Sigursteinn Jósefsson fæddist 11. apríl 1946 í Reykjavík. Hann lést 30. september 2022 í faðmi fjölskyldunnar á gjörgæsludeild Landsspítalans.

Foreldrar hans voru Jósef Jón Sigurðsson, f. 18.12. 1918, d. 27.4. 1991, og Kristín Þórhildur Guðbrandsóttir, f. 15.5. 1922, d. 30.10. 2010. Systkini Sigursteins eru Arnór Jósefsson, Reynir Jósefsson, Ólafur Jósefsson og Arndís Jósefsdóttir. Eftirlifandi eiginkona Sigursteins er Ólöf Heiða Hilmarsdóttir, f. 30.12. 1948, dóttir hjónanna Hilmars Guðmundssonar, d. 26.1. 2004, og Sigrúnar B. Ólafsdóttur, d. 1.9. 2010. Börn Þeirra eru a) Hilmar Rúnar Sigursteinsson, f. 10.10. 1965, bifvélavirki, eiginkona hans er Helga Guðbjörg Skúladóttir. Saman eiga þau Ólöfu Helgu, fyrir á Hilmar Sigurstein Sverri og Ívar Andra. Sambýliskona Sigursteins Sverris er Sylvía Karen Másdóttir. Börn þeirra eru Karen Eva og Hilmar Atli. Sambýliskona Ívars Andra er Andrea Ýr Ómarsdóttir og eiga þau dótturina Emilíu Ósk. Fyrir á Helga synina Helga, Hilmar Skúla og Heimir Ólaf. B) Sigrún Kristín Sigursteinsdóttir, f. 27.3. 1971, maki hennar er Jóhann Ólafur Benjamínsson, dóttir þeirra er Inga Lind Jóhannsdóttir. C) Arndís Birta Sigursteinsdóttir, f. 30.5. 1983, íþróttafræðingur.

Fyrstu árin bjó Sigursteinn við Miklubraut á móts við Klambratún. Hann flutti í Mosgerði 14 árið 1954 en þar bjó hann með foreldrum sínum og systkinum og bjó þar þangað til að hann kynntist Ólöfu Heiðu. Sigursteinn fór einnig í sveit í Hjarðarholt í Dalasýslu hjá Þórði, Hjalta og Ingu móðursystur sinni sem hann kallaði alltaf fóstru sína. Sigursteinn var menntaður bifvélavirkjameistari frá Iðnskólanum í Reykjavík og starfaði hjá Slippnum, Díselvélum, Gunnari Ásgeirsyni, Velti og síðar Brimborg, bæði sem bifvélavirki og sölumaður. Síðustu ár vann hann hjá Barka ehf. en lét þar störfum fyrir nokkrum árum síðan vegna aldurs. Hann giftist Ólöfu eiginkonu sinni 7. apríl 1966. Þau hófu búskap sinn í Hraunbæ 198 og bjuggu þau þar þangað til árið 1974 en þá fluttu þau í Fögrubrekku 33 sem Sigursteinn byggði á sínum tíma. En þar bjuggu þau allan sinn búskap. Sigursteinn átti jörð með bræðrum sínum, Hjarðarnes á Kjalarnesi, en þar undi hann sér vel alla tíð og stundaði þar heyskap ár hvert. Hann gekk því oft undir viðurnefninu bóndinn í Hjarðarnesi. Hann var mikill hestamaður áður fyrr en nú síðustu ár var hann hættur að stunda hestamennsku. Hann var mikill dýravinur og var duglegur að sinna hundum barna sinna, þeim Erró og Pjakki, og fengu þeir oft að fara í bíltúr með afa sem þeir höfðu allir gaman af.
Útförin fer fram frá Digraneskirkju í dag, 12. október 2022, klukkan 15.




Elsku pabbi minn, mikið sárt ég sakna þín. Þú varst minn klettur og fyrirmynd. Við eigum eftir að sakna heimsóknanna þinna í Löngubrekkuna hvort sem var í pönnukökur, kleinur, kjötsúpu eða bara í spjall. Því þú varst jú næstum hjá okkur daglega. Einstakur maður, góðhjartaður, trúr sjálfum þér, fjandi þrjóskur en með húmor og alltaf til staðar ef einhver þurfti á hjálp að halda og einstakur vinur, máttir hvergi aumt sjá þá varst þú alltaf mættur fyrstur manna. Þú gast alltaf frætt okkur systkinin um frændfólk og skemmtir þér mikið yfir Íslendingabók í leit að týndum frænkum og frændum. Akandi um allan bæ í heimsóknum kvölds og morgna. Því að nógan tíma hafðir þú eftir að þú hættir að vinna. Þú kenndir mér að keyra traktor, aka bifreið og að sjálfsögðu að bakka með kerru. Og allt sem fylgdi því að eiga og reka bíl. Þú gerðir upp minn fyrsta bíl. Sem ég keypti þegar ég var 16 ára. Þú varst alltaf til staðar og komst hlaupandi ef mann vantaði aðstoð. Þú varst laghentur með öllu og gast reddað öllu milli himins og jarðar, það var alltaf best að byrja að spyrja pabba því þú varst með svör við öllu. Ég hef alltaf haft mjög gaman af því að hitta fólk sem þekkti þig áður fyrr því það lýsti þér alltaf sem höfðingja miklum og gæðablóði og þá varð ég ennþá stoltari af því að vera dóttir þín. Þú varst fréttafíkill mikill, þurftir alltaf að horfa á allar fréttir hvort sem var í útvarpi, RÚV eða á Stöð2 og gerðum við mikið grín að því að þú værir alltaf að horfa og hlusta á sömu fréttirnar aftur og aftur. Þú hefur gengið Jóa mínum í föðurstað og þið gátuð rætt og þrætt allt milli himins og jarðar og höfðuð líka sama áhugamál, bíla, og tókuð þið gjarnan rúnt um bæinn að skoða bíla og vélar því jú báðir höfðuð þið gaman að skoða tæki og tól og spjalla. Það hefur líka alltaf verið sérstakt samband á milli þín og Ingu Lindar og veit ég að það á eftir að taka langan tíma fyrir hana að venjast því að geta ekki kíkt til afa eða bara hringja í þig og spjalla um daginn og veginn. Því þið voruð bestu vinir. Og þú hafðir oft orð á því hvað hún væri alltaf hlý og góð við þig og fékkstu alltaf vænt knús frá henni þegar þið hittust. Þú varst nú samt alltaf með nóg fyrir stafni þótt þú værir hættur að vinna því á fimmtudögum mættir þú alltaf á gamla vinnustaðinn, Barka, í kaffi og svo annan hvern föstudag í Ikea þar sem gamlir starfmenn Gunnars Ásgeirssonar og Veltis hittast í mat og spjalla. Við höfðum gaman að því að í einni blóðgjöfinni á Landspítalanum, sem fór fram á föstudegi, þegar þú sagðir við hjúkrunarfólkið: Getið þið ekki gefið mér bara einn poka af blóði núna og annan þegar ég er búinn að fara í Ikea. Svo kærir voru þessir hittingar fyrir þér. En í lok síðasta árs breyttist mikið hjá þér þar sem þú byrjaðir að veikjast, maður sem hefur nánast aldrei veikst, alltaf verið hraustur, og árið hefur tekið mikið á andlegan líðan og frelsi hjá þér þar sem þú varst vikulega upp á Landspítala í blóðprufum og blóðgjöfum. Og mikið þreyttur og með lítið úthald. Þú sagðir oft í gríni að nú værir þú að æfa þig fyrir jarðarförina þar sem þú lást í sófanum í stofunni með krosslagðar hendur yfir bringuna. Og fyrsta skipti sem ég man eftir mér þar sem þú gast ekki verið á fullu í heyskap en fékkst það merka starf að vera eftirlitsmaður í ár. Hjarðarnes hefur alltaf verið þér hugleikið og þar áttir þú þínar bestu stundir. Þú fórst í útreiðartúra þegar þú varst í hestamennsku og svo út um allar trissur á traktorunum, slóðadrógst, barst á eða gekkst með fram girðingum. Gerðir við tæki og tól. Síðustu tvær vikurnar voru þér mjög erfiðar, þá mættir þú upp á spítala í smá aðgerð sem endaði með því að þú náðir ekki að koma til baka. En þú varst búinn að segja undanfarið að nú værir þú bara tilbúinn að fara eins og þú fyndir á þér að eitthvað myndi gerast fljótlega. Við systkinin munum halda utan um mömmu fyrir þig. Og að sjálfsögðu mun jólahúsið í Fögrubrekku skína skært í desember þér til heiðurs. Það verður tómlegt án þín. Ég mun sakna símtalanna okkar á kvöldin. Pjakkur bíður úti í glugga eftir afa. Stína amma á eftir að taka á móti þér með ilmandi kleinur. Takk fyrir allt. Elskum þig pabbi minn guð geymi þig. Sjáumst.

Þar sem englarnir syngja sefur þú
sefur í djúpinu væra.
Við hin, sem lifum, lifum í trú
að ljósið bjarta skæra
veki þig með sól að morgni.

Drottinn minn faðir lífsins ljóss
lát náð þína skína svo blíða.
Minn styrkur þú ert, mín lífsins rós
tak burt minn myrka kvíða.
Þú vekur hann með sól að morgni.

Faðir minn láttu lífsins sól
lýsa upp sorgmætt hjarta.
Hjá þér ég finn frið og skjól.
Láttu svo ljósið þitt bjarta
vekja hann með sól að morgni.

Drottinn minn réttu sorgmæddri sál
svala líknarhönd.
Og slökk þú hjartans harmabál
slít sundur dauðans bönd.
Svo vaknar hann með sól að morgni.

Farðu í friði vinur minn kær
faðirinn mun þig geyma.
Um aldur og ævi þú verður mér nær
aldrei ég skal þér gleyma.
Svo vöknum við með sól að morgni.
(Bubbi Morthens)

Þín

Sigrún Kristín og Jóhann.