Kór Flensborgarskóla í söngför til Ítalíu KÓR Flensborgarskóla í Hafnarfirði fer um miðjan mánuðinn í söngför til Ítalíu. Stjórnandi kórsins er Margrét Pálmadóttir. Kórinn heldur tónleika einn sér og ásamt ítölskum kór.

Kór Flensborgarskóla í söngför til Ítalíu

KÓR Flensborgarskóla í Hafnarfirði fer um miðjan mánuðinn í söngför til Ítalíu. Stjórnandi kórsins er Margrét Pálmadóttir. Kórinn heldur tónleika einn sér og ásamt ítölskum kór. Tónleikar íslenska kórsins verða sýndir á dagskrá ítalskrar einkasjónvarpsstöðvar.

Að sögn Margrétar Pálmadóttur fara 32 kórmeðlimir á aldrinum 16-20 ára og tveir ungir einsöngvarar úr Söngskólanum íReykjavík, þeir Loftur Erlingsson, tenór og Aðalsteinn Einarsson, bassi, til Ítalíu og er ætlunin að dvelja þar í hálfan mánuð.

Margrét Pálmadóttir stofnaði kórinn í þeirri mynd sem hann er nú. Flensborgarskóli er fjölbrautaskóli og fá nemendur kórstarfið metið sem einingar til stúdentsprófs. Margrét stjórnaði kórnum fyrstu 5 annirnar en þá tók Hrafnhildur Blomsterberg við og stjórnaði honum í 4 ár. Margrét hóf stjórnun kórsins aftur síðasta vetur.

Kór Flensborgarskóla fór í fyrra á söngmótið "Europa Kant at" í Luzern í Sviss. Tókust þar kynni með kórmeðlimum og kór frá Subiaco á Ítalíu. Ferðinni í sumar er einmitt heitið til Subiaco og halda kórarnir tvenna tónleika saman. Íslenski kórinn heldur einnig sjálfstæða tónleika í Sant'Ignazo kirkjunni í Róm. Ítölsk einkasjónvarpsstöð mun sýna frá tónleikum kórsins í nágrenni Mílanó.

Til fjáröflunar fyrir ferðina hefur kórinn haldið tónleika og skemmtanir. Kórmeðlimir létu einnig útbúa barmmerki með skjaldarmerki Hafnarfjarðar í tilefni af 80 ára afmæli bæjarins. Kórinn hefur tekið að sér að ryð verja og mála hitaveiturör sem verið er að leggja frá Nesjavöllum.

Að ferðinni lokinni syngur kórinn á tónleikum í Kristskirkju íReykjavík. Það verða síðustu tónleikarnir með þeirri efnisskrá er flutt verður á Ítalíu.

Margrét Pálmadóttir söng í Kór Öldutúnsskóla í 10 ár. Hún stundaði söngnám við Tónlistarskólann í Kópavogi, Söngskólann íReykjavík og Tónlistarháskólann í Vínarborg. Margrét lærði einnig söng í eitt ár á Ítalíu. Sumarið 1986 fór hún með Skólakór Seltjarnarnes til Ítalíu og fékk kórinn mjög jákvæða gagnrýni.

Margrét Pálmadóttir stjórnandi kórs Flensborgarskóla.

Morgunblaðið/Árni St. Árnason

Frá tónleikum kórsins í júní síðastliðnum en þar söng kórinn ásamt einsöngvurum við undirleik strengjakvartetts og orgels.