Verðhækkanir hjá ÁTVR: Sterku vínin hækka mest, bjórinn lækkar NÝ VERÐSTEFNA var tekin upp í gær hjá Áfengis- og tóbaksverslun ríkisins samhliða verðbreytingum í gær. Sterku vínin hækkuðu um 11-14%, létt vín um 7-10% og tóbak um 15,3% að jafnaði.

Verðhækkanir hjá ÁTVR: Sterku vínin hækka mest, bjórinn lækkar

NÝ VERÐSTEFNA var tekin upp í gær hjá Áfengis- og tóbaksverslun ríkisins samhliða verðbreytingum í gær. Sterku vínin hækkuðu um 11-14%, létt vín um 7-10% og tóbak um 15,3% að jafnaði. Hins vegar var áætlað bjórverð lækkað. Þessi verðstefna er "tilraun til þess að hafa áhrif á neysluvenjur í samræmi við ríkjandi viðhorf í heilbrigðismálum og breyttar áherslur víða um heim varðandi hollustu og lifnaðarhætti", segir í frétt frá fjármálaráðuneytinu. Áætlað er að hækkunin muni færa ríkissjóði 450-500 milljóna króna tekjuauka á þessu ári.

Heildarsala ÁTVR á þessu ári, að meðtalinni þessari nýjustu verðhækkun, er áætluð nema 6.155 milljónum króna. Þar af er áfengi 4.274 milljónir, tóbak 880 milljónir og bjór 1.000 milljónir. Höskuldur Jónsson forstjóri ÁTVR segir að ekki sé enn fyrir séð hvort þessar sölutölur muni nást. Hann segir að vænta megi frekari hækkana síðar á árinu til að náinn þessum tekjum, nema bjórsala muni skila af sér meira fé en vænst hefur verið.

Bjórverð er nú áætlað lægra en áður. Dós af innlendum bjór átti að kosta 115 krónur og af innfluttum 145 krónur. Í frétt fjármálaráðuneytisins er sagt að innflutt bjórdós muni kosta á bilinu 100-115 krónur, en innlendur bjór innan við 100 krónur dósin. Ein ástæða verðlækkunarinnar er hagstæð innkaup í kjölfar útboðs.

Hluti þessara verðhækkana er skýrður með gengislækkunum krónunnar undanfarin misseri. Verð á áfengi og tóbaki hefur hækkað um 5% síðan í janúar 1988 og engin hækkun orðið á meðan gengið hefur verið fellt þrisvar sinnum, um 3%, 4% og 2,5%.

Breytt verðstefna þýðir að fyrstu 2,25% vínandainnihalds vínflösku bera ekki vínandaskatt. Því verða létt vín á hlutfallslega lægra verði en sterk.

Hér verða talin nokkur dæmi um verðbreytingarnar.

Rauðvín: St. Emilion hækkar um 10,3%, úr 780 kr. í 860 kr. flaskan. Patriarch hækkar um 7%, úr 570 kr. í 610 kr.

Hvítvín: Beau Rivage hækkar um 9,6%, úr 520 kr. í 570 kr. flaskan. Hochheimer Daubhaus hækkar um 8,6%, úr 580 kr. í 630 kr.

Sterk vín: Campari Bitter hækkar um 14,4%, úr 1.390 kr. í 1.590 kr. Ballantines-viskí hækkar um 14,0%, úr 1.710 kr. í 1.950 kr. Absalutvodka hækkar um 13,1%, úr 1.450 kr. í 1.640 kr. Gamalt brennivín hækkar um 10,7%, úr 1.400 kr. í 1.550 kr. Brennivín hækkar um 30%, úr 1.000 kr. í 1.300 kr.

Höskuldur segir brennivínsverðið hafa verið lagfært núna, það hafi verið óeðlilega lágt um nokkurt skeið. Áströlsk vín lækkuðu, sem dæmi um það er Hardy's Collection sem lækkaði um 4,7%, úr 850 kr. í 810 kr. flaskan.

Winston-sígarettupakki hækkar um 17,2%, úr 145 kr. í 170. Pakki af Prince hækkar um 12,3%, úr 146 kr. í 164 kr. Danitas-vindlapakki hækkar um 8,8%, úr 230 kr. í 250 kr. og Half