Eignir lífeyrissjóðanna: 2-4% ávöxtun nægir að mati tryggingarfræðinga ­ segir Hinrik Greipsson, fulltrúi í stjórn Eftirlaunasjóðs Útvegsbankans ÞÓ nú sé hávaxtatímabil hef ég ekki séð ástæðu til þess að eltast við það þar sem tryggingafræðingar hafa...

Eignir lífeyrissjóðanna: 2-4% ávöxtun nægir að mati tryggingarfræðinga ­ segir Hinrik Greipsson, fulltrúi í stjórn Eftirlaunasjóðs Útvegsbankans

ÞÓ nú sé hávaxtatímabil hef ég ekki séð ástæðu til þess að eltast við það þar sem tryggingafræðingar hafa talið 2-4% ávöxtun á eignum lífeyrisssjóðanna nægja fyrir skuldbindingum þeirra," sagði Hinrik Greipsson, fulltrúi starfsmanna í eftirlaunasjóði Útvegsbankans, en í Morgunblaðinu fyrir helgi er skýrt frá því að nokkuð sé mismunandi hvaða vexti lífeyrissjóðirnir taka af verðtryggðum lánum, þó flestir þeirra taki meðalvexti bankanna, sem hafa verið 9,5% á þessu ári. Lífeyrissjóðir Landsbanka og Seðlabanka, Úvegsbanka, Búnaðarbanka og Verkfræðingafélagsins hafa tekið 3,5% vexti, en Eftirlaunasjóður Búnaðarbankans hækkaði vexti sína í 5% 1. júlí síðastliðinn.

"Mér finnst það eins og að hengja bakara fyrir smið að hækka vexti hjá þeim sem hafa fengið verðtryggð lán vegna hinna sem fengu óverðtryggð lán úr sjóðunum og fengu lánin niðurgreidd að segja. Þeir sem fengu lán fyrir 10-15 árum eru komnir nær eftirlaunaaldrinum og ég hef því ekki séð knýjandi ástæðu til þess að hækka vextina," sagði Hinrik aðspurður um þá röksemd að sjóðirnir væru að bæta sér upp það tap sem varð þegar lífeyrisfé var óverðtryggt til þess að koma þurfi til minni skerðingar lífeyris.

Hann sagði að eftirlaunasjóður Útvegsbankans hefði fylgt ríkisbönkunum í ákvörðunum um vexti, en undanfarið hefði ríkt óvanalegt ástand í sjóðnum, þar sem ekki hefði verið skipað í stjórn hans eftir stofnun Útvegsbankans hf.

Sigtryggur Jónsson hjá eftirlaunasjóði Landsbanka og Seðlabanka sagði að ýmsar ástæður væru fyrir því að sjóðurinn hefði ekki tekið hærri vexti en 3,5%. Hins vegar væru þessir vextir nú til endurskoðunar. Ekki væri enn ljóst hver niðurstaða þeirrar endurskoðunar yrði, en sér þætti ekki ólíklegt að vextirnir ættu eftir að breytast innan tíðar. Aðspurður um hvort lífeyrissjóðurinn þyrfti ekki háa vexti til þess að skerðing lífeyris yrði minni en ella vegna áranna áður en verðtrygging gekk í gildi, sagði hann að ekki hefði reynt á það ennþá. Hann benti á að sjóðsstjórnir væru ekki bundnar af þvíað taka hámarksvexti. Hugsanlega væri hægt að líta á þetta sem kjaraatriði og önnur verðbréfakaup gætu vegið upp á móti þessum lágu vöxtum til sjóðfélaga. Það hefði þótt eðlilegra að fara þá leið, en vera með vexti á lánum til sjóðfélaga í hámarki.

Kjartan Páll Einarsson hjá eftirlaunasjóði Búnaðarbankans sagði að vextir sjóðsins á lánum til sjóðfélaga hefðu verið hækkaðir 1. júlí í 5% og sú ákvörðun yrði endurskoðuð aftur eftir 5-6 mánuði. Það færi eftir hvað gerðist í vaxtamálum á næstu mánuðum, hvort þeir vextir giltu áfram eða yrðu hækkaðir frekar. Hann sagði að þessir sjóðir hefðu staðið mjög vel miðað við marga aðra í gegnum árin og félagar þeirra nytu ákveðinna hlunninda, þar sem lánin hefðu ekki fylgt öðrum lánum. Sjóðir ríkisbankanna hefðu haft með sér samvinnu hvað varðaði útlánareglur og vexti þangað til nú að sjóður Búnaðarbankans hefði ekki talið sig geta beðið lengur með að hækka vextina eitthvað.