Tryggingar Þrjú félög eftir sameiningu BÍ og Samvinnutrygginga "ÞAÐ MERKILEGA við þetta allt saman er að samkvæmt samkomulaginu verða úr þessum tveimur tryggingafélögum þrjú tryggingafélög.

Tryggingar Þrjú félög eftir sameiningu BÍ og Samvinnutrygginga "ÞAÐ MERKILEGA við þetta allt saman er að samkvæmt samkomulaginu verða úr þessum tveimur tryggingafélögum þrjú tryggingafélög. Brunabótafélag Íslands og Samvinnutryggingar halda áfram starfsemi sinni hvað varðar húsatryggingarnar, en hið nýja félag verður með aðrar tryggingar. Menn veltu því vitaskuld fyrir sér hvernig þetta megi verða og töldu að þetta veikti stöðu sveitarfélaganna og að með tilliti til lagaákvæða um að Brunabótafélaginu sé skylt að veita lán, styrki og aðstoð, yrði félagið ekki nógu öflugt eftir sameininguna þegar yrði búið að færa höfuðstólinn að mestu inn í hið nýja félag," sagði Sturla Böðvarsson bæjarstjóri í Stykkishólmi. Hann satfulltrúaráðsfund BÍ, þar sem samþykkt var að félagið sameinaðist Samvinnutryggingum. Ingi R. Helgason forstjóri BÍ segir þetta vera ástæðulausan ótta, þvert á móti styrkist sambandið við sveitarfélögin. "Þeir verða ekki bornir fyrir borð, heldur vel séð fyrir þeim að mínu mati," sagði Ingi.

Fulltrúaráðsfundir BÍ og Samvinnutrygginga samþykktu sameininguna, sem felst í því að megin hluti vátryggingastarfsemi þeirra verður í höndum sameiginlegs tryggingafélags, Vátryggingafélags Íslands hf. Stofnfundur þess félags var haldinn á sunnudag, 5. febrúar. Stjórn þess skipa Ingi R. Helgason formaður, Guðjón B. Ólafsson varaformaður, Hallgrímur Sigurðsson ritari, Björgvin Bjarnason, Friðjón Þórðarson, Guðmundur Oddsson, Magnús Gauti Gautason og Þorsteinn Sveinsson meðstjórnendur. Axel Gíslason hefur verið ráðinn forstjóri nýja félagsins.

Sturla Böðvarsson segir að gagnrýni hafi komið fram á fulltrúaráðsfundi BÍ á forstjóra og stjórn félagsins fyrir aðdragandann og vinnubrögðin og ekki síður fyrir það hvernig hag félagsins er komið. "Það hefur verið rekið með tapi í að minnstakosti tvö undanfarin ár, fyrir það kom fram mikil gagnrýni."

Ingi R. Helgason segir eðlilegt að þessi gagnrýni hafi komið fram. "Sameiningin kom öllum í opna skjöldu, ekki aðeins fulltrúaráðs mönnum og sveitastjórnum, heldur líka fjölmiðlum. Maður er ekki að skorast undan þessari gagnrýni. En svona verk er ekki hægt að vinna í fjölmiðlum. Það hins vegar dró ekkert úr ákvörðunarvaldi fulltrúaráðs manna." Ingi sagði að mikil hagkvæmni næðist með sameiningunni, ekki síst að nú verður eftirleiðis hægt að notast við eitt húsnæði ístað tveggja áður á hverjum stað. Ennfremur nýtist allt kerfi eins og tölvukerfi betur. Hann segir að fyrir dyrum standi að endurnýja það. Ingi segir að tap hafi verið á rekstri BÍ 1987, en ekki liggi fyrir uppgjör síðasta árs. Þó er vitað að tap varð á húsatryggingunum. Bætur vegna brunatjóna voru í fyrra 176 milljónir króna, en iðgjöld námu 136 milljónum. Um næstu mánaðamót verður starfsmönnum BÍ sagt upp og þá um leið endurráðnir þeir sem fá áfram vinnu hjá hinni nýju samsteypu tryggingafélaganna.

Sturla segir að ýmsar spurningar hafi verið lagðar fyrir forstjórann, sem var aðallega í forsvari. Lagt var fram bréf frá ráðherra. "Þar kemur meðal annars fram það orðalag að hann fallist á þetta með skilyrðum, á meðan fyrirmæli um tilvist félagsins og skyldur þess til að sinna brunatryggingum eru í lögum landsins. Þetta bendir til þess að hann hyggist breyta lögunum. Að lokum var til afgreiðslu ályktun frá stjórn BÍ þar sem þetta átti að samþykkjast. Um hana urðu miklar umræður og niðurstaðan varð sú að ég lagði til viðbótarsamþykkt, sem síðan var kokkað upp úr samkomulag sem Ingi lagði fram. Þar var bætt við ályktunina að það væri ítrekað að hinu nýja félagi yrði gert að standa að baki Brunabótafélaginu hvað varðar skyldur við sveitarfélögin. Ályktunin eins og hún var frá stjórninni hefði að mínu mati verið samþykkt með naumum meirihluta. Ég leit svo áað það væri ekki hagstætt fyrir félagið og þá sveitarfélögin þar með, að þetta yrði samþykkt með hangandi hendi og okkar menn yrðu í lakari samningsaðstöðu gagnvart samvinnuhreyfingunni. Þess vegna lagði ég til þessa viðbót og þar með var þetta samþykkt með svona miklum meirihluta."

Sturla lagði til í lokin að höfuðstöðvarnar yrðu færðar til Akureyrar. "Brunabótafélagið er fyrst og fremst í viðskiptum við landsbyggðina, það á stóra húseign á Akureyri og ég tel það miklu hugnanlegra að fara norður til Akureyrar en upp í Ármúla í Sambandshúsið." Tillögunni var vísað til stjórnar.