Líkklæðið frá Tórínó falsað? St. Andrews. Frá Guðmundi Heiðari Frímanssyni, fréttaritara Morgunblaðsins.

Líkklæðið frá Tórínó falsað? St. Andrews. Frá Guðmundi Heiðari Frímanssyni, fréttaritara Morgunblaðsins.

NÚ er lokið alþjóðlegum rannsóknum á líkklæðinu frá Tórínó, sem sagt hefur verið klæðið sem sveipað var um líkama Krists þegar hann var tekinn niður af krossinum. Páfastóll mun tilkynna niðurstöðurnar í næsta mánuði eða í október.

Dr. Robert Hedges, sem stjórnaði þeim hluta rannsóknanna, sem framkvæmdar voru við háskólann í Oxford segir í frétt The Sunday Times síðastliðinn sunnudag að skýrar og afdráttarlausar niðurstöður hafi fengist úr þeim tilraunum. Sambærilegar tilraunir voru gerðar í Z¨urich í Sviss og í Tuscon í Arizona í Bandaríkjunum.

Að sögn blaðsins bjuggu fulltrúar kirkjunnar sig undir það í síðustu viku að niðurstaða tilraunanna yrði sú að klæðið væri fölsun frá 14. öld. Luigi Gonella, prófessor og vísindalegur ráðgjafi við Páfastól, sagði í síðustu viku: "Kirkjan fór ekki fram á þessar tilraunir og við erum ekki bundnir af niðurstöðunum. Ef klæðið er aldursgreint frá miðöldum þá á enn eftir að svara því hvernig það varð til."

Hedges sagði að þótt niðurstöðurnar myndu útkljá þetta 600 ára gamla deilumál fyrir flesta, þá myndu þær að líkindum ekki sannfæra efasemdamennina né hina trúuðu.

Páfastóll eignaðist klæðið árið 1983 þegar eigandi þess, fyrrverandi konungur Ítalíu, arfleiddi kirkjuna af því. Miklar deilur hafa staðið lengi um þetta klæði. Þeir sem trúa á það segja að á því séu blóðblettir Krists og í því megi greina mynd af líkama hans.

Vísindamenn hafa blandast inní deilur um klæðið frá Tórínó frá því á miðjum síðasta áratug. Þá uppgötvuðu vísindamenn frá geimferðastofnun Bandaríkjanna, NASA, að myndin á klæðinu hefði dularfulla þrívídd. Aðrir töldu að sárin á líkinu, sem myndin væri af, væru of raunveruleg og hefðu ekki getað verið máluð.

En ráðgáturnar eru fleiri. Sérstaklega þó að klæðisins er hvergi getið fyrr en á 14. öld og enginn kann sögu þess fyrir þann tíma. Þeirri aðferð sem nú er notuð á ekki að skeika um meira en 300 ár. En aldursgreiningar með kolefni eru ekki óskeikular. Tilraunastofa í Tuscon aldursgreindi nýlega kýrhorn frá víkingatímanum og sagði það vera frá 2006 eftir Krist, eftir 18 ár. Hedges segirað reynist klæðið falsað muni það ógna trúarskoðunum margra. Að þessu leytinu sé slæmt að vísindin geri tilraunir á helgum minjum. Það sé eins og að glata sakleysinu í aldingarðinum Eden.