Skyggnir óvirkur í 78 mínútur: Flugstjórnarmiðstöðin sambandslaus við aðrar stöðvar Flugstjórnarmiðstöðin í Reykjavík, sem stjórnar flugumferð á íslenzka flugstjórnarsvæðinu, var sambandslaus við flugstjórnarmiðstöðvar í nágrannalöndunum í nærri 80...

Skyggnir óvirkur í 78 mínútur: Flugstjórnarmiðstöðin sambandslaus við aðrar stöðvar Flugstjórnarmiðstöðin í Reykjavík, sem stjórnar flugumferð á íslenzka flugstjórnarsvæðinu, var sambandslaus við flugstjórnarmiðstöðvar í nágrannalöndunum í nærri 80 mínútur á sunnudag. Orsökin var sú að jarðstöðin Skyggnir varð óvirk í rafmagnsleysinu, semnáði um allt land. Guðmundur Matthíasson, framkvæmdastjóri flugumferðarþjónustu flugmálastjórnar, segir það ákaflega mikiðáhyggjuefni að svona lagað geti gerzt, og í flugstjórnarmiðstöðvum á nærliggjandi flugstjórnarsvæðum hafi menn einnig miklar áhyggjur af því að hafa ekkert öruggt samband við Reykjavík ef Skyggnir bilar. Samgönguráðherra sagði á Alþingi í gær að til greina kæmi að reisa aðrajarðstöð til að koma í veg fyrir sambandsrof af þessu tagi.

Sjálfvirk vararafstöð er við Skyggni og fór hún strax í gang þegar rafmagnið fór af stöðinni. Ákveðnir magnarar í tækjabúnaði stöðvarinnar tóku hins vegar ekkivið sér af sjálfsdáðum. Jarðstöðin er mannlaus að staðaldri, en viðgerðarmenn voru sendir á vettvang strax og bilunin kom upp til þess að setja magnarana af stað með handstýr ingu. Skyggnir var ónothæfur í 78 mínútur alls, fyrst í rúma klukkustund, en síðan tvisvar sinnum í nokkrar mínútur í einu á meðan viðgerðarmenn voru á staðnum.

"Þetta er grafalvarlegt mál," sagði Guðmundur Matthíasson. "Við höfum mjög litla möguleika á að ná sambandi við aðrar flugstjórnarmiðstöðvar öðruvísi en í gegnum Skyggni og ekkert tryggt samband. Það tókst ekki að tengja okkur við lítinn varaskerm við Skyggni, einsog hefði átt að vera ef allt væri með felldu. Við höfðum samband við brezka flugherinn um sérstaka rás, sem varnarliðið ljær okkur afnot af, en hún kom að takmörkuðum notum, enda ekki notuð nema í neyðartilfellum. Gufunesradíó reynir líka að ná radíósambandi við nærliggjandi stöðvar þegar svona stendur á, til þess að reyna að koma nauðsynlegustu skilaboðum í gegn."

Íslenzka flugstjórnarsvæðið nær frá 61. breiddargráðu að sunnan og norður á Norðurpólinn, og frá Greenwich-lengdarbaugnum að austan og vestur fyrir Grænland. "Flugstjórnin á þessu svæði byggist að langmestu leyti á samstarfi og upplýsingastreymi milli flugstjórnarstöðva. Ef það bregzt, getur farið illa," sagði Guðmundur. "Það var þó lán í óláni að þetta skyldi gerast síðdegis á sunnudag. Umferðin var að mestu leyti komin af stað og búið að úthluta flugvélum hæðum. Ef þetta hefði gerzt fyrr um daginn hefðum við verið í ennþá meiri vandræðum og sennilega orðið að grípa til þess ráðs að beina umferðinni frá okkar svæði. Slíkt hefði ófyrirsjáanlegar afleiðingar fyrir flugið, flugvélar yrðu jafnvel að snúa við til Evrópu."

Að sögn Þorvarðar Jónssonar, framkvæmdastjóra tæknisviðs Pósts og síma, sem rekur Skyggni, undirbýr stofnunin að treysta sambandið við útlönd í gegnum stöðina.

Sjá fréttir af rafmagnsleysi og óveðri á bls. 2, 27, 31 og miðopnu.