Virðisaukaskatturinn: Samráð um endurskoðun Stjórnarfrumvarp um að gildistöku laga um virðisaukaskatt verði frestað var afgreitt frá neðri deild Alþingis í gær.

Virðisaukaskatturinn: Samráð um endurskoðun Stjórnarfrumvarp um að gildistöku laga um virðisaukaskatt verði frestað var afgreitt frá neðri deild Alþingis í gær. Þorsteinn Pálsson formaður Sjálfstæðisflokksins spurði Ólaf Ragnar Grímsson fjármálaráðherra hvort samráð yrði haft við stjórnarandstöðuflokkana um endurskoðun laganna. Ólafur svaraði á þá leið, að hannværi því fylgjandi, en ákvörðun yrði ekki tekin fyrr en formenn hinna stjórnarflokkanna kæmu frá útlöndum.

Þorsteinn spurði fjármálaráðherra hvort honum hefði gefist tóm til samráðs við forystumenn Framsóknarflokks og Alþýðuflokks um það hvernig endurskoðun laga um virðisaukaskatt verði háttað. Einnig spurði hann hvort til þess yrði skipuð nefnd, sem skipuð yrði fulltrúum bæði stjórnar og stjórnarandstöðu.

Fjármálaráðherra sagðist ekki hafa rætt þetta við þá Steingrím Hermannsson forsætisráðherra og Jón Baldvin Hannibalsson utanríkisráðherra, þar sem þeir væru erlendis. Hann hefði kynnt hugmyndir sínar um þetta í ríkisstjórninni og þeim verið vel tekið, en ákvörðun yrði ekki tekin fyrren þeir Steingrímur og Jón Baldvin hefðu fengið tækifæri til að ræða málið.

Þorsteinn Pálsson þakkaði fjármálaráðherra fyrir jákvæðar undirtektir og sagði skiljanlegt aðekki hefði gefist tækifæri til að ræða þetta, þar sem forsætisráðherra og utanríkisráðherra væru erlendis að gegna mikilvægum trúnaðarstörfum. Enn fremur sagðist Þorsteinn ekki vilja gera athugasemdir við mat ráðherranna á mikilvægi erinda sinna í útlöndum.