Skagaströnd-Snurvoðarbáturinn Guðrún Jónsdóttir fékk nýlega óvenjulegan feng í veiðarfærin þegar báturinn var að veiðum á gömlu skipalegunni fyrir utan höfnina á Skagaströnd. Stærðar ankeri kom upp með voðinni og voru þeir á Guðrúnu í basli við að ná því innfyrir. Ankerið er greinilega búið að liggja í sjónum lengi því það er farið að láta á sjá.
Gamalt skútuankeri kom í snurvoðina

Skagaströnd - Snurvoðarbáturinn Guðrún Jónsdóttir fékk nýlega óvenjulegan feng í veiðarfærin þegar báturinn var að veiðum á gömlu skipalegunni fyrir utan höfnina á Skagaströnd. Stærðar ankeri kom upp með voðinni og voru þeir á Guðrúnu í basli við að ná því innfyrir.

Ankerið er greinilega búið að liggja í sjónum lengi því það er farið að láta á sjá. Gamlir sjómenn telja að ankerið sé af skútu og þykjast þeir sjá það af því hvernig það er í laginu.

Skipverjarnir á Guðrúnu færðu Vilhjálmi Skaftasyni hafnarverði ankerið að gjöf og stefnir hann að því að koma því fyrir á hafnarsvæðinu.