Vesturbakkinn: Óánægja með stefnu Husseins Forystuhlutverk PLO dregið í efa Jerúsalem, frá Patrick Bishop, fréttaritara Daily Telegraph. AHMED Al-Jarmi er reiður maður, eins og við er að búast af manni, sem er í þann veginn að glata lífsviðurværi sínu.

Vesturbakkinn: Óánægja með stefnu Husseins Forystuhlutverk PLO dregið í efa Jerúsalem, frá Patrick Bishop, fréttaritara Daily Telegraph.

AHMED Al-Jarmi er reiður maður, eins og við er að búast af manni, sem er í þann veginn að glata lífsviðurværi sínu. "Mér voru greiddir 120 jórdanskir dínarar (um 16.000 ísl. kr.) á mánuði og ég reiddi mig á þá peninga," segir hann. "Nú er ætlast til þess að ég lifi á einu kílói af mjöli frá Sameinuðu þjóðunum og það er ekki einu sinni hreint." Al-Jarmi er einn 3.500 opinberra starfsmanna Jórdaníu, sem settir hafa verið á eftirlaun vegna þeirrar ákvörðunar Husseins Jórdaníukonungs að slíta öllum tengslum við hernámssvæði Ísraela á vesturbakka Jórdanár.

Þegar Ísraelar ráku flóttann eftir Sexdagastríðið árið 1967 og hernámu Vesturbakkann bauð Hussein konungur opinberum starfsmönnum Jórdaníu á Vesturbakkanum að þiggja laun áfram svo fremi sem þeir ynnu ekki fyrir sigurvegarana. Þessi góðgerðastarfsemi hefur þó ekki aflað Hussein þess fylgis, sem hann hafði vænst.

Gamlingjarnir í steikjandi hitanum á aðaltorginu í Jalazone-flótta mannabúðunum skammt frá Ramallah voru einróma í afstöðu sinni: "[Hussein] nýtur einskis stuðnings hér," segir einn hinna gömlu þula. "Frá því við fórum frá heimilum okkar [í Ísrael] árið 1948 hefur honum mistekist að finna nokkra lausn á vanda okkar."

Þrátt fyrir fjárstuðning Husseins við Vesturbakkann vita Palestínuarabar fullvel, að þeir peningar koma frá öðrum arabaríkjum og kunna honum því litlar þakkir fyrir. Af því veit Hussein og hefur það vafalítið haft áhrif á þá ákvörðun hans að þvo hendur sínar af Vesturbakkanum og fela Frelsissamtökum Palestínu (PLO) ábyrgðina. Um leið hætti hann nær öllum fjárútlátum til Vesturbakkans.

Hussein útilokar þann möguleika að Jórdanía komi við sögu í friðarviðræðum í framtíðinni sem fulltrúi Palestínu. Ísraelskir stjórnmálamenn eru þó efins um þessar staðhæfingar Husseins og segja að umleið og upp komist að PLO hafi í raun engin völd á Vesturbakkanum neyðist Hussein til þess að taka við fyrra hlutverki sínu.

Á Vesturbakkanum efast menn mjög um ágæti PLO og hlutverk samtakanna og þrátt fyrir að fulltrúar samtakanna láti sem þeir stjórni uppþotunum á hernumdu svæðunum ber mönnum saman umað PLO geri lítið annað en að taka á sig ábyrgðina á atburðum, sem þeir hafa litla ef nokkra stjórn á.

Þegar fólkið í Jalazone var spurt hvort það hefði fengið eitthvað af þeim milljón Bandaríkjadölum á mánuði, sem Arababandalagið samþykkti að veita til PLO til þess að fjármagna Intafada, eða uppþotin á hernámssvæðunum, svaraði það með hæðnishlátri.

Hyggist PLO á hinn bóginn nú auka hlut sinn í Intifada eða reyna að koma sér á framfæri sem réttmætum valdhöfum svæðisins getur það aðeins endað með fjöldahandtökum og hertum tökum Ísraela á hernámssvæðinu. Á hinn bóginn benda aðrir á að lýsi Palestínuarabar yfir sjálfstæði á Vesturbakkanum muni margir Ísraelar líta svo áað PLO hafi í raun horfið frá hinu gamla stefnumarki sínu, að uppræta Ísraelsríki.

Reuter

Þrátt fyrir að tiltölulega rólegt hafi verið á Vesturbakkanum frá því að Hussein Jórdaníukonungur tilkynnti um ákvörðun sína er enn grunnt á því góða með Ísraelum og Palestínuaröbum, en hér sést ísraelskur hermaður stjaka við Palestínuaraba eftir að til orðaskipta kom í biðröð við skráningarskrifstofu bifreiða á Vesturbakkanum. Hún var opnuð í fyrsta skipti í þrjá mánuði í gær.