Eva Hrund Pétursdóttir fæddist þann 13. janúar 1969 í Reykjavík. Hún lést á heimili sínu á Blönduósi þann 21. ágúst 2022.

Foreldrar Evu eru Pétur Guðmundsson, f. 17. ágúst 1945 og Svandís Ottósdóttir, f. 30. september 1947, d. 21. janúar 2012.

Systkini Evu eru Birgir Rafn Þráinsson, f. 1966, Sigríður Pétursdóttir, f. 1968, d. 2019, Sólrún Edda Pétursdóttir, f. 1975 og Óskar Freyr Pétursson, f. 1976.

Eiginmaður Evu er Kári Kárason framkvæmdastjóri, f. 26. apríl 1967. Eva og Kári gengu í hjónaband þann 31. ágúst 1991 og bjuggu á Blönduósi öll sín samvistarár.

Börn Evu og Kára eru: 1) Sandra Dís Káradóttir, f. 23. júní 1988, sambýlismaður hennar er Björn Þór Sveinbjörnsson, f. 1986 og eiga þau dótturina Sóldísi Júlíu Björnsdóttur, f. 11. janúar 2018. 2) Hilmar Þór Kárason, f. 5. febrúar 1993, sambýliskona hans er Heba Björg Þórhallsdóttir, f. 1991 og eiga þau soninn Kára Malmquist Hilmarsson, f. 12. júní 2022. 3) Ástrós Káradóttir, f. 4. október 1996, d. 4. október 1996. 4) Karen Sól Káradóttir, f. 1. júlí 1999, sambýlismaður hennar er Ásgeir Þröstur Gústavsson, f. 1995. 5) Pétur Arnar Kárason, f 1. júlí 1999, sambýliskona hans er Rakel Reynisdóttir, f. 2001.

Fyrstu ár sín bjó Eva í smáíbúðahverfinu í Reykjavík en fluttist með foreldrum sínum, sex ára að aldri, í Laugarás í Biskupstungum (Bláskógabyggð). Eva átti sín uppeldisár í Laugarási og gekk í Reykholtsskóla í Biskupstungum. Árið 1985 hélt hún til Reykjavíkur og sótti nám við Iðnskólann í Reykjavík. Það sama ár tóku Eva og Kári saman og flutti hún á Blönduós þar sem þau Kári hófu búskap árið 1988. Á Blönduósi starfaði Eva við rækjuvinnslu hjá Særúnu og sinnti heimilinu á meðan Kári var til sjós. Árið 2006 hóf Eva störf hjá Lyfju á Blönduósi og fór samhliða starfi til náms við Fjölbrautarskólann í Ármúla og útskrifaðist sem lyfjatæknir árið 2011. Á fimmtugsaldri hélt Eva aftur til náms og lauk BS gráðu í iðjuþjálfun frá Háskólanum á Akureyri árið 2018. Frá þeim tíma starfaði hún sem iðjuþjálfi við Heilbrigðisstofnun Norðurlands á Blönduósi.

Eva dýrkaði börnin sín, studdi þau og hvatti til dáða. Þau hjónin voru samrýmd og létu til sín taka í ýmsum félagsstörfum á Blönduósi.

Útför Evu fer fram frá Bústaðakirkju þriðjudaginn 18. október 2022, klukkan 13. Streymt verður beint frá athöfninni á vefnum www.skjaskot.is/evahrund.

Elsku Eva okkar. Það er svo sárt en samt svo ljúft að minnast þín í nokkrum fátæklegum orðum. Þú sem varst alltaf svo sterk, ákveðin, hjartahlý, umhyggjusöm og mikill gleðigjafi, varst svo skyndilega hrifin á brott frá fjölskyldu og vinum sem elskuðu þig fyrir allt það sem þú varst okkur.

Það er margs að minnast á langri og einstakri vináttu okkar. Smitandi hláturinn þinn eða glaðlegur söngurinn á góðum stundum og allar skemmtilegu ferðirnar okkar innanlands eða í útlöndum. Þar sem við bjuggum lengst af langt frá hvor annarri þá voru það símtölin okkar oft löng og innileg sem oftar en ekki innihéldu fréttir af börnunum okkar eða þegar við vorum að skipuleggja einhverja hittinga eða ferðir sem alla tíð héldust á okkar löngu vináttu. Við vorum svo heppnar að alast upp á fallegasta stað á Íslandi, Laugarási í Biskupstungum. Þetta litla þorp var mjög sérstakt og frábærlega gaman að vera barn í Laugarási, en líklegast standa árin upp úr þegar þú vannst með okkur í gróðurhúsinu hjá pabba og mömmu á Heiðmörk. Á þessum unglingsárum okkar náðum við vel saman. Þó þú værir tveimur árum yngri en ég þá urðum við þá einstaklega góðar vinkonur sem hélst alla tíð. Laugarásbúar á þeim árum voru eins og ein stór fjölskylda og mikill samgangur á milli heimila. Við sögðum alltaf að Laugarásgleðin, sem við héldum, væru skemmtilegustu ættarmótin. Við vorum svo heppnar að þegar við eiguðumst maka urðu þeir miklir vinir og það er eiginlega nauðsynlegt ef maður ætlar að vera mikið saman. Við höfðum að mörgu leyti fetað svipaðar götur í lífinu. Áhugamál okkar voru svipuð og því lítil þörf fyrir einhverjar málamiðlanir á okkar samverustundum og gátum við alltaf sagt hvor annarri allt, sem er mjög dýrmætt. Stundum tókumst við á, enda ekki alltaf sammála eins og gengur, en það var ekkert mál við vorum ekkert að erfa það hvor við aðra. Því það er nauðsynlegt í góðum vinskap að geta tekist á og verið hreinskilinn án þess að það dragi dilk á eftir sér. Eva, þú varst alltaf manneskja fyrirgefningarinnar og ég ætla að vanda mig við að minnast þín hlæjandi og hamingjusamrar en ekki hvernig þú yfirgafst þessa jörð, því kæra vinkona, þú varst alltof falleg sál til að það verði þitt minnismerki. Það var alltaf svo mikil gleði og söngur í kringum þig elsku Eva og í einni ferðinni okkar á Spáni keypti Hörður tónlistarbox með tveimur hljóðnemum og sungum við eins og enginn væri morgundagurinn. Þjóðverjarnir við hliðina á okkur hafa örugglega verið orðnir svolítið þreyttir á Stebba stuðara, eða þegar við vorum í Danmörku hjá Guðrúnu, þá var nú söngur og gaman. Við vorum búnar að plana Ítalíuferðina okkar lengi og láta okkur hlakka mikið til og loksins keyptum við ferð í janúar sl. sem við ætluðum að fara með Kára og Herði viku eftir að þessi hræðilegi atburður gerðist sem tók þig frá okkur öllum allt of snemma. Eina ljósið í þessum harmleik er að ég trúi því að núna sért þú aftur komin með litlu stelpuna þína í fangið. Elsku Eva, þú varst alltaf mikil fjölskyldumanneskja og þið Kári eigið einstaklega vel gerð börn og það er fallegt að sjá hvað fjölskyldan er náin og miklir vinir og stendur þétt saman. Ég veit að þú værir ekkert smá stolt af þeim núna á þessum erfiðu tímum. Við vorum búnar að skipuleggja ferð til München í desember, Tenerife í febrúar, Barcelona næsta sumar. Já við vorum bara rétt að byrja, enda sagðir þú alltaf að við ættum góð 30 ár eftir til að ferðast en því miður var þér ætluð önnur ferð sem þú ferð í ein fyrst um sinn. Það er skrifað í stjörnurnar að þetta er ferð sem við förum öll í, bara á mismunandi tímum, svo við munum hittast aftur vinkonurnar og syngja Stebba stuðara á blasti saman.

Tvær stjörnur
(Lag / texti Magnús Þór Jónsson (Megas))

Tíminn líður áfram og hann teymir mig á eftir sér
og ekki fæ ég miklu ráðið um það hvert hann fer.
En ég vona bara hann hugsi soldið hlýlega til mín
og leiði mig á endanum aftur til þín.

Það er margt sem angrar en ekki er það þó biðin
því ég sé það fyrst á rykinu hve langur tími er liðinn
og ég skrifa þar á eitthvað með fingrinum sem skiptir öllu máli
því að nóttin mín er dimm og ein og dagurinn á báli.

Já og andlitið þitt málað hve ég man það alltaf skýrt,
augnlínur og bleikar varir brosið svo hýrt.
Jú ég veit að ókeypis er allt það sem er best
en svo þarf ég að greiða dýru verði það sem er verst.

Ég sakna þín í birtingu, að hafa þig ekki við hlið mér
og ég sakna þín á daginn, þegar sólin brosir við mér
og ég sakna þín á kvöldin, þegar dimman dettur á
en ég sakna þín mest á nóttunni, er svipirnir fara á stjá.

Svo lít ég upp og ég sé við erum saman þarna tvær
stjörnur á blárri festingunni sem færast nær og nær,
ég man þig þegar augu mín eru opin hverja stund
en þegar ég nú legg þau aftur fer ég á þinn fund.

Kærleikskveðjur elsku Kári, Pétur, Sandra, Bjössi, Hilmar, Heba, Karen, Ásgeir, Pétur, Rakel og fjölskylda. Hugur okkar Harðar, Tinnu og Þórs er hjá ykkur öllum.

Jóna Dísa Sævarsdóttir