastjóri Borgarbíós, og Ingólfur Ármannsson, menningarfulltrúi. Vinnuhópurinn hefur síðan unnið að undirbúningi kvikmyndahátíðarinnar og liggja nú fyrir helstu ákvarðanir um fyrirkomulag hátíðarinnar.

Kvikmyndasamkeppnin stendur nú yfir og þurfa væntanlegir þátttakendur að skila inn myndum í síðasta lagi í lok ágústmánaðar. Bæklingur með nánari upplýsingum um keppnina liggur meðal annars frammi á skrifstofum Akureyrarbæjar. Þeir, sem hug hafa á þátttöku, geta fengið aðstöðu til úrvinnslu myndbanda í allt að fimm klukkustundir án endurgjalds, en menningarfulltrúi bæjarins veitir nánari upplýsingar um það. Fyrstu verðlaun í samkeppninni eru 50.000 krónur og að auki verða veittar fjórar viðurkenningar, hver að upphæð 10.000 krónur. Öllum áhugamönnum er heimil þátttaka. Efnið á að vera tekið upp á árinu 1988 og má ekki hafa verið sýnt opinberlega áður. Efnið á að vera á 8 mm kvikmyndafilmu eða tommu myndbandi. Æskilegt er að hver mynd sé á bilinu 5 til 8 mínútna löng, þó ekki lengri en 15 mínútur.