Hrafnborg Guðmundsdóttir ­ Minning Fædd 9. september 1938 Dáin 31. júlí 1988 Sunnudaginn 31. júlí sl. andaðist á Landspítalanum Hrafnborg Guðmundsdóttir eftir erfiða sjúkdómslegu. Með henni féll í valinn sérstakur persónuleiki sem lengi verður minnisstæður þeim er til þekktu.

Foreldrar Hrafnborgar voru Guðmundur húsasmíðameistari Tómasson Pálssonar frá Bústöðum í Skagafirði og kona hans Ragna Lúðvíksdóttir Kemp verkstjóra og skálds er lengi bjó á Illugastöðum í Laxárdal.

Þau fluttu til Akureyrar upp úr 1930 og varð Guðmundur, svo sem bræður hans, dugandi iðnaðar- og athafnamaður í bænum.

Bogga var þriðja í aldursröð sex systkina, fædd 9. sept. 1938, og skorti því nokkrar vikur upp á að hún næði fimmtugsaldri. Hún ólst upp í foreldrahúsum og að loknu venjulegu unglinganámi gegndi hún ýmsum störfum hér á Akureyri, bæði við verslun og á símstöðinni. Eftir verslunarnám í Liverpool í Englandi kom hún heim og aðstoðaði við fyrirtæki föður síns, Kex verksmiðjuna Lorelei, eftir að heilsu hans fór að hraka.

Hún kynntist ung að árum efnispilti, Pétri Hólm, nýstúdent frá Hrísey, og varð það henni mikið áfall að missa unnusta sinn þegarhann fórst, ásamt Stefáni bróður sínum, í flugslysi á Vaðlaheiði í ársbyrjun 1959.

En engin ský eru svo dimm að sólin fái þar ekki brotist í gegn um síðir. Bogga kynntist Haraldi Val steinssyni bankafulltrúa á Akureyri og reyndist hann hinn traustasti eiginmaður, sem mat kosti hennarað verðleikum. Hann hafði einnig orðið fyrir þeirri sáru lífsreynslu að missa maka sinn, Valgerði Valtýsdóttur, eftir stutt hjónaband og mun þetta mótlæti beggja hafa bundið þau enn traustari böndum skilnings og ástríkis. Syni þeirra Valgerðar og Haralds, Heimi, reyndi Bogga eftir mætti að komaí móðurstað.

Haraldi og Boggu varð fjögurra barna auðið, elst er Halla Valgerður, þá Guðmundur Pétur, Valsteinn og yngst er Ragna, nú 14 ára.

Árið 1979 fluttu þau til Ísafjarðar, þegar Haraldi var falið þar starf útibússtjóra Landsbankans. Þau undu hag sínum vel vestra, en eftir 7 ára dvöl þar flutti fjölskyldan tilReykjavíkur er Haraldur hóf störf í aðalbankanum. En Bogga vann í hlutastarfi við útvarp Rásar 2 og fór hún oft vinsemdarorðum um samstarfsfólkið þar.

Á saknaðar- og kveðjustundu hrannast upp í minningunni skyndimyndir margra ánægjulegra stunda með henni og fjölskyldunni.

Á Akureyrarárum þeirra var nær daglega samgangur milli fjölskyldna okkar, og oft var þá slegið á létta strengi yfir kvöldkaffinu, og ógleymanlegar verða mér skemmtilegar orðaskilmingar við mágkonu mína um hin margvíslegustu málefni, þegar hvort okkar stóð fast á sinni "réttu skoðun" og hvorugt vildi láta sinn hlut. Makar okkar skemmtu sér hið besta og ætíð var skilið í fullri vinsemd. Börn okkar Elsu gengu þar um garða sem þau væru heima hjá sér og ætíð sýndi Bogga þeim skilning og þolinmæði, en einnig hæfilegar ábendingar, þegar ærslin keyrðu úr hófi fram.

Hún var ör á hrós og viðurkenn ingarorð þegar vel var gert, en húnhafði einnig til að bera þá hreinskilni og einurð að tjá skoðanir sínar, hverjum sem var, umbúðalaust, í trausti þess að menn virtu sannleiksgildi orða hennar. Sú festa og myndarskapur sem henni lærðist í foreldrahúsum var síðar einkennandi í fari hennar. Ræktarsemi og vinsemd við unga sem aldna í fjölskyldunni var henni ofar öllu öðruog ættfræðispjall við eldri kynslóðina var henni ávallt ánægjustund.

Þegar tíminn hefir dregið úr sárustu sorgum og trega, munum viðsem til þekktum ávallt geyma í hugskoti okkar hugljúfa minningu um konu sem ætíð bar með sér góðvild, skilning og hjálpsemi.

Megi sá er öllu ræður styðja og styrkja Harald, börn þeirra, móður hennar, og annað skyldulið á þessari sorgarstundu.

Haraldur Sigurðsson