Barátta fyrir jafnrétti í fréttaflutningi löng og erfið SIGRÚN Stefánsdóttir, fjölmiðlafræðingur, flutti fyrirlestur á norrænu kvennaþingi á laugardag um hlut kvenna í fréttum, en talsvert hefur verið rætt um konur og fjölmiðla á þinginu.

Barátta fyrir jafnrétti í fréttaflutningi löng og erfið

SIGRÚN Stefánsdóttir, fjölmiðlafræðingur, flutti fyrirlestur á norrænu kvennaþingi á laugardag um hlut kvenna í fréttum, en talsvert hefur verið rætt um konur og fjölmiðla á þinginu. Í samtali við Morgunblaðið kveðst Sigrún telja æskilegt að Jafnréttisráð hafi samstarf við fjölmiðla sem ráðgefandi aðili um að auka hlut kvenna í fréttum. Sá háttur sé hafður á í ýmsum nágrannalöndum okkar því að rýr hlutur kvenna í fréttum sé ekkert séríslenskt fyrirbæri.

Konur voru viðmælendur í aðeins 8,4% útsendra fréttaviðtala Sjónvarpsins á árunum 1966 til 1986, tæp 92% viðtala í fréttatímum voru við karla. Algengast var að talað væri við konur um jafnréttismál, umönnun barna og aldraðra. Rannsókn Sigrúnar Stefánsdóttur sem gerð var fyrir ári á hlut kvenna í fréttatímum Sjónvarpsins leiðir meðal annars þetta í ljós. Aðspurðum hverjar hún telji framtíðarhorfur segir Sigrún að baráttan fyrir jafnvægi milli kynja í fréttaflutningi verði líklega löng og erfið, það séu margir ánægðir með fjölmiðlana eins og þeir eru nú. Karlar og konur sem starfi við fjölmiðla verði vitaskuld að vinna saman að auknum hlut kvenna.

"Ég vona að kvennaþingið í Osló hafi gert konur meðvitaðri, þær sætti sig ekki lengur við fjarveruna úr fréttum og taki sig saman umað veita fjölmiðlum aðhald," segir Sigrún. "Konur mega ekki leyfa sér að segja nei þegar þær eru beðnar um viðtal. Fæstir blaðamenn nenna að standa í miklu stappi til að fá konu til að segja eitthvað sem auðveldlega má fá karl til að segja. "Ég held raunar að konur geri sér grein fyrir þessu og vísi æ sjaldnar á hann Jón eða hann Sigurð.

Fréttamennska var til skamms tíma karlastarf en það hefur breyst. Hins vegar er enn notast við frétta ramma karla og honum verður aðeins breytt inni á fjölmiðlunum, með því að þeir sem þar vinna endurskoði hugtakið frétt og fyrir þrýsting utan frá. Áherslur í fréttum hljóta að breytast ef hlutur kvenna í fjölmiðlum eykst enn. Átján konur og tveir karlar hafa skráð sig á námskeið í fjölmiðlafræði sem ég sé um við Háskólann næsta vetur. Gefi þetta vísbendingu um það sem koma skal hef ég ekki ýkja þungar áhyggjur."

Dr. Sigrún Stefánsdóttir