Ólafur Jóhann Sigurðsson Mig setti hljóðan þegar mér voru borin þau tíðindi nýkomnum heim úr stuttu fríi, að vinur minn, Ólafur Jóhann Sigurðsson, hefði dáið snögglega daginn áður. Ég hafði talað við hann skömmu áður en ég fót utan og fundist hann þá bæði glaður og reifur þrátt fyrir veikindi fyrr í sumar.

Einhvern veginn hafði ég átt voná því að hann læsi mér nokkur ljóð til viðbótar áður en langt um liði. Þetta var að vísu einungis óljóst hugboð, en ekki fyrirheit af hans hálfu. Hins vegar vissi ég fullvel að við höfðum ekki ennþá komið því í verk að róa út í Viðey eins og til stóð, njóta kyrrðar og náttúrufegurðar innanum fuglana og skoða húsin hans Skúla.

Ólafur Jóhann unni náttúru landsins af meðfæddu næmi, og mér er til efs að til séu í íslenskum bókmenntum fegurri lýsingar á landi og gróðri, fugli og veðri, en þær sem hann samdi og segja fráleit sögupersónanna að sjálfum sér og dýpstu rökum tilverunnar á kjarrivöxnum árbakka. Stundum fannst mér jafnvel þegar ég var að lesa þessa kafla, að lýsingarnar væru svo fíngerðar og næmar, að það væri engu líkara en höfundurinn væri að hvísla þessu að sjálfumsér.

Þegar ég hugsa til baka var það einskær tilviljun sem réð því að ég kynntist skáldskap Ólafs Jóhanns. Ég lá rúmfastur eftir óhapp á leiksviðinu og bað tengdapabba blessaðan að lána mér nú góða bók tilað stytta mér stundirnar í rúminu. Hann færði mér Ljósa daga. Þegar henni lauk las ég hverja bókina á fætur annarri og í rauninni varð ég dálítið undrandi á því, hvernig höfundur á borð við Ólaf Jóhann hefði getað farið fram hjá mér tilþessa. Ég heillaðist af skáldskapnum, jafnt mannúðarstefnu höfundar og kærleika sem meitluðum stílnum og nákvæmni í orðavali.

Þegar ég tók að venja komur mínar á heimili þeirra Önnu við Suðurgötu skömmu síðar, í fyrstu til að þiggja ráð áður en ég byrjaðiað lesa sögu í útvarp, kynntist ég manninum á bak við sögurnar. Hvert sem umræðuefnið var voru skoðanir Ólafs Jóhanns jafnan mótaðar af mikilli skarpskyggni en jafnframt þeirri sanngirni sem honum var í blóð borin, og sannleiksást hans var svo sterk, að stundum fannst mér engu líkara en að baki höfundar byggi gjörhugull vísindamaður. Ekki svo að skilja að ræða hans hafi verið mótuð af eintómum alvöruþunga. Það var nú öðru nær. Hann gat verið skemmtileg hermi kráka ef því var að skipta og ég minnist þess að hann kallaði nýrna steinana, sem gerðu honum marga skráveifuna, hinum spaugilegustu nöfnum með viðeigandi titlatogi og brosi á vör.

Í lokakaflanum í Hreiðrinu, þegar Loftur Loftsson rithöfundur bíður dauðans, sendir Ólafur Jó hann sögumanninn út á svalir í næturkulinu undir tindrandi stjörnur í "hringsalnum bláa" til þess að hugsa þar um meistara sinn og vin. Í þessum hringsal, sem hefur verið fyrirmynd margra byggingameistara gegnum aldirnar, geymum við nú minninguna um Ólaf Jóhann, sem við söknum sárt, og huggum okkur við það, að um "salinn bláa snúast glaðar stjörnur".

Við Valgerður sendum Önnu, sonunum og fjölskyldum þeirra okkar dýpstu samúðarkveðjur.

Þorsteinn Gunnarsson