Ólöf Ágústa Jónsdóttir Kveðja frá Fjölbrautaskólanum í Garðabæ Í dag kveðjum við Ólöfu Ágústu Jónsdóttur, unga stúlku, sem féll frá á því æviskeiði, sem er upphaf afls og atorku. Harmafregnin kom óvænt, atburðarásin var óskiljanleg og treginn af þeim sökum djúpur og sár. Ótrúlegt slys á öskudaginn. Barn fast í skíðalyftu. Ólöf, snarráð og æðrulaus, gerði það eitt sem dugði, en hún lét líf sitt. Kveðjuorð eru þung í skrifum, orða er vant. Það var tregt tungu að hræra, þegar ég færði nemendum skólans þessa sorgarfregn.

Ólöf Ágústa Jónsdóttir var nemandi í Fjölbrautaskólanum í Garðabæ. Hún var góður nemandi. Dugnaður hennar fór vaxandi og hún stefndi á að ljúka stúdentsprófi í vor. Blákaldar staðreyndir lífsins hafa breytt því sem öðru. Ekki fer hjá því í fjölmennum skóla, að sumir skilja meira eftir í hugum samferðarmannanna en aðrir. Kynni okkar voru stutt, en nokkur atvik leita þó mjög sterkt á hugann. Fyrir nokkru kom Ólöf til mín á skrifstofuna. Henni var mikið niðri fyrir vegna sérstakra ákvæða, er giltu um skólasókn nemenda. Henni fannst réttlætinu nokkuð misboðið. Hún var rökvís, en um fram allt mjög kurteis. Réttlætiskennd hennar bar hærra hlut í því máli. Eftir stendur það, sem mestu skiptir, minning um háttvísi og ríka ábyrgðartilfinningu. Samleið okkará vegferðinni miklu var alltof stutt, en það er huggun að eiga minningar um góða stúlku, sem nú hefurverið kölluð til annarra starfa.

Að leiðarlokum votta ég foreldrum Ólafar, unnusta, systkinum svoog öðrum ástvinum hennar innilega samúð mína og ég flyt þær kveðjur frá nemendum, kennurum og öðru starfsfólki Fjölbrautaskólans í Garðabæ.

Blessuð sé minning Ólafar Ágústu Jónsdóttur.

Þorsteinn Þorsteinsson