Fundur Helmuts Kohls og James Bakers: Endurnýjun skammdrægu flauganna ekki útrætt mál Bonn. Reuter.

Fundur Helmuts Kohls og James Bakers: Endurnýjun skammdrægu flauganna ekki útrætt mál Bonn. Reuter.

JAMES Baker, nýskipaður utanríkisráðherra Bandaríkjanna, sagði í gærkvöldi að Helmut Kohl, kanslari Vestur-Þýskalands, hefði ítrekað sagt á fundi þeirra að ummæli hans í viðtali við breska dagblaðið Financial Times fyrir helgi væru ekki í mótsögn við stefnumótun Atlantshafsbandalagsins frá því í mars í fyrra. Í yfirlýsingu sem þá var gefin út fólst meðal annars að endurnýja bæri þau kjarnorkuvopn sem bandalagið ræður yfir. Að sögn Bakers hefur Kohl ekki skiptum skoðun á endurnýjun skammdrægra Lance-kjarnorkueldflauga. Bandaríski utanríkisráðherrann sagði að bandarísk og vestur-þýsk stjórnvöld myndu halda áfram að ræða þetta mál og leita samkomulags.

Fundar Bakers og Kohls var beðið með eftirvæntingu vegna yfirlýsinga kanslarans í viðtali við Financial Times um að fresta mætti ákvörðun um endurnýjun 88 skammdrægra Lance-kjarnorkueldflauga um tvö ár. Bandaríkin og Bretland hafa gengið fram fyrir skjöldu innan Atlantshafsbandalagsins um að fá Vestur-Þjóðverja til að samþykkja endurnýjun flauganna á þessu ári. Meirihluti almennings í VesturÞýskalandi hefur lagst gegn endurnýjun flauganna sem flestar eru þar í landi. Telja stjórnmálaskýrendur að kanslarinn vilji forðast að taka mjög óvinsælar ákvarðanir áður en kosið verður í Vestur-Þýskalandi á næsta ári. Fréttaritari breska útvarpsins túlkaði niðurstöðu fundarins í gærkvöldi á þann veg að bæði ríkin væru ennþá fylgjandi endurnýjun flauganna en ekkert lægi á að taka endanlega ákvörðun þar að lútandi. Vestur-Þjóðverjum hefði því tekist að fá fram nokkurn umþóttunartíma.

Fyrsti viðkomustaður Bakers í heimsókninni til aðildarríkja Atlantshafsbandalagsins var í í Kanada á föstudag. Á laugardag átti Baker viðræður við Jón Baldvin Hannibalsson í Leifsstöð. Frá Íslandi lá leiðin til Bretlands þar sem Baker hitti Margaret Thatcher forsætisráðherra að máli á sunnudag. Samdægurs flaug Baker til Bonn og hitti HansDietrich Genscher, utanríkisráðherra Vestur-Þýskalands. Fyrripart gærdagsins átti Baker fundi með utanríkisráðherrum Noregs og Danmerkur áður en hann hélt til Bonn á ný til fundar við Kohl. Uffe Ellemann-Jensen, utanríkisráðherra Danmerkur, sagðist hafa hvatt Baker til að ganga ekki hart eftir því við Vestur-Þjóðverja að þeir samþykktu endurnýjun Lance-flaug anna.

Sjá "Tvíhliða samskipti . . ." á bls. 18 og "Engar kröfur gerðar . . ." á bls. 19.