Þóra Guðrún Pálsdóttir fæddist 21. september 1926 á Rauðabergi í A-Skaftafellssýslu. Hún lést á Hrafnistu Nesvöllum 9. mars 2022.

Foreldrar hennar voru Páll Bergsson bóndi, f. 16. des. 1862 í Borgarhöfn í Suðursveit, d. 11. maí 1946, og Pálína Daníelsdóttir húsfreyja, f. 1. des. 1884 á Viðborði á Mýrum, d. 19. feb. 1985.

Systkini Þóru voru: Andvana stúlka, f. 5. sept. 1909, d. 5. sept. 1909; Sigurbergur, f. 11. nóv. 1910, d. 6. júlí 1998; Daníel Skafti, f. 20. sept. 1915, d. 1. júlí 2002; Magnús Guðjón, f. 11. des 1918, d. 14. maí 1919.

Hinn 8. september 1957 giftist Þóra Sæmundi G. Jóhannessyni kennara, rithöfundi og trúboða, f. 13. nóv. 1899, d. 18. sept. 1990. Foreldrar hans voru Jóhannes Jakobsson og Petrea Guðný Gísladóttir.

Börn Þóru og Sæmundar eru: 1) Jóhannes Páll (Palli), f. 6. okt. 1958, kvæntur Sanne Thybo Sæmundsson. Sonur Palla og Alice Krupa er 1a) Bjarne Krupa. Dætur Palla og Birte Olesen eru 1b) Sara, gift Steffen Juhl Larsen. Börn þeirra eru Karla og Magne. 1c) Anna. 2) Anna, f. 13. sept. 1959, gift Kjell-Einar Ofstad. Sonur þeirra er 2a) Sigurður, kvæntur Mengke Liu. 3) Guðný Pálína, gift Vali Þór Marteinssyni. Dóttir Guðnýjar og Einars Gylfasonar er 3a) Hrefna Sæunn, gift Egil Hansen. Börn þeirra eru Erik Valdemar og Dagmar Elvíra. Synir Guðnýjar og Vals eru 3b) Andri Þór, kvæntur Freyju Hrund Ingveldardóttur. Synir þeirra eru Matthías Árni og Valur Kári. 3c) Ísak Freyr.

Hinn 18. des. 1999 giftist Þóra Ásgrími Stefánssyni húsasmíðameistara, f. 4. okt. 1923, d. 17. jan. 2014.

Þóra ólst upp á Rauðabergi en 1949 þurfti fjölskyldan aðstæðna vegna að bregða búi í sveitinni og flutti þá fyrst að Lágafelli í Mosfellssveit en síðan til Reykjavíkur. Árið 1956 settist Þóra að á Akureyri, þar sem hún átti heima í rúm 40 ár en þegar hún giftist Ásgrími flutti hún til Keflavíkur og bjó þar til dánardags.

Þóra lauk ljósmæðraprófi frá Ljósmæðraskóla Íslands 30. sept. 1956. Hún vann sem ljósmóðir á Fjórðungssjúkrahúsinu á Akureyri 1956-1957. Síðar, þegar börnin voru orðin stálpuð, vann hún við hjúkrun aldraðra á ýmsum stofnunum. Pálína móðir Þóru bjó á heimili þeirra Sæmundar og þegar heilsu Pálínu fór að hraka hætti Þóra að vinna utan heimilis og hjúkraði móður sinni og síðar eiginmanni þar til þau létust. Eftir andlát Sæmundar fór Þóra aftur út á vinnumarkaðinn og vann við fiskvinnslu í fáein ár, nokkuð sem hún gerði skemmtilega skil í grein sem hún skrifaði og fékk birta í tímaritinu Heima er bezt. Þóra tók einnig saman ævisögu Arthurs Gook trúboða og birti fyrst á bloggi sínu en gaf út í bókarformi árið 2017.

Útför Þóru Guðrúnar fer fram frá Ytri-Njarðvíkurkirkju í dag, 25. mars 2022, og hefst athöfnin kl. 13. Jarðsett verður á Akureyri.

Mig langar til að minnast móður minnar Þóru Guðrúnar Pálsdóttur sem andaðist södd lífdaga í Keflavík hinn 9. mars síðastliðinn. Hún fæddist 21. september 1926 á Rauðabergi á Mýrum í Hornafirði. Rauðaberg var einn af fjallabæjunum á Mýrum. Þaðan er útsýni vítt og fagurt á fjöll og jökla og graslendi út að sjó, en tún og engi rýr undir fjallinu og baráttan fyrir brauðinu tímafrek og erfið á litlum jarðarparti. Helstu leikfélagar mömmu voru dýrin á bænum því hún var langyngst sinna systkina og sennilega ekki farið að þarflausu á næstu bæi. Skólagangan þarna í sveitinni var bundin við farkennslu nokkrar vikur á ári og dvaldi mamma þá á bæ nálægt skólanum. Mikilvægur hluti af ættarsögunni er að móðuramma mín, Pálína Daníelsdóttir, ólst upp hjá vandalausum á Rauðabergi frá sex ára aldri, eftir að fjölskyldufaðirinn, Daníel, dó og fjölskyldunni var tvístrað eins og algengt var á þessum árum. Meðal annars vegna þakklætisskuldar við fóstru sína bjuggu Pálína og Páll, móðurafi minn, alla sína búskapartíð á Rauðabergi.

Eftir lát móðurafa míns, Páls, var búinu brugðið 1949. Mamma og Daníel bróðir hennar áttu við vanheilsu að stríða eftir að hafa sennilega fengið Akureyrarveikina svokölluðu. Amma Pálína, Daníel og mamma fluttu þá fyrst í Mosfellssveitina og síðar til Reykjavíkur. Elsti bróðir mömmu, Sigurbergur, var þá löngu fluttur til Reykjavíkur og búinn að aðstoða fjölskylduna fjárhagslega í mörg ár.

Móður mína þyrsti eftir að læra og alla ævi var hún fróðleiksfús. Í Reykjavík komst hún vetrarpart í Húsmæðraskóla Reykjavíkur og síðar komst hún inn í Ljósmæðraskóla Íslands og lauk þaðan prófi 1956. Mamma játaði trú á Jesú og var það mjög afgerandi þáttur í hennar lífi. Í Reykjavík átti hún þess kost að komast á samkomur og biblíufundi sem tengdust Sjónarhæðarsöfnuðinum á Akureyri sem trúboðinn Arthur Gook var forstöðumaður fyrir. Vegna þessarar tengingar var hún orðin kunnug Sæmundi G. Jóhannessyni og skrifuðust þau á en hvorugt hefur órað fyrir á þessum tíma að þau mundu eiga framtíð saman. Árið 1956 fluttu hún og amma Pálína til Akureyrar, að öllum líkindum fyrir tilstilli föður míns, og foreldrar mínir giftust í september 1957.

Á Akureyri bjó mamma í meira en 40 ár. Þar eignaðist hún eigin fjölskyldu og ól upp þrjú börn. Hún átti frumkvæðið að því að byggja húsið Vinaminni í Stekkjargerði og fór út á vinnumarkaðinn sem ljósmóðir og sjúkraliði þegar við systkinin fórum að stálpast. Jafnframt þessu fór hún í öldungadeild MA í íslensku, dönsku og þýsku. Aðstæður drógu hana aftur inn á heimilið þar sem hún annaðist móður sína, sem varð 100 ára, til dauðadags og síðan föður okkar sem dó níræður 1990. Eftir það fór hún aftur út á vinnumarkaðinn á sjötugsaldri og vann á Frystihúsinu á Akureyri í um það bil þrjú ár.

Sem barn og unglingur var ég ekki mikið að velta fyrir mér hverja persónu mamma hafði að geyma. Fyrir okkur sem erum svo heppin að hafa alist upp í góðu öryggi hjá foreldrum eru þeir eins og sjálfsagðir hlutir. Eftir að ég fluttist til Noregs og tók fulla ábyrgð á eigin lífi breyttist tengingin og í mínum huga varð hennar móðurhlutverk ógreinilegra en persónan Þóra steig fram og varð skýrari fyrir mér. Að sjálfsögðu er þetta frá mínu sjónarhorni. Ég fór að sjá hvernig hún gat alltaf gert það sem hún ætlaði sér. Hún var ekki hrædd við breytingar og tókst á við lífið hverju sinni samkvæmt samvisku sinni. Til dæmis var hún ekki lengi að ákveða sig að flytja frá Akureyri og fylgja Ásgrími Stefánssyni í árslok 1999 til Keflavíkur, á alveg nýjan stað. Svo var hún heldur ekkert að víla fyrir sér, áttræð, að flytja í Engjadal og fékk Ásgrím með sér í það. Að búa í kjallaranum í Stekkjargerði hjá Guðnýju og Val, eða á jarðhæð á Hringbrautinni í Keflavík, var hún ekki alls kostar ánægð með. Nei, útsýni skyldi það vera, og ég skil það mjög vel, því hún var vön víðsýninu úr sveitinni.

Hún fór ekki fram með offorsi og oftast hélt hún sig til hlés þar sem fólk var samankomið, en við sem þekktum hana vitum að hún hafði sterkan vilja. Við vorum ekki alltaf sammála við mæðgurnar og á stundum mjög ósammála, en ég skil að hún var nákvæmlega rétta móðirin fyrir mig. Fyrir utan móðurást, sem ég fékk í ríkum mæli, þá fékk ég líka að finna fyrir væntingum í minn garð og sé mjög vel núna að hún ýtti mér áfram þegar þess var þörf og það var ekki sjaldan. Fyrir uppburðarlitla stelpu, sérlega feimna unglingsstúlku og unga konu með lítið sjálfstraust voru margar hindranir í veginum en hún hafði lag á að koma mér í skilning um að ég ætti og yrði oft að fara út fyrir minn eigin þægindaramma til að geta tekið þátt í og verið stjórnandi í eigin lífi.

Hún kenndi mér margt, bæði beint og óbeint. Ég man að hún kenndi mér að lesa, sem var auðvelt. Ég minnist þess sem lítil að hafa fylgst með henni í eldhúsinu, fyrst á Sjónarhæð og síðar í Stekkjargerði, snúa kleinum, baka pönnukökur, baka flatbrauð og rúgbrauð, taka slátur og gera flestan mat frá grunni, eins og siður var úr sveitinni. Hún kenndi mér líka að prjóna og sýndi mér eins oft og ég þurfti hvernig halda ætti á prjónunum og stjórna bandinu. Hún hafði alla tíð gaman af handavinnu og virtist geta allt, hún bróderaði dúka, koddaver, púða, saumaði föt, bæði á okkur og sjálfa sig. Fallegustu fötin hennar fannst mér vera dragtir sem hún hafði saumað á sjálfa sig. Hún átti líka prjónavél og töfraði meðal annars fram nokkrar peysur úr henni. Þegar ég var að verða 13 ára var lopapeysufaraldur á Akureyri og ég spurði hvort hún vildir prjóna lopapeysu á mig. Nei, þú getur gert það sjálf, var svarið. Og það gerði ég, með aðstoð frá henni. Hún gerði alltaf ráð fyrir að við systkinin gætum klárað okkur sjálf, sem er mjög gott.

Í nokkra vetur var hún með svokallaða saumafundi fyrir stelpur í stofunni heima hjá okkur í Stekkjargerði, eldri flokk og yngri flokk. Þetta voru vinsælir fundir og hún naut sín að segja okkur til. Þessum fundum lauk síðan á kristilegri hugvekju. Enn þann dag í dag eru konur að nefna hvað þessir fundir hafi verið ánægjulegir.

Mamma var alltaf hrifin af dýrum. Palli bróðir minn var snemma gripinn gífurlegri hestadellu og 13 ára gamall keypti hann sinn fyrsta hest. Þetta varð mömmu hvatning og um það leyti sem við systkinin vorum að fullorðnast og flytjast að heiman kom hún sér upp hesthúsi í hesthúsahverfinu Breiðholti, rétt fyrir ofan Akureyri, og í nokkuð mörg ár var hún með hesthús í félagi við annan. Það voru tveir hestar í hesthúsinu ef ég man rétt og á tímabili var mamma með nokkrar hænur þar líka.

Hún hafði góða kímnigáfu sem kemur glögglega í ljós við lestur bloggsins hennar sem hún hélt úti frá 2004 til 2012. Fartölva var lengi fastur fylgifiskur hennar og hún kom auga á mátt facebook til að halda sambandi við gamla kunningja og vini.

Eftir að hafa verið ekkja í tæp 10 ár kom Ásgrímur Stefánsson inn í líf hennar. Hann var líka ekkjumaður. Þau giftust og með honum fékk mamma heila nýja fjölskyldu. Við systkinin vorum mjög glöð fyrir hennar hönd.

Ömmuhlutverkið var kannski ekki stærsta hlutverk mömmu, enda þrjú barnabörn búsett í Danmörku og eitt í Noregi, en sem betur fór þrjú á Íslandi. Ásgrímur og amma Þóra voru einu amman og afinn hans Sigurðar sonar míns og ég verð alltaf þakklát fyrir hvernig þau tóku á móti okkur og stundum Sigurði einum í árlegum sumarfríum, þar sem Stekkjargerði hjá Guðnýju og Val var aðaláfangastaðurinn til að leika við Ísak frænda.

Haustið 2013 fluttu þau Ásgrímur í þjónustuíbúð á Njarðarvöllum í Keflavík. 2014 varð mjög erfitt. Ásgrímur dó í janúar og í mars og ágúst lærbrotnaði mamma og var mjög lengi að ná sér. Eftir fjóra uppskurði og tvo nýja mjaðmarliði var mjög af henni dregið en hún gafst ekki upp heldur notaði veturinn á eftir til að þjálfa sig upp aftur. Göngugrindin varð hennar fasti göngufélagi eftir þetta og flesta daga fór hún í tvær eða þrjár gönguferðir um gangana á Njarðarvöllum og um vorið gat hún farið gangandi í Nettó til að kaupa sitt lítið af hverju.

Eftir að Ásgrímur dó held ég að henni hafi fundist sínu hlutverki í lífinu lokið. En þrátt fyrir að hún segðist vera tilbúin að fara og orðin þreytt held ég að síðustu árin hafi verið henni ánægjuleg að mörgu leyti. Frænka mín, Auður Guðvinsdóttir, og hennar maður fluttu í sömu blokk og þær höfðu gleði hvor af annarri í nokkur ár, en þær höfðu þekkst á Akureyri. Eftir lát Ásgríms héldu sonur hans, Kristinn, og tengdadóttir, Þórdís Karlsdóttir, tryggð við mömmu og mun ég vera þeim ævinlega þakklát.

Síðustu tvö og hálfa árið var hún á hjúkrunarheimilinu Hrafnistu á Nesvöllum. Þar hafði hún útsýni út yfir fallega lóð, eða tún, eins og hún kallaði það, og gat sagt mér í símanum allt fram undir hið síðasta hvernig viðraði. Þar sem ég bý í Noregi gat ég ekki sinnt henni eins vel og ég hefði viljað, það gerðu aðrir. Ég sá hana síðast í janúar og er fegin að ég gat heimsótt hana. Þá var andlegur og líkamlegur kraftur alveg á þrotum. Síðustu vikurnar naut hún góðrar umönnunar starfsfólksins á hjúkrunarheimilinu. Guðný systir heimsótti hana daglega síðustu vikuna og var hjá henni síðasta sólarhringinn þar til þessu jarðneska lífi lauk og hún fékk hvíldina.

Anna Sæmundsdóttir.