Aðventutónleikar í Hallgrímskirkju Tónlist Jón Ásgeirsson Mótettukór Hallgrímskirkju stóð fyrir aðventutónleikum sl. sunnudag og flutti undir stjórn Harðar Áskelssonar söngverk eftir Eccard, Grieg, Purcell, Scheidt, Sch¨utz, Sweelinck, Hammerschmidt, J.S.

Aðventutónleikar í Hallgrímskirkju Tónlist Jón Ásgeirsson Mótettukór Hallgrímskirkju stóð fyrir aðventutónleikum sl. sunnudag og flutti undir stjórn Harðar Áskelssonar söngverk eftir Eccard, Grieg, Purcell, Scheidt, Sch¨utz, Sweelinck, Hammerschmidt, J.S. Bach, Byrd, Bruckner, auk sléttsálms sem kenndur er við Ambrósíus kirkjuföður og raddsetningu Róberts A. Ottóssonar á latneskum hymna frá 4. öld við texta, sem eignaður er Ambrosíusi, í þýðingu dr. Sigurbjörns Einarssonar, fyrrum biskups.

Efnisskráin var einstaklega vönduð en helst til margþætt hvað stíltegundir snertir og spannaði alla kirkjusöguna, frá Ambrósíusi til okkar daga. Söngstíll kórsins er fínlegur og fellur vel að tónlist sem var samin fyrir og eftir 1600 en þar til má nefna höfunda eins og Eccard, Scheidt, Sweelinck og Hammerschmidt og flutti kórinn verk þessara snillinga mjög vel.

Minna bragð var af söng kórsins í verkum Bruckners og Griegs, en rómantísk tónlist nýtur sín best í tilfinningaþrunginni (heitri) tóntúlkun. Hér er ekki átt við hljómstyrk, heldur þróttmikla raddbeitingu.

Nokkrir félagar í kórnum sungu einsöng og var söngur þeirra í samræmi við söngstíl kórsins, fínlegur og fallega hljómandi. Þrátt fyrir nokkuð of margþætta söngskrá voru tónleikarnir í heild góðir og fyrsta söngverkið, Veni redemptor gen tium, eftir Ambrósíus, hljómaði einstaklega fallega innan úr alt ariskór kirkjunnar. Sama má segja um síðasta lagið á efnisskránni, raddsetningu Róberts A. Ottóssonar á Nú kemur heimsins hjálparráð, sem var mjög fallega sungið, en kórinn gekk syngjandi út kirkjuna og því meir sem hann nálgaðist vesturgafl kirkjuskipsins, varð söngurinn hreinni af enduróman kirkjunnar.

Mótettukór Hallgrímskirkju.