Örvar &bdquo;Þau sem eru orðin þreytt á hversdagslífinu ættu hiklaust að leyfa sér að smjúga inn í draumaheim <strong><em>Svefngrímunnar</em></strong>,&ldquo; segir rýnir.
Örvar „Þau sem eru orðin þreytt á hversdagslífinu ættu hiklaust að leyfa sér að smjúga inn í draumaheim Svefngrímunnar,“ segir rýnir. — Morgunblaðið/HákonPálsson
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Smásagnasafn Svefngríman ★★★★· Eftir Örvar Smárason. Angústúra 2022. Kilja,156. bls.

Bækur

Ingibjörg Iða Auðunardóttir

Örvar Smárason, sem er ef til vill þekktastur fyrir að vera hluti af hljómsveitinni FM Belfast, gaf nýverið út smásagnasafnið Svefngrímuna sem inniheldur átta smásögur. Verkið hlaut Nýræktarstyrk frá Miðstöð íslenskra bókmennta auk þess sem ein smásaga verksins, „Sprettur“, hlaut fyrstu verðlaun á Júlíönuhátíðinni. Áður hafa komið út eftir Örvar nóvellan Úfin, strokin og ljóðabókin Gamall þrjótur, nýir tímar.

Strax þegar lesandinn tekur upp þessa litlu bók setur hann sig ef til vill í ákveðnar stellingar, þar sem bókin er í heldur óvenjulegu umbroti. Texti smásagnanna spannar í raun alla bókina, ef svo má að orði komast, og er kápan sjálf raunar fyrsta og síðasta blaðsíðan. Kantur blaðsíðnanna er svo spreyjaður neon-rauður og utan um bókina er nokkurs konar „rykfrakki“ úr smjörpappír, sem innan á er ritað nafn höfundar, útgefanda, isbn-númer og slíkt. Það verður að segjast að gagnrýnandi hefur sjaldan séð jafn skemmtilegt umbrot. Þegar áhætta er tekin í umbrotinu – sem gengur svona vel upp í þokkabót – auðgar það lestrarupplifunina. Umbrotið verður í raun táknrænt; það opinberar það sem býr innra með okkur, eðli mannsins sem skín í gegn, og við getum ekki neitað. Rauðu blaðsíðurnar sem að vissu leyti má segja að minni á blóð, ýta enn frekar undir þessa túlkun. Einnig má túlka „rykfrakkann“ sem einhvers konar dulu, eins hvers konar svefngrímu sem leiðir okkur í draumaland, sem er þá í takt við titilinn.

Smásagnasöfn innihalda gjarnan margar misgóðar sögur, en slíkt verður ekki sagt um Svefngrímuna. Allar sögurnar eru góðar að mati gagnrýnanda. Auðvitað sitja sumar frekar eftir hjá lesanda en aðrar en engin þeirra er áberandi verri en hinar. Heildin verður því sterk. Gagnrýnanda finnst þó titilsagan „Svefngríma“, sem er jafnframt fyrsta saga verksins og slær því óhjákvæmilega tóninn, heldur knöpp og ekki jafn eftirminnileg og aðrar sögur bókarinnar. Hún hefði annaðhvort mátt undirbyggja enn frekar þema bókarinnar, tengslaleysi, eða láta persónurnar skarast meira innan sögunnar og þar með mynda einhver tengsl. Það verður aftur á móti að viðurkennast að umfjöllunarefni hennar er áhugavert og það er vel við hæfi að byrja sögusafnið á yfirvofandi heimslokum. Það slær tóninn fyrir umfjöllunarefni næstu sagna sem öll eru frekar niðurdrepandi eða óhugguleg.

Að mati gagnrýnanda eru bestu sögurnar ótvírætt þær sem leika sér hvað mest að skilum hins raunverulega og óraunverulega. Þar ber helst að nefna „Sprett“;„Óráð“;„Holur“ og „Gæsir himins“. Allar þessar sögur eru á jaðri hins ónáttúrulega en þó kirfilega staðsettar í raunveruleikanum. Hvort sem um er að ræða sjúkdóm sem gerir það að verkum að maður missi smátt og smátt alla útlimina, barn með sótthita sem virðist andsetið, auglýsingakött með áfast plasttyppi á höfðinu eða vináttu við gervigreindar-spjallmenni. Allar þessar sögur hrífa lesandann með sér í ferðalag. Þær hefjast á grípandi setningu, eða in medias res, og lesandinn veit ekkert hvert förinni er heitið og ekki veita nöfn sagnanna upplýsingar um framvinduna. Örvar tekur fyrir þekkt fyrirbæri og gerir þau framandi, og raunar jafnvel ókennileg. Líkt og til dæmis í sögunni „Spretti“, þar sem sögupersóna glímir við sjúkdóm þar sem hann missir reglulega útlimi. Þetta gerir honum til að mynda erfitt að fara í sund – hvað ef hann skyldi missa tá í lauginni? Sagan er svo raunveruleikatengd með því að vitna í þekkt plaköt sem prýddu sundlaugar landsins í denn sem fræddu sundlaugargesti um stómapoka. Í sögunni er þessu breytt á eftirfarandi veg: „Ég lít á veggspjald sem hangir fyrir ofan [þvag]skálina og les: Fólk sem missir útlimina getur stundað sund eins og aðrir. Þetta er um fólk eins og mig. Útlimamissir er ekki sjúkdómur og smithætta engin. Hjálpum þessum ört vaxandi hópi fólks að stunda sund af sjálfsvirðingu“ (bls. 14). Önnur dæmi um slíkar raunveruleikatengingar eru til dæmis þegar minnst er á raunverulega staði eins og Reðursafnið, sem í sögunni „Holur“ er í harðri samkeppni við Endaþarmssafnið hinum megin við götuna. Sem dæmi um glettni og frumleika höfundar hefst sú saga til að mynda á setningunni: „Það var matartími á Endaþarmssafninu“ (bls. 51). Safninu lýkur svo á táknrænan hátt með sögunni „Nætursveifinni“, sem lesandinn fær óneitanlega á tilfinninguna að gerist í ónefndu leikhúsi hérlendis, þar sem frásögnin er hringlaga og freistar þar með lesandans ef til vill að byrja aftur á smásagnasafninu, líkt og gagnrýnandinn sjálfur gerði.

Sögurnar eru ferskar og framandi og eiga sér raunar fáar hliðstæður sem gagnrýnandi hefur komist í tæri við. Örvar Smárason er gífurlega frjór höfundur sem leikur sér að ímyndunaraflinu á einstakan máta og frábær viðbót í íslenska bókamenntaflóru. Þau sem eru orðin þreytt á hversdagslífinu ættu hiklaust að leyfa sér að smjúga inn í draumaheim Svefngrímunnar.