Spennandi að spila með ókunnugu fólki ­ segir Helga Hauksdóttir fiðluleikari sem leikur með Alþjóðlegu fílharmóníuhljómsveitinni í næstu viku HELGA Hauksdóttir fiðluleikari í Sinfóníuhljómsveit Íslands er nú stödd í Montreal í Kanada þar sem hún æfir með...

Spennandi að spila með ókunnugu fólki ­ segir Helga Hauksdóttir fiðluleikari sem leikur með Alþjóðlegu fílharmóníuhljómsveitinni í næstu viku

HELGA Hauksdóttir fiðluleikari í Sinfóníuhljómsveit Íslands er nú stödd í Montreal í Kanada þar sem hún æfir með Alþjóðlegu fílharmóníuhljómsveitinni, World Philharmonic Orchestra. Hljómsveitin, sem er skipuð hljóðfæraleikurum frá 58 löndum, heldur síðan tónleika í Wilfrid Pelletier tón leikahöllinni þann 12. desember og verður þeim sjónvarpað víða um heim.

Það verður góð tilbreyting að leika með þessari hljómsveit og ég hlakka mikið til þess," sagði Helga er hún ræddi við blaðamann Morgunblaðsins áður en hún hélt utan síðastliðinn föstudag. Þrír félagar mínir í Sinfóníuhljómsveitinni hafa áður leikið með hljómsveitinni og segja þetta mjög skemmtilegt."

Helga sagðist hafa fengið að vita í vor að hún ætti að spila með hljómsveitinni á þessu ári. Boðið var ekki til mín persónulega heldur hefur ákveðnum sætum í Sinfóníuhljómsveitinni verið boðið hingað til. Að þessu sinni var fyrsta sæti í annarri fiðlu boðið, en það er einmitt mitt sæti."

Helga Hauksdóttir hefur verið fastráðin hjá Sinfóníuhljómsveit Íslands í tuttugu ár. Síðastliðin tíu ár hefur hún verið leiðandi í 2. fiðlu. Helga nam fiðluleik hjá Birni Ólafssyni konsertmeistara og lauk prófi frá Tónlistarskóla Reykjavíkur árið 1967. Áður hafði hún leikið af og til með Sinfóníuhljómsveitinni á námsárunum.

Alþjóðlega Fílharmóníuhljómsveitin var stofnuð af tveimur Frökkum fyrir nokkrum árum, þeim Marc Verriere og Francoise Legrand. Francoise Legrand er alþjóðlegur hljómsveitarstjóri og mun hún stjórna hljómsveitinni að þessu sinni.

Fyrstu tónleikar hljómsveitarinnar voru haldnir í Stokkhólmi árið 1985 undir stjórn Carlo Maria Giulinis og þá lék Helga Þórarinsdóttir lágfiðluleikari með henni. Næst lék hún í Rio de Janeiro undir stjórn Lorin Maazels og var Pétur Þorvaldsson sellóleikari fulltrúi Íslands. Í fyrra lék Guðný Guðmundsdóttir konsertmeistari með hljómsveitinni í Tókýó og þá stjórnaði Claudio Abbado.

Yfirskrift tónleikanna er Tónlist og friður" og rennur ágóðinn til ýmissa mannúðarmála svo sem Barnahjálpar Sameinuðu þjóðanna og Rauða krossins. Í stefnuskrá hljómsveitarinnar segir meðal annars að tilgangur með stofnun hennar sé að auka vináttu milli þjóða.

Helga var spurð hvernig hún hefði undirbúið sig fyrir tónleikana. Hún sagðist hafa fengið að vita efnisskrána strax í vor, en á henni eru 9. sinfónían og Leonoruforleikurinn, hvort tveggja eftir Beethoven.

Þetta eru mjög falleg verk," sagði Helga. Ég hef leikið 9. sinfóníuna nokkrum sinnum og tíminn hefur verið nægur til að æfa sig. Maður er ekki vanur að hafa svona mikinn fyrirvara. Fyrsta samæfingin verður mánudaginn 5. desember í Montreal og síðan verða stífar æfingar á hverjum degi þar til tónleikarnir verða, þann 12. desember."

- Eru þessir tónleikar að einhverju leyti sérstakir?

Já. Í fyrsta lagi vekur athygli að annar stofnenda hljómsveitarinnar, Legrand, er stjórnandi að þessu sinni. Hún er alþjóðlegur hljómsveitarstjóri, en ekki nærri því eins fræg og þeir sem áður hafa stjórnað hljómsveitinni. Í öðru lagi leikur hljómsveitin í Montreal og með henni syngja tveir kórar. Verður annar staddur í París og hinn í San Francisco. Samskiptin fara fram um gervihnött og kórarnir birtast áheyrendum í Montreal á stórum skermi. Ég skil ekki hvernig þeir ætla að fara að þessu og það verður spennandi að vita hvernig til tekst."

- Hvernig leggjast tónleikarnir í þig?

Ég hlakka til að spila á þessum tónleikum og mér finnst spennandi að spila með alveg ókunnugu fólki. Ég vona að með þessu skapist kynni við tónlistarfólk frá öðrum löndum. Það eina sem ég kvíði svolítið fyrir er að fara frá fimm börnum á þessum árstíma," sagði Helga að lokum.

ÁH

Morgunblaðið/Þorkell

Helga Hauksdóttir fiðluleikari.