Konur koma tvíefldar heim NORRÆNU kvennaþingi í Osló lauk síðastliðinn sunnudag og kváðust konur sem komið var að máli við ánægðar með undangengna viku.

Konur koma tvíefldar heim

NORRÆNU kvennaþingi í Osló lauk síðastliðinn sunnudag og kváðust konur sem komið var að máli við ánægðar með undangengna viku. Flestar sögðu einna eftirminnilegast að kynnast fjölda kvenna á þinginu en jafnframt hafi verið ómetanlegt að heyra og taka þátt í ýmsu því sem fram fór. Íslenskar konur koma tvíefldar heim, sagði ein þeirra sem rætt var við undir lok kvennaþingsins og eflaust geta fleiri tekið undir þau orð.

Konum var farið að fækka um helgina á ráðstefnusvæðinu og andrúmsloftið var afslappað. Margar sátu í tröppum, á bekkjum og grasflötum, ræddu síðustu daga og nutu blíðviðrisins. Nokkrar drifu í að kaupa bók eða bol handa einhverjum heima, sumar skrifuðu upp heimilisföng og símanúmer, aðrar fóru á síðasta fyrirlesturinn í þessari atrennu.

Grete Knudsen, formaður undirbúningsnefndar kvennaþingsins, sagði að eftir þingið væri sér efst í huga hve ólíkar konur hefðu komið til Osló. Mikil umræða hefði átt sér stað um ýmis mál og á stundum hefðu sjónarmið stangast á. Um helstu réttindamál kvenna hefði ríkt sterk samstaða. Konur hefðu nú í höndum sér að kynsystur þeirra sem ekki komust til Osló fyndu til þessarar samstöðu. Hver og ein færi ákveðnari en nokkru sinni til jafnréttisbaráttunnar í hvunndeginum.

Grænlenskar konur fjölmenntu á kvennaþingið í Osló. Þær vöktu mikla athygli þegar þær stigu dans, íklæddar þjóðbúningum sínum.

Konur tóku gjarnan lagið á kvennaþinginu. Hér hafa nokkrar komið sér fyrir í sólinni.