Hrafnborg Guðmundsdóttir Hún Bogga frænka er dáin. Við fréttina var sem köld hönd læsti sigum mig alla. Söknuðurinn er sárari en orð fá lýst. Mig langar til að minnast elsku Boggu með fáeinum orðum. Það er næstum því sama hvað ég rifja upp varðandi uppvaxtarárin á Akureyri, Bogga er alltaf inni í myndinni. Hún lét sér mjög annt um okkur systurnar og það leið varla sá dagur að við sæjum hana ekki. Okkur þótti óendanlega væntum hana. Hún gætti okkar, hún huggaði okkur og hún tuktaði okkur líka til þegar þess var þörf. Hún sat stundum heilu dagana og saumaði föt á brúðurnar okkar. Brúðurnar fóru í "pössun" til hennar í nokkra daga og komu svo heim aftur ásamt fullri tösku af nýjum fötum.

Ég man, að alltaf þegar hún kom heim í Byggðaveginn og fékk sér kaffisopa í eldhúsinu, fannst mér hún alltaf fylla herbergið - húnvar svo sterkur og mikill persónuleiki.

Bogga var sú fölskvalausasta manneskja sem ég hef kynnst. Húnvar alltaf hrein og bein og sjálfri sér samkvæm. Þess vegna var alltaf svo gott að leita til hennar og margur vandinn var farsællega leystur við eldhúsborðið í Austur byggðinni. Bogga hafði mjög góða kímnigáfu og hún hló oft hátt og mikið svo tárin streymdu úr augunum. Þessi smitandi hlátur kom öllum í gott skap. Oft gerði hún í þvíað stríða okkur systrunum og þegarhún sá að við vorum orðnar vondar þá skellihló hún svo innilega að það var ekki hægt annað en hlæja líka.

Bogga var mjög frændrækin og ræktarsöm. Hún sleppti ekki af okkur systrunum hendinni þó við flyttum allar hver á sitt landshorn ið. Hún hringdi alltaf í okkur eingöngu til að athuga hvort ekkiværi nú allt í lagi hjá okkur og hvernig okkur gengi í hinu daglega amstri. Hún var börnunum okkar einstaklega góð og þegar þau áttu afmæli þá átti hún það til að senda þeim kveðju í útvarpinu ásamt einhverju uppáhaldslagi.

Bogga var verðug fyrirmynd. Hún kenndi mér margt um lífið sjálft og tilveruna. Hún réð mér alltaf heilt. Því sem hún kenndi mér mun ég svo miðla áfram til barnanna minna, því þar er gott veganesti. Þannig munu þau líka kynnast henni þó hún sé nú farin frá okkur.

Ég mun varðveita vel dýrmætar minningar um þessa glæsilegu og dásamlegu konu.

Ég trúi því, að Bogga frænka mín sé nú komin á æðra tilverustig þar sem henni líður vel.

Ég þakka henni fyrir allt og bið algóðan Guð að styrkja Halla og börnin í þeirra djúpu sorg.

Blessuð sé minning hennar.

Eva