Ásta Sigvaldadóttir Jónsson ­ Minning Fædd 10. maí 1911 Dáin 31. júlí 1988 Brotið er blað birta dvín reikar árroði rís ekki sól. Verður svo veröld í vina-augum er harmþrungnir horfa að hinsta beði. (Jenna Jensdóttir) Þetta er upphaf að ljóðlínum er urðu til eftir andlát Péturs Jónssonar læknis á Akureyri, eiginmanns Ástu Jónsson, en hann varð bráðkvaddur í miðjum önnum dagsins á heimili þeirra í mars 1988 - 67 ára að aldri.

Þeir Akureyringar sem nú eru komnir um og yfir miðjan aldur muna eflaust vel þessi glæsilegu hjón og ágætu manneskjur, sem eyddu ómældum starfstíma saman í að lina þjáningar meðbræðra sinna og reynast þeim sem best. En Ásta aðstoðaði Pétur jafnan við þær að gerðir er hann framkvæmdi á lækn isstofu sinni á þeim tíma. Hjálpsemi hennar, skilningi og alúð var viðbrugðið. Heimilið var stórt - fimm strákar glaðir og fyrirferðarmiklir, mannvænlegir og geislandi af lífsfjöri.

Sorgin gleymir engum. Sturla sonur þeirra hjóna lést af slysförum 1949 aðeins sex ára að aldri. Sjötti sonurinn, Pétur Stefán, bættist í hópinn þeirra árið 1950 - en einnig hann lést af slysförum 1974, sex árum eftir andlát föðurins. Það sló ekki fölva á þá reisn er var yfir Ástu alla tíð. Hún tók þungbæru mótlæti af stórmannlegu lundarfari, sem einkenndist af æðruleysi og viljastyrk í því að sætta sig við hið óviðráðanlega. Og því naut hún þess að sjá synina sem eftir lifðu mannkosta- og athafnamenn, sem ásamt fjölskyldum þeirra færðu henni mikilvægari lífshamingju en ég held þá gruni.

Ásta var gáfuð kona. Hún var víðlesin, vel að sér og rökföst í skoðunum. Mörgum stundum eyddum við í samræður um orðsins list og lífsins framvindu. Kær vinkona er horfin sjónum. Eftir lifir allt hið góða í fari hennar, er hún miðlaði svo ríkulega samferðamönnum sínum af innsæi og lífsreynslu. Það vissu þeir er þekktu hana best.

Innilegar samúðarkveðjur sendum við hjónin sonum hennar, tengdadætrum og barnabörnum öllum. Blessun fylgir minningu góðrar konu sem nú er kvödd í hinsta sinn.

Jenna Jensdóttir