Neyðarástand í Súdan Khartoum. Reuter. UM ÞAÐ bil ein og hálf milljón manna er heimilislaus í Khartoum, höfuðborg Súdans, eftir að flóð ollu gífurlegu tjóni í lok síðustu viku.

Neyðarástand í Súdan Khartoum. Reuter.

UM ÞAÐ bil ein og hálf milljón manna er heimilislaus í Khartoum, höfuðborg Súdans, eftir að flóð ollu gífurlegu tjóni í lok síðustu viku. Ekkert rafmagn hefur verið í borginni í fimm daga en þar búa 4,5 milljónir manna. Í flestum hverfum er ekkert drykkjarvatn að fá og símasamband við umheiminn er rofið. Ríkisstjórn Súdans hefur lýst yfir 6 mánaða neyðarástandi í landinu.

Flóð gengu yfir Khartoum á föstudag eftir 13 klukkustunda samfellt úrhelli. Nokkrir létust þegar hús hrundu og urðu vatnselgnum að bráð. Sjónarvottar segja að tveggja metra há flóðbylgja hafi riðið yfir úthverfi Khartoum.

Mörg hundruð þúsund manna eyddu sinni þriðju nótt, aðfaranótt mánudags, úti undir beru lofti án matar að mestu. Í úthverfunum Omdurman og Bahari söfnuðust þúsundir manna saman á húsgagnastöfl um sem þeim hafði tekist að bjarga úr húsum sínum.

Yfirvöld í Súdan hafa farið framá víðtæka alþjóðlega aðstoð vegna flóðanna. Evrópubandalagið samþykkti í gær að veita neyðaraðstoð til Súdans að upphæð 33 milljónir íslenskra króna. Rauði krossinn í Danmörku og frönsku samtökin, Læknar án landamæra, munu skipuleggja aðstoðina.