Ólafur Jóhann Sigurðsson Þegar Ólafur Jóhann Sigurðsson er nú kvaddur á braut, einn af snillingum íslenskra skáldmennta á okkar dögum, verður þeim sem eftir hann skal mæla tregt að velja orð við hæfi. Stórt er það skarð sem slíkur maður lætur eftir sig. Þeim hugblæ sem óhnikanleg návist dauðans vekur í brjóstum okkar hefur hann sjálfur lýst með sínum nærfærna og skáldlega hætti. Ljóðið stendur í bókinni Að laufferjum og heitir Gamlar vísur um blóm:

Undir dumbrauðum kvöldhimni drúpir eitt

blóm

með daggir á hálfvöxnum fræjum.

Og senn kemur haustnótt á héluðum skóm

og hjúpar það svalköldum blæjum.

Því veðrið er annað en var hér í gær

og vorið og sumarið liðið.

Hinn nafnlausi brunnur mun niða þér fjær,

hitt nálgast sem fyrir var kviðið.

Þú hræðist ei lengur þinn hlut og þinn dóm,

en hjarta þitt glúpnar og viknar:

Undir dumbrauðum kvöldhimni drúpir eitt

blóm,

- það deyr kannski í nótt og bliknar.

Ólafur Jóhann sótti skáldmál sitt einatt til náttúrunnar. Brunnur, uppspretta var tíðnotað tákn hjá honum og stóð fyrir æskuna, hið upprunalega og óspillta. Andspænis þessu var eyðing, hrörnun, helvegur jafnt í bókstaflegum sem óeiginlegum skilningi. En dauðinn kemur til manna með ýmsu móti. Ólafur Jó hann dó óbugaður og hafði skilað miklu starfi, trúr hinu besta í erfð lands, þjóðar og tungu sem vinur hans og skáldbróðir kvað um. Í söknuð okkar blandast þakklætis kennd að hafa átt hann og eigaverk hans sem geyma hug hans og tilfinningu, skynjun á öld sinni og umhverfi.

Á kveðjustund er mér annað ofar í hug en að rekja skáldferil Ólafs Jóhanns og leggja mat á ritverk hans og stöðu í bókmenntasögunni. Aðeins skal á það minnt að þótt hann væri ungur dreginn í dilk róttækra höfunda sem svo voru nefndir var hann umfram allt vörslumaður hefðar í ljóðum og lausamálsbókmenntum, stóð á klassískum grunni. Hann var í eðli sínu framar öðru ljóðrænt skáld en lengi vel þekktastur af skáldsögum sínum og smásögum. Ljóðgáfa hans bar ekki fullan blóma fyrr en eftir miðjan aldur og varð þá til að vekjaathygli umheimsins á honum svoað um munaði þegar hann hlaut bókmenntaverðlaun Norðurlandaráðs fyrstur Íslendinga sem alkunna er. Eftir það sá Alþingi loks sóma sinn í að skipa honum til þess sætis á bekk öndvegislistamanna sem hann hafði löngu unnið til.

Allt þetta er lesendum Ólafs vel kunnugt enda þótt enn hafi ekkiverið gerð sú úttekt á verkum hans sem þyrfti og mun verða gert þegar unnt verður að horfa yfir sviðið í meiri heiðríkju en nú. Þá mun hlutur Ólafs verða þyngri á metunum en ýmsir vilja vera láta. Í dag vil ég aðeins sem gamall lesandi og síðar persónulega kunnugur votta honum virðingu mína og þökk fyrir allt sem ég á honum upp að inna.

Eins og flestir aðrir kynntist ég bókum Ólafs Jóhanns fyrst í barnaskóla: Við Álftavatn og Um sumarkvöld voru meðal fyrstu lesbóka okkar. Enn í dag er nafn fyrri bókarinnar umlukt sérstökum töfrum í vitund minni þótt ég muni fátt úr henni. Síðan liðu ár. Ég las eða heyrði söguna um hengilásinn þarsem segir frá feimna drengnum semfór út í heim og fargaði auðlegð sinni fyrir fánýti, - sjaldan hef ég lesið sorglegri sögu, þar er hárfínt jafnvægi hins broslega og átakanlega. Eða smiðurinn Friðmundur Engiljón sem lofaði ungum sveini að reisa fyrir hann píramída en kenndi honum um leið lexíu um tildur sem reist er á mannlegri kvöl, þetta er saga sem angar í vitum af hefilspónum smiðsins. En ekkert jafnaðist á við þá opinberun að lesa á næmu skeiði söguna um litbrigði jarðarinnar og fyrstu ást ungs pilts: þarna var því öllu lýst sem bærðist innra með manni sjálfum! Eftir þetta var ég ekki í vafa um að þar héldi á penna galdramaður að skyggna mannleg hjörtu. Og svo málið, framsetningin! Annað eins hunang var ekki oft á borðum.

Ólafur Jóhann þagnaði að mestu sem höfundur um langt árabil, eftirað Gangvirkið kom út 1955. Tíu árum síðar birti hann litla bók, Leynt og ljóst sem ég las í menntaskóla. Þar var hin hálistræna saga Bréf séra Böðvars sem var auðvitað of fáguð til að menningarvitar og gagnrýnendur þeirra ára veittu henni athygli innan um nasablástur annarra höfunda um sömu mundir. En árið 1972 bar heldur en ekkitil tíðinda. Þá komu þrjár bækur frá hendi Ólafs, skáldsagan Hreiðrið, uppgjör hans við samtíð sína, safn af smásögum frá æskuárum, og svo ljóðabókin Að laufferjum sem mér hefur þótt vænst um af ljóðabókum hans. Nú var Ólafur Jóhann sá höfundur sem dró að sér mesta athygli. Skoðanir voru að vísu skiptar um Hreiðrið eins og vonlegt er um andófsbók af því tagi. Næstu ár urðu frjó, Ólafur orti meira af ljóðum og tók nú tilvið framhald bálksins af Páli Jónssyni blaðamanni á fimmta áratugnum, verk sem geymir rækilega lýsingu á íslensku þjóðfélagi þegar holskefla stríðs og hernáms reið yfir. Þetta er stærsta ritverk Ólafs, þriðja og síðasta bindið, Drekar og smáfuglar, sexhundruð síður. Ég veit að hann gekk nærri sér til að ljúka verkinu. Síðustu ár var hannmeð sögu í smíðum sem mun hafaverið langt komin og töluvert af ljóðum mun hann hafa átt í handr aða.

Ég kynntist Ólafi Jóhanni persónulega í þann mund sem síðasta skeið ritferils hans var hafið með Hreiðrinu og Að laufferjum.

Mér hafði verið sagt að Ólafur væri hlédrægur og blandaði geði við fáa. Satt mun það hafa verið. En þeim mönnum sem hann batt vináttu við var hann tryggur og hlýr í þeli. Hann var líka býsna opinskár, lá ekki á skoðunum sínum og sagði frá ýmsu í sambandi við höfundarferil sinn sem fróðlegt varað kynnast. Ég minnist margra símtala og góðra stunda á Suðurgötu 15 hjá þeim hjónum, Önnu og Ólafi. Við Gerður sendum Önnu einlæga samúðarkveðju og þökk fyrir vinsemd alla.

Stundum er sagt að persónuleg kynni af listamönnum smækki þá í vitund samferðamanna. Listamaðurinn reynist þá lágreistari í hugsun en verkin gefa til kynna, sjálfbirg ingslegur, hégómagjarn, öfundsjúkur í garð starfsbræðra eða haldinn öðrum mannlegum ágöllum sem listamannslundin magnar upp svo þeir stinga í augu. Þetta átti ekkivið Ólaf Jóhann. Hann var manna grandvarastur og skrumlaus, ekkert var honum fjær en hefja sjálfansig með lágkúrulegu narti í garð annarra. Vissulega angraði hann margt í umhverfi sínu. Sumt í bókmenntum samtímans var honum mjög andstætt eins og Hreiðrið ber með sér. Í verkum yngri höfunda leitaði hann fyrst og fremst þeirrar mannúðar sem hann taldi æðsta boð skálda. Hann var nokkuð einstrengingslegur en jafnan sjálfum sér samkvæmur.

Ólafur Jóhann hafði orðið fyrirmiklum pólitískum vonbrigðum en trúnni á bræðralagshugsjón sósíalismans vildi hann aldrei sleppa. Siðferðilegur slappleiki samtíðarinnar var eitur í beinum hans. Hann var ofurviðkvæmur maður og auðsærð ur, tók margt nærri sér sem aðrir létu ekki á sig bíta. Vandlæti hans, nákvæmni og kröfuharka við sjálfan sig var honum fjötur um fót. Oft talaði hann um hve torvelt væri að semja, hvíldarlaust erfiði og álag. Til að rísa undir því varðhann að einangra sig. Í rauninni var hann alltaf sá feimni sveitadrengur sem kom úr Grafningi tilReykjavíkur á kreppuárunum til að gerast rithöfundur.

Slíkum manni hlýtur oft að líða miður vel í samfélagi þykkskinn unganna. En hann átti sér heim sem aldrei féll fölskvi á, auðugt innra líf, verðmæti sem urðu honum því dýrmætari sem lengra leið. Til þeirra leitaði hann aftur og aftur í verkum sínum, þar fann hann ró og samræmi sem hin áreitnisfulla og sundraða samtíð megnaði ekkiað veita:

Þú veist að vötn eru tærust

þegar veður kólna um haust,

sú uppspretta svölust allra

sem undan klaka braust.

Ó finnist sá blikandi brunnur,

þá bergir þú endalaust.

Þökk sé Ólafi Jóhanni fyrir það sem hann gaf í lífi sínu og list. Blessun okkar fylgir honum á huldar slóðir.

Gunnar Stefánsson