Rafþéttar með eiturefninu PCB: Átta tonn flutt utan til Bretlands í vikunni ÁTTA tonn af rafþéttum með eiturefninu PCB verða flutt utan til Bretlands í þessari viku en í Bretlandi verður þeim eytt.

Rafþéttar með eiturefninu PCB: Átta tonn flutt utan til Bretlands í vikunni

ÁTTA tonn af rafþéttum með eiturefninu PCB verða flutt utan til Bretlands í þessari viku en í Bretlandi verður þeim eytt. Alls er hér um 123 rafþétta að ræða sem safnað hefur verið saman víða af landinu. Nú er unnið að heildarúttekt á fjölda rafþétta og spennubreyta með PCB hérlendis og á því verki að vera lokið í næsta mánuði.

Í haust er síðan von á reglugerð frá heilbrigðisráðuneytinu þar sem innflutningur og notkun á rafþéttum og spennubreytum sem innihalda PCB verður bönnuð. Birgir Þórðarson hjá Hollustuvernd ríkisins segirað allir rafþéttar og spennubreytar sem finnist verði sendir til Bretlands til eyðingar. Mörg lönd banna nú þegar innflutning á þessum hlutum, þar á meðal Svíþjóð, en flestir þeirra hluta sem til eru hérlendis eru frá sænska fyrirtækinu ASEA.

Sem kunnugt er af fréttum Morgunblaðsins uppgötvaðist snemma í vor að eiturefnið PCB Askarell er notað víða í raforkuvirkjunum hérlendis. Efni þetta er mjög hættulegt þó í litlu magni sé ef það kemst í snertingu við hörund eða brennur. Við bruna myndast af því lífshættulegar eiturgufur. Efnið sest aðallega í fituvefi líkamans en einnig í lifur og heila og er það flokkað sem krabbameinsvaldandi.

Slys varð á Neskaupstað snemma í vor þar sem PCB kom við sögu. Olía sem inniheldur efnið fór í höfnina þar og tveir menn urðu fyrir eituráhrifum. Efnið eyðist ekki í náttúrunni og getur valdið alvarlegri umhverfismengun.

Sem fyrr segir er nú unnið að heildarúttekt á útbreiðslu rafþétta og spennubreyta sem innihalda PCB, en þessir hlutir hafa fundist á þremur öskuhaugum á Austurlandi.