Magnús Þór Ásmundsson
Magnús Þór Ásmundsson
Magnús Þór Ásmundsson: "Fyrir Íslendinga eru orkuskipti í samgöngum líkleg leið til að stuðla að enn frekari velmegun í landinu en það hefur jafnframt í för með sér ákveðnar áskoranir."

Umræðan um þriðju orkuskiptin fer vaxandi á Íslandi með aukinni sölu á rafbílum og eins vegna orkukreppu í Evrópu, sem stafar af innrás Rússlands í Úkraínu. Ísland hefur áður farið tvisvar í gegnum orkuskipti þegar framleiðsla á raforku með vatnsafli hófst og svo þegar olíu og kolum til húshitunar var skipt út fyrir hitaveitu en sú framkvæmd er talin ein sú hagfelldasta sem íslenskt þjóðfélag hefur notið.

Íslendingar hafa fram að þessu búið við næga hreina raforku en kostir hennar eru margir fyrir samfélagið í heild t.d. vegna umhverfisverndar, lýðheilsu, efnahagslegs ávinnings og orkuöryggis.

Einn helsti ávinningur hreinnar orku fyrir umhverfið er að hún dregur úr loft- og vatnsmengun og losun gróðurhúsalofttegunda, sem eru taldar stuðla að loftlagsbreytingum.

Bætt lýðheilsa er einnig á meðal jákvæðra afleiðinga af orkuskiptum. Notkun hreinnar orku getur nefnilega hjálpað til við að bæta lýðheilsu með því að draga úr magni skaðlegra mengunarefna sem berast út í loft og vatn. Hrein orka getur þannig hjálpað til við að draga úr tíðni öndunarfærasjúkdóma og annarra heilsufarsvandamála af völdum mengunar.

Líkt og í fyrri orkuskiptum hafa umskipti yfir í hreina orku umtalsverðan efnahagslegan ávinning fyrir land og þjóð, s.s. með sköpun starfa í hreina orkugeiranum, en fyrst og fremst með því að draga úr innflutningi á jarðefnaeldsneyti, sem sparar gjaldeyri og styður við sjálfstæði landsins. Þá verður einnig til sérþekking í landinu sem getur reynst dýrmæt útflutningsvara eins og hefur gerst með þekkingu á öflun heits vatns og vinnslu jarðvarma.

Orkuöryggi er þó einn mikilvægasti þátturinn í orkuskiptum í dag og hefur fengið vaxandi vægi vegna ótryggs ástands á meginlandi Evrópu. Sjálfstæði í orkuöflun er mjög mikilvægt við þær aðstæður sem nú ríkja í Evrópu. Hreinir orkugjafar eru enn fremur sóknarfæri fyrir Ísland enda innlendir og endurnýjanlegir sem hjálpar til við að auka orkuöryggi landsins með því að draga úr ósjálfstæði vegna innflutts jarðefnaeldsneytis. Strengvæðing RARIK er einnig liður í orkuöryggi þar sem loftlínur eru ekki jafn öruggar fyrir raforkudreifingu og jarðstrengir en þolgæði kerfisins aukast þegar loftlínum fækkar og það verður óháð veðuráhrifum.

Áskoranir í orkuskiptum bílaflotans

Vandasamt er að spá fyrir um framtíð grænnar orku en hún ræðst af ýmsum þáttum eins og tækniframförum, stefnu stjórnvalda og alþjóðlegri efnahagsþróun. Almennt er búist við því að hröð breyting í átt að grænni orku muni halda áfram á næstu árum þar sem fleiri lönd um allan heim munu viðurkenna mikilvægi þess að skipta yfir í endurnýjanlega orkugjafa til að takast á við loftslagsbreytingar og verða einnig óháðari jarðefnaeldsneyti. Fyrir Íslendinga eru orkuskipti í samgöngum líkleg leið til að stuðla að enn frekari velmegun í landinu en það hefur jafnframt í för með sér ákveðnar áskoranir.

Ein helsta áskorunin fyrir Ísland er þörfin á að byggja upp nauðsynlega innviði til að styðja við rafknúin farartæki. Þetta felur í sér að setja upp hleðslustöðvar og efla raforkukerfið til að mæta aukinni eftirspurn eftir rafmagni. Nauðsynlegt er að hafa hugfast að rafknúinn heimilisbíll veldur álíka álagi á dreifikerfi rafmagns og heimilið gerir nú. Það er því ljóst að bæði þarf að afla meiri orku og styrkja innviði raforku svo hægt sé að fara í orkuskipti fyrir samgöngur á Íslandi.

Með nýjum lausnum í raforkukerfinu aukast möguleikarnir á að hægt sé að hlaða á þeim tímum sólarhringsins sem álag á kerfið er sem minnst og jafna álag en það stuðlar aftur að betri nýtingu orkuinnviða. Þannig mætti draga að einhverju leyti úr kostnaði við innviðauppbyggingu.

Önnur áskorun er takmörkuð drægni flestra rafbíla, sem er að miklu leyti vegna takmarkana núverandi rafhlöðutækni. Þetta er þó óðum að breytast með bættri tækni jafnframt því sem framleiðslukostnaður rafbíla mun á næstu árum verða samkeppnisfær við hefðbundna bíla án ívilnana.

Íslendingar hafa verið fljótir að tileinka sér rafbílatæknina og þar hefur stefna og hvatar stjórnvalda gegnt mikilvægu hlutverki í að auðvelda umskipti yfir í rafbíla. Til dæmis hafa rafbílar notið skattalegra ívilnana á Íslandi til að jafna samkeppnisstöðu þeirra gagnvart bílum sem ganga fyrir jarðefnaeldsneyti og þannig gert almenningi mögulegt að kaupa rafbíla. Enn um sinn eru slíkar ívilnanir nauðsynlegar því án þeirra mun hægja á orkuskiptum.

Framundan eru orkuskipti stærri bíla og erum við nú þegar að sjá fyrstu rafknúnu vörubílana. Búast má við að slíkum bílum fjölgi hratt næstu árin og sama þróun mun verða með rútur. Hleðslustöðvanet fyrir stóra bíla gerir mun ríkari kröfur til innviða raforkukerfisins en fólksbílar gera og verður það verðugt og krefjandi verkefni að tryggja að flutnings- og dreifikerfi raforku geti þjónað því. Ein helsta áskorunin er sú að mun fljótlegra er að endurnýja bílaflota og byggja hleðslustöðvar en að styrkja raforkukerfið og því mikilvægt að meta þörfina rétt fram í tímann og hefjast handa í tæka tíð, nokkuð sem RARIK hefur til hliðsjónar við greiningar sínar á framtíð raforkudreifingar á Íslandi.

Skip og flugvélar munu a.m.k. ekki á næstu árum geta nýtt raforku beint með eigin rafgeymi á sama hátt og bílar og tæki. Til að orkuskipti á hafi og í lofti geti orðið þarf því að nota rafmagn til að búa til svokallað rafeldsneyti sem annað hvort yrði notað til íblöndunar í olíu eða kæmi alfarið í stað hennar. Rafeldsneytisgerð útheimtir mun meiri orku en bein notkun rafmagns. Þá orku er hægt að framleiða hér á landi, með því að hér rísi ný atvinnugrein, rafeldsneytisframleiðsla, og væri það í takti við markmið stjórnvalda. Til að ná fullum orkuskiptum í þessum geirum þarf þó með tíð og tíma margfalt það magn orku sem þarf vegna bíla og tækja á landi. Hér þurfa stjórnvöld að vísa veginn og leiða og mikilvægt er að þessi mál fái vandaða umræðu í samfélaginu. Hlutverk orkufyrirtækjanna er ekki að ákveða hvert skuli stefna, en þau þurfa að vita hvert stefnir svo hægt sé að tryggja framboð orku þar sem og þegar þess er þörf.

Íslendingar nýta ekki alla græna orku

Það eru til margar mismunandi tegundir af grænni orku, þar á meðal sólarorka, vindorka, vatnsafl og jarðhiti og nýta Íslendingar fyrst og fremst tvo síðustu orkuflokkana. Hver flokkur er að verða aðgengilegri þar sem kostnaður við tækni þeirra heldur áfram að lækka. Við sjáum nýleg merki um þessa þróun hér á landi með aukinni vitund og umræðu um vindorku. Líklegt er að fleiri tegundir grænnar orku muni gegna sífellt mikilvægara hlutverki í orkusamsetningu landsins. Ríki og einkafyrirtæki um allan heim eru einnig að fjárfesta í rannsóknum og þróun til að bæta skilvirkni og áreiðanleika grænnar orkutækni.

Á heildina litið er búist við að þróunin í átt að grænni orku haldi áfram þar sem fólk, fyrirtæki og stofnanir viðurkenna mikilvægi þess að skipta yfir í endurnýjanlega orkugjafa til að vernda umhverfið og takast á við áskoranir loftslagsbreytinga.

Ísland hefur einstaka stöðu að því leyti að hér er mikið magn af hreinum, endurnýjanlegum orkugjöfum, þar á meðal jarðvarma- og vatnsaflsorka. Þar af leiðandi hefur landið þegar náð umtalsverðum framförum í umskiptum yfir í græna orku, þar sem hátt hlutfall af raforku þess kemur frá þessum orkugjöfum.

Í framtíðinni er líklegt að Ísland muni áfram treysta mjög á jarðvarma- og vatnsaflsvirkjanir til að mæta orkuþörf sinni. Jarðhitaauðlindir landsins eru sérstaklega miklar og Ísland á sér langa sögu í nýtingu jarðhita fyrir hús og byggingar. Auk þess er í landinu fjöldi vatnsaflsvirkjana. Næsta víst er að vindorka verði einnig mikilvæg orkuauðlind í framtíðinni, en tækni á því sviði er orðin vel samkeppnisfær við aðrar tegundir frumorku og nægur er vindurinn á Íslandi.

Aðrar tegundir grænnar orku munu áfram verða kannaðar, eins og sólarorka – sem getur verið mikilvægur orkugjafi, jafnvel á Íslandi. Mikilvægt sjónarmið þar er að leita leiða til að auka fjölbreytni í orkublöndunni og draga úr neyslu á jarðefnaeldsneyti en Ísland er í einstakri stöðu vegna smæðar þjóðarinnar að sinna öllum orkuþörfum hennar með grænum hætti. Á heildina litið gera miklar og hreinar orkuauðlindir Íslands og skuldbinding okkar til sjálfbærni okkur vel í stakk búin til að halda áfram að leiða umskipti yfir í græna orku.

Við lifum á tímum hraðrar þróunar í orkumálum og í því felst bæði áskorun og tækifæri. Orkugjöfum, smávirkjunum og möguleikum til geymslu á raforku fer fjölgandi sem gerir ríkari kröfur til dreifikerfa raforku. Með víðfeðmasta dreifikerfi raforku á landinu er RARIK í lykilhlutverki í orkuskiptum á landsbyggðinni. Greiður aðgangur að hreinni orku eru lífsgæði og lítum við á það sem hlutverk okkar að stuðla að auknum lífsgæðum viðskiptavina með hagkvæmu og vel reknu dreifikerfi sem er í stakk búið að takast á við orkuskipti framtíðarinnar.

Höfundur er forstjóri RARIK.