Íran: Bretar ræða opnun sendiráðs á ný Breskur sendimaður fer til Teheran Lundúnum, Reuter. BRESK stjórnvöld tilkynntu í gær að breskur sendimaður færi til Teheran til viðræðna við yfirvöld um að opna á ný sendiráð Breta í Íran.

Íran: Bretar ræða opnun sendiráðs á ný Breskur sendimaður fer til Teheran Lundúnum, Reuter.

BRESK stjórnvöld tilkynntu í gær að breskur sendimaður færi til Teheran til viðræðna við yfirvöld um að opna á ný sendiráð Breta í Íran. Einnig mun hann ræða aðstoð Írana við að fá lausa vestræna gísla í Líbanon.

Talsmaður breska utanríkisráðuneytisins sagði að David Reddaway, sérfræðingur um málefni Íran, sem starfaði við sendiráð Breta í Teheran frá árinu 1977 til 1980, myndi koma til Teheran á fimmtudag þar sem hann myndi dvelja í tvær til þrjár vikur. Ákvörðunin um að senda Reddaway til Íran kom í kjölfar vopnahlésviðræðna í stríði Írana og Íraka og loforða Írana um að láta af árásum á skip á Persaflóa, að sögn talsmannsins.

Bretar lokuðu sendiráði sínu í Teheran árið 1980 og hafa Svíar farið með málefni Breta í Íran síðan þá. Sendiráði Írana í Lundúnum hefur ekki verið lokað en aðeins viðskiptafulltrúi hefur verið að störfum þar undanfarið.

Talsmaður utanríkisráðuneytisins sagði að ekki væri ljóst hvort för Reddaways myndi verða til þess að sendiráð Breta yrði opnað á ný. "Þetta er skref í þá átt aðkoma á eðlilegu ástandi í samskiptum þjóðanna," sagði talsmaðurinn.

Reddaway mun fara þess á leit við írönsk stjórnvöld að þau aðstoði við að fá lausa þrjá breska gísla, þeirra á meðal Terry Waite, sem verið hafa í haldi íranskra öfgahópa í Líbanon.