Reagan á sínum síðasta blaðamannafundi: Bar lof á Gorbatsjov en varaði við gyllivonum RONALD Reagan Bandaríkjaforseti hélt í fyrradag sinn síðasta blaðamannafund í Hvíta húsinu og lét þá vinsamleg orð falla um Sovétríkin, þetta ríki, sem hann kallaði einu...

Reagan á sínum síðasta blaðamannafundi: Bar lof á Gorbatsjov en varaði við gyllivonum

RONALD Reagan Bandaríkjaforseti hélt í fyrradag sinn síðasta blaðamannafund í Hvíta húsinu og lét þá vinsamleg orð falla um Sovétríkin, þetta ríki, sem hann kallaði einu sinni "hið illa heimsveldi".

Reagan, sem lætur af embætti eftir 42 daga, kvaðst trúa því, að Míkhaíl Gorbatsjov sovétleiðtogi væri að reyna að breyta Sovétríkjunum í manneskjulegra samfélag en sagði, að Bandaríkjamenn yrðu að vera vel á verði jafnframt þvíað auka samskiptin við Sovétmenn.

"Við verðum að vera ákveðnir og gera okkur engar gyllivonir, við verðum að vera hreinskilnir við sjálfa okkur og aðra í þeim ágreiningsmálum, sem mikilvægust eru. Umfram allt verðum við að vera hernaðarlega sterkir," sagði Reagan.

Eftir fimmta og síðasta fundinn með Gorbatsjov í New York á miðvikudag sagði Reagan, að "merki leg þróun" hefði átt sér stað í samskiptum stórveldanna á síðustu þremur árum. Á blaðamannafundinum var Reagan spurður hvort hann treysti Gorbatsjov og hann svaraði því til, að hann hefði ekki ástæðu til annars. Hann sagði, að þeir Gorbatsjov hefðu áhuga á að hittast einhvern tíma síðar og bar lof á ræðu hans á allsherjarþinginu þar sem hann kynnti verulegan niðurskurð á sovéska heraflanum. Lagði hann þó áherslu á, að yfirburðir Sovétmanna og Varsjárbandalagsins í hefðbundnum herafla væru miklir eftir sem áður en sagði, að ákvörðun Sovétmanna væri skref í rétta átt.

Reagan var mjög yfirvegaður á þessum síðasta blaðamannafundi sínum í embætti og yfir öllu hans fasi var einhver saknaðarfull rósemi. Hann sagði, að erfiðustu tímarnir á forsetaferlinum hefðu verið þegar hann gaf hernum fyrirskipanir, sem mikil hætta fylgdi, en það ánægjulegasta væri hinsvegar endurreisn bandarísks efnahagslífs.

Ronald Reagan, Bandaríkjaforseti, umkringdur jólatrjám á blaðamannafundi sínum í Hvíta húsinu í gær.